Mál 375/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 375/2024
Fimmtudaginn 5. september 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 15. ágúst 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2023, um að staðfesta fyrri ákvörðun frá 24. apríl 2023 um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu mars til júní 2021 vegna fjármagnstekna, að fjárhæð 276.433 kr., að meðtöldu 15% álagi. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. maí 2023. Í kjölfar erindis kæranda, dags. 22. júní 2023, var mál hans tekið fyrir að nýju. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2023, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn í málinu. Þann 19. júní 2024 var kæranda tilkynnt að ógreidd krafa vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta hefði verið áframsend til frekari meðferðar hjá Innheimtumiðstöð.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. ágúst 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. ágúst 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 28. ágúst 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um að krefjast endurgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tvo mánuði af þeim sex sem kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur árið 2021. Ástæða kröfunnar séu fjármagnstekjur kæranda og maka hans á árinu. Kærandi telji í fyrsta lagi að samkvæmt tilvísun í tilkynningu um ákvörðunina frá Vinnumálastofnun séu fjármagnstekjur samskattaðra hjóna sameiginlegar, óháð því hvort þeirra sé skráð fyrir þeim eignum sem skapi tekjurnar, og því ekki rétt að draga þær að fullu frá bótum annars hjónanna. Hlutabréf á verðbréfareikningi í bönkum sé aðeins hægt að skrá á eina kennitölu og einnig sé hlutabréfaeign skráð á eina kennitölu í skattskýrslu og ekki annað hægt. Það breyti ekki því að hlutabréf þeirra hjóna séu óskipt sameign eins og aðrar eignir, fasteignir og lausafé. Í öðru lagi komi fram í úrskurði nr. 412/2022 að „Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að um fjármagnstekjur gildi samsköttun þannig að tekjur hjóna samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt skuli leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hafi hærri tekjur, sbr. 2. tl 1. mgr. 62. gr. laganna. Þannig geti allar fjármagnstekjur talist til tekna atvinnuleitanda við skattlagningu hafi hann hærri tekjur en maki hans og öfugt.“ Samkvæmt skattskýrslu ársins sem um ræði séu launatekjur maka kæranda mun hærri en kæranda árið 2021 og því ættu allar fjármagnstekjur hjónanna að teljast til tekna maka kæranda og því ekki að koma til frádráttar atvinnuleysisbótum kæranda. Í þriðja lagi, og til vara, ættu hugsanlegar skerðingar bóta vegna fjármagnstekna sem eðli málsins samkvæmt komi óreglulega, t.d. sem vaxtatekjur í lok árs, hagnaður af sölu verðbréfa eða greiddur arður, að dreifast jafnt á þá mánuði viðkomandi árs sem bætur séu greiddar. Þessu til stuðnings vísist til athugasemda við ákvæði 36. gr. í frumvarpi til laganna þar sem segi svo um lokamálsliðinn: „Komi til tekna sem greiddar eru út fyrir ákveðið tímabil, til dæmis greiddar út fyrir allt árið við árslok, skal eingöngu miða við þann tíma er hlutaðeigandi var á atvinnuleysisbótum. Koma þá tekjurnar til frádráttar samkvæmt reglu 1. mgr. sem nemur því hlutfalli sem sá tími er hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur var af heildartímanum sem umræddar tekjur voru ætlaðar fyrir.“ Arður af hlutabréfum sé að jafnaði greiddur árlega, líkt og vextir, þó arðgreiðsla falli sjaldnast á áramót. Hagnaður af sölu verðbréfa sé einnig afleiðing af fjárfestingu og verðbréfaeign til lengri tíma og því varla ætlun löggjafans að slíkar fjármagnstekjur komi til frádráttar aðeins í þeim mánuði sem salan sé gerð. Í rökstuðningi Vinnumálastofnunar til kæranda sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála, nr. 273/2019, sem sé eðlislíkt mál og hér sé til umfjöllunar. Í þeim úrskurði sé staðfest verklag Vinnumálastofnunar þar sem fjármagnstekjum kæranda í því máli hafi verið dreift jafnt á 12 mánuði ársins sem um hafi verið fjallað og aðeins taldar til frádráttar það tímabil (mánuði) sem kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur. „Í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda verið leiðréttar fyrir árið 2017. Fjárhæð fjármagnstekna kæranda hafi verið dreift jafnt niður á 12 mánuði ársins og skerðingarstofn vegna fjármagnstekna því 453.422 kr. á mánuði. Eingöngu hafi verið tekið tillit til þeirra tekna sem kærandi hafi haft á þeim tíma er hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, þ.e. frá 2. febrúar til 12. desember 2017, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laganna.“ Hvert og eitt af nefndum atriðum ættu að leiða til þess að engin skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda sé réttmæt samkvæmt lögunum.
Kæranda hafi borist bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 24. janúar 2023, með tilkynningu um samkeyrslu framtala einstaklinga við greiddar atvinnuleysistryggingar árið 2021 og að samkvæmt RSK hafi kærandi fengið fjármagnstekjur að upphæð 981.079 kr. allt árið 2019 en kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar janúar til júní það ár. Óskað hafi verið eftir afriti af skattframtali fyrir tekjuskattsárið 2021 ásamt fylgigögnum. Í bréfinu komi jafnframt eftirfarandi fram: „Sé atvinnuleitandi samskattaður með maka skiptast fjármagnstekjur almennt jafnt á milli hjóna eða sambýlisfólks, nema um séreign maka eða atvinnuleitanda sé að ræða. Ef um séreign maka er að ræða þurfa gögn því til stuðnings að fylgja með innsendum gögnum.“ Kæranda hafi síðan borist ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. apríl 2023, um skuld vegna fjármagnstekna árið 2021 og ofgreiddra atvinnuleysisbóta í mars og júní það ár upp á 240.377 kr., auk 15% álags, samtals 276.433 kr. Síðar sama dag séu skráð „Samskipti“ á síðum Vinnumálastofnunar um leiðréttingu á upphæð ofgreiddra atvinnuleysistrygginga og þær þá sagðar 264.804 kr., auk álags, samtals 304.524 kr. Kærandi hafi sent bréf til Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2023, þar sem hann taki fram að allar fjármagnseignir þeirra hjóna, og þar með þær sem hafi gefið þeim hjónum tekjur árið 2021, séu sameign þeirra hjóna og fjármagnstekjur samskattaðar. Hlutur kæranda í þessum sameiginlegu fjármagnstekjum sé því 58.139 kr. fyrir mars 2021 og 429.340 kr. fyrir júní 2021. Í bréfinu hafi kærandi óskað eftir útreikningi og rökstuðningi vegna ákvörðunarinnar. Kæranda hafi borist rökstuðningur Vinnumálastofnunar, dags. 30. maí 2023, þar sem vísað sé til þess að nánari útlistun á skerðingu hvers mánaðar fyrir sig megi sjá á greiðsluseðli stofnunarinnar, dags. 24. apríl 2023, sem aðgengilegur sé á „mínum síðum“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar, vmst.is. Engan slíkan greiðsluseðil hafi hins vegar verið að finna á „mínum síðum“ kæranda á vef vmst.is en úr því hafi nú verið bætt. Í samræmi við þetta verklag Vinnumálastofnunar sem úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest í úrskurði nr. 273/2019 hafi kærandi sent bréf, dags. 22. júní 2023, þar sem hann hafi farið fram á endurskoðun Vinnumálastofnunar á ákvörðuninni þannig að farið yrði eftir því verklagi sem lýst sé í úrskurði þeim sem vísað hafi verið til, og fjármagnstekjum skipt til helminga milli þeirra hjóna og dreift á þá mánuði sem kærandi hafi notið atvinnuleysisbóta.
Samkvæmt meðfylgjandi útreikningi séu samanlagðar atvinnuleysisbætur og frítekjumark 16.602 kr. hærri en samanlagðar atvinnuleysisbætur og fjármagnstekjur þá mánuði sem kærandi hafi notið atvinnuleysistrygginga og því enginn grundvöllur til að skerða bætur þetta tímabil. Vinnumálastofnun hafi staðfest fyrri ákvörðun með stöðluðu bréfi, dags. 3. júlí 2023, án frekari rökstuðnings. Ekki hafi heyrst meira frá stofnuninni fyrr en tæpu ári síðar, eða 19. júní 2024, þar sem kæranda sé tilkynnt að krafan verði send til innheimtu og í framhaldi hafi borist innheimtubréf frá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, dags. 20. júní 2024. Kærandi hafi greitt kröfuna innan tilskilins frests með fyrirvara um kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi óski þess að krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu atvinnuleysistrygginga fyrir árið verði felld niður og greidd krafa endurgreidd kæranda.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2023, um að um að staðfesta fyrri ákvörðun frá 24. apríl 2023 um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2023, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 15. ágúst 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst rúmlega ári eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir