Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 118/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. apríl 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 118/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 25. júní 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 25. júní 2011 fjallað um fjarveru kæranda í viðtali hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 15. apríl 2010. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 12. júlí 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í mars og hafi þurft að bíða eftir ákvörðunarbréfi frá Vinnumálastofnunar sem þá hafi ekki enn borist. Kærandi hafi fengið upplýsingar um ákvörðun Vinnumálastofnunar í gegnum félagsmálastofnun í júlí þegar hann sótti um framfærslustyrk þaðan og því hafnað. Þessi bið og óvissa hafi valdið fjárhagslegum skaða fyrir hann. Þá greinir hann frá því að hann hafi ekki fengið boðunarbréf á kynningarfund.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, kemur fram að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. nánar skýrt. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í greinargerðinni segir að kærandi hafi látið hjá líða að mæta á fund er Vinnumálastofnun hafi gert honum að mæta á þann 15. apríl 2010 en kæranda hafi verið gerð grein fyrir þeim fundi er hann sótti um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Í skýringarbréfi kæranda sem barst Vinnumálastofnun þann 4. maí 2010 segi hann fjarveru sína á fundi stofnunarinnar stafa af því að hann hafi þurft að sinna syni sínum. Þá hafi hann sagt að hann hafi ekki séð boðunarbréfið. Síðar hafi kærandi tjáð Vinnumálastofnun að sökum mistaka hans á skráningu heimilisfangs hans hafi hann ekki fengið póstsendingar sem sendar voru á skráð aðsetur kæranda. Vinnumálastofnun greinir frá því að það að kærandi hafi þurft að vera með syni sínum á fundardegi sé málinu óviðkomandi enda ástæða þess að kærandi mætti ekki á fund sú að honum hafi ekki verið kunnugt um fundarboðið.

Fram kemur að það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send honum með viðurkenndum hætti og tilkynni stofnuninni um breytingar á heimilisfangi. Vinnumálastofnun líti svo á að það teljist liður í virkri atvinnuleit að upplýsa stofnunina um þær breytingar sem verði á högum atvinnuleitenda, hafi þær breytingar bein áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna starfsviðtölum sem stofnunin boði til með sannanlegum hætti.

Vinnumálastofnun greinir frá því að þau bréf sem hafi verið send kæranda vegna framangreinds fundar hafi verið send að B-götu 5 í Reykjavík. Stofnuninni hafi ekki verið kunnugt um annað heimilisfang enda hafi kærandi sjálfur skráð það sem aðsetur sitt í umsókn um atvinnuleysisbætur. Þar sem kærandi hafði tilkynnt framangreint heimilisfang sem aðsetur sitt hjá stofnuninni aðeins örfáum dögum áður en hann var boðaður á fund stofnunarinnar telji hún að ekki sé unnt að rekja umrædd mistök til stofnunarinnar. Enn fremur vekur stofnunin athygli á því að boðun á umræddan fund hafi ekki verið send kæranda bréflega heldur hafi honum verið gerð grein fyrir kynningarfundi stofnunarinnar er hann sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þau bréf stofnunarinnar sem send hafi verið voru skráð á heimilisfang kæranda, varði beiðni um skýringu á fjarveru sem og ákvörðun stofnunarinnar. Vinnumálastofnun upplýsir að þegar atvinnuleitandi sækir um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni, hvort sem það sé gert með rafrænum hætti eða skriflega á skrifstofu stofnunarinnar, sé hann boðaður á kynningarfund. Þegar umsóknarferli sé lokið sé umsækjanda gerð grein fyrir kynningarfundi og honum afhent afrit af boðun. Þessi aðferð til boðunar á vinnumarkaðsúrræði sé að mati stofnunarinnar best til þess fallin að kynna fyrir nýjum umsækjendum fyrsta fund stofnunarinnar. Telur stofnunin að kærandi hafi verið boðaður með sannanlegum hætti á umræddan fund.

Í ljósi þess að rík skylda hvílir á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar og í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti réttlætt fjarveru kæranda á fundi stofnunarinnar. Með fjarveru sinni hafi kærandi því brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 8. gr. en hún er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fjallar annars vegar um það þegar sá sem þiggur greiðslu atvinnuleysisbóta hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum eða mætir ekki á boðuðum tíma til Vinnumálastofnunar. Í 6. mgr. 9. gr. laganna segir:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.“Í 3. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 18. gr. áðurnefndra laga er samhljóða ákvæði:

„Vinnumálastofnun er heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum. Skal hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.“

Ekki verður hjá því komist að horfa til þeirrar skyldu sem lögð er á umsækjanda atvinnuleysisbóta í síðastgreindu ákvæði, þ.e. að sú skylda hvílir á umsækjanda að hann skuli ávallt mæta til Vinnumálastofnunar á meðan hann þiggur atvinnuleysisbætur, jafnvel þó með stuttum fyrirvara sé. Ákvæði 1. mgr. 58. gr. sem að ofan greinir byggir á því að ef sá sem þiggur atvinnuleysisbætur annaðhvort hafnar að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum, eða atvinnutilboði eða mætir ekki í boðaðan tíma hjá Vinnumálastofnun, skuli bætur hans felldar niður í tvo mánuði. Þær skýringar kæranda að bréf til hans hafi farið á rangan stað eða að hann hafi þurft að sinna barni sínu á boðuðum fundartíma, geta ekki talist lögmæt forföll í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Það er á ábyrgð þess sem þiggur greiðslu atvinnuleysisbóta að ávallt séu réttar upplýsingar um hann og dvalarstað hans hjá Vinnumálastofnun. Það að þurfa að sinna börnum sínum er ekki talin gild ástæða fyrir því að mæta ekki á fund.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. mars 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta