Mál nr. 33/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. mars 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 33/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 31. janúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri hafnað þar sem umbeðin vottorð vinnuveitenda hafi ekki borist. Í bréfinu kemur fram að ekki hafi verið ljóst hvort 1. gr., 1. mgr. 9. gr. og a-liður 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum og virka atvinnuleit væru uppfyllt. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 24. nóvember 2010. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar þann dag kemur fram hvaða vottorð kæranda hafi borið að skila til stofnunarinnar. Vottorð vinnuveitanda barst frá B ehf. þann 25. nóvember 2010 og samkvæmt því hafði kærandi starfað hjá fyrirtækinu frá 9. júlí til 14. ágúst 2010. Það starf nægði ekki til ávinnslu bótaréttar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. desember 2010, var honum veittur frestur til að leggja fram vottorð vinnuveitanda frá B hf. Í bréfinu var kæranda bent á að án umbeðinna gagna væri ekki unnt að taka afstöðu til réttar kæranda til atvinnuleysistrygginga. Engin gögn bárust frá kæranda og með bréfi, dags. 31. janúar 2011, var honum tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur þar sem umbeðin gögn höfðu ekki borist. Þann 7. febrúar 2011 barst Vinnumálastofnun vottorð vinnuveitenda frá B ehf., en það vottorð hafði kærandi þegar sent stofnuninni. Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur þann 10. febrúar 2011 og lagði þá fram nauðsynleg gögn. Umsókn hans var samþykkt og fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. febrúar 2011, segir kærandi ástæður kærunnar vera þær að hann telji sig ekki bera nema takmarkaða ábyrgð á að nauðsynlegar upplýsingar hafi borist Vinnumálastofnun. Gögn frá B hafi ekki borist vegna ástæðna sem rekja mátti til forstöðumanns þeirrar stofnunar. Þá hafi vottorð frá B ehf. einhverra hluta farið forgörðum. Loks hafi kærandi talið sig hafa skilað vottorði frá B.
Kærandi bendir á að þegar hann hafi skilað gögnum til Vinnumálastofnunar hafi komið upp ágreiningur á milli hans og starfsmanns Vinnumálastofnunar sem hann telur sjálfan sig bera ábyrgð á. Það hafi endað með því að hann hafi farið út án þess að átt sig á því að hann hafi farið með gögn frá B með sér.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. júní 2011, kemur fram að eðli málsins samkvæmt sé það grundvallarskilyrði til að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta að hinn tryggði sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar. Þá skuli atvinnuleitandi, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, leggja fram skriflegt vottorð fyrrverandi vinnuveitanda er hann sækir um atvinnuleysisbætur. Að öðrum kosti sé Vinnumálastofnun ekki unnt að staðreyna starfstíma eða starfshlutfall umsækjanda á ávinnslutímabilinu. Enn fremur skuli koma fram ástæður þess að umsækjandi hætti störfum hjá vinnuveitanda. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að kæranda bæri að skila umbeðnum vottorðum vinnuveitanda til stofnunarinnar hafi gögnin ekki borist frá kæranda. Kærandi mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 8. desember 2010 og sagði fulltrúa stofnunarinnar að hann ætlaði sér ekki að leggja fram hluta af gögnum í máli sínu. Enn fremur að hann kærði sig ekki um að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Með bréfi, dags. 17. desember 2010, var kæranda veittur sjö daga frestur til að skila umbeðnum gögnum. Engin gögn bárust frá kæranda og hafi umsókn hans um atvinnuleysisbætur því verið hafnað enda hafi hann ekki uppfyllt hin almennu skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Í ljósi ummæla kæranda var hann afskráður af atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar.
Fram kemur að jafnvel þótt tafir á framvísun nauðsynlegra gagna til Vinnumálastofnunar mætti að hluta til rekja til fyrri vinnuveitenda kæranda, verði ekki horft fram hjá því að kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína á umræddu tímabili. Þá hafi hann tjáð fulltrúa Vinnumálastofnunar þann 8. desember 2010 að hann kærði sig ekki um að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni og hafi hann yfirgefið stofnunina án þess að færa fram nauðsynleg gögn.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta varðar þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 25. nóvember 2010 til 10. febrúar 2011 eftir að umsókn hans hafði verið hafnað þar sem umbeðin vottorð vinnuveitenda höfðu ekki borist stofnuninni.
Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í f-lið 13. gr. laganna kemur fram að meðal skilyrða fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna er að leggja fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr. laganna, og vottorð frá skóla þegar það á við, sbr. 3. mgr. 15. gr. Í 16. gr. laganna er fjallað um vottorð vinnuveitanda og hljóðar 1. mgr. 16. gr. laganna svona:
„Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., skal leggja fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda er hann sækir um atvinnuleysisbætur. Vottorðið skal vera skriflegt á þar til gerðu eyðublaði þar sem meðal annars kemur fram starfstími hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili skv. 15. gr. ásamt starfshlutfalli hans. Ennfremur skal tilgreina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað.“
Samkvæmt framangreindu ber atvinnuleitandi sjálfur ábyrgð á því að leggja fram vottorð vinnuveitanda. Hann getur ekki borið fyrir sig seinagang fyrrverandi vinnuveitanda eða sjálfs sín. Kærandi lagði ekki fram umbeðin vottorð vinnuveitenda þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar þar að lútandi. Því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. janúar 2011 í máli A um synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson