Mál nr. 104/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. maí 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 104/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 29. júlí 2011 fjallað um þátttöku kæranda á námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar sem stóð frá 26. apríl til 23. júní 2011. Vegna ófullnægjandi mætingar kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. ágúst 2011. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. nóvember 2010. Þann 25. mars 2011 var kærandi boðuð til fundar á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar vegna kynningar á námskeiðum. Kærandi mætti á kynningarfundinn 28. mars 2011 og í kjölfarið skráði hún sig á námskeið í grafískri hönnun. Þann 13. apríl 2011 staðfesti kærandi þátttöku sína á námskeiðinu ísoft grafísk hönnun og vefsíðugerð. Námskeiðið stóð frá 26. apríl til 23. júní 2011. Á bókunarblaði því er kærandi undirritaði þann 13. apríl 2011 er vakin sérstök athygli á því að það gæti valdið niðurfellingu á greiðslum atvinnuleysistrygginga ef atvinnuleitandi hafnar úrræðum Vinnumálastofnunar eða sinnir ekki mætingarskyldu á námskeiðið.
Mæting kæranda á umrætt námskeið var ekki viðunandi. Samkvæmt námskeiðshaldara var kærandi einungis með 64% mætingu á námskeiðið eftir að tekið hafði verið tillit til fjarvista vegna veikinda barns. Mætingarskylda á námskeiðið var 90%.
Með bréfi, dags. 8. júlí 2011, óskaði Vinnumálastofnun því eftir skriflegum skýringum á fjarveru kæranda á námskeið stofnunarinnar. Kæranda var veittur frestur til að skila skriflegum athugasemdum sem bárust frá kæranda þann 18. júlí 2011. Í skýringarbréfi kæranda til stofnunarinnar segir kærandi ástæður þess að hún hafi hætt að mæta á námskeiðið vera þær að um byrjendanámskeið í grafískri hönnun hafi verið að ræða og þar sem hún væri myndlistarkona kynni hún vel á þau forrit sem kennt væri á. Af þeim sökum hafi henni þótt erfitt að sitja tímana.
Á fundi Vinnumálastofnunar þann 27. júlí 2011 var mál kæranda tekið fyrir og með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda þá ákvörðun stofnunarinnar að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar í tvo mánuði frá ákvörðunardegi þar sem hún hafi ekki sinnt mætingarskyldu sinni í boðaðri vinnumarkaðsaðgerð á vegum stofnunarinnar.
Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 3. ágúst 2011, kveðst kærandi hafa verið sett á námskeið í grafískri hönnun hjá Vinnumálastofnun en því miður hafi verið um að ræða byrjendanámskeið og þar sem kærandi sé myndlistarmaður vinni hún mikið með þessi forrit. Kærandi hafi haldi að hún myndi læra eitthvað nýtt en svo var því miður ekki. Þess vegna hafi hún hætt að mæta síðasta mánuðinn. Kærandi kveðst vita að hún hafi gert mistök að láta ekki þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar vita og óska þess að sækja annað námskeið. Kærandi segist vera að fara í nám í Listaháskólanum 22. september 2011 og það skipti hana miklu að fá bætur næstu tvo mánuðina til að geta farið í það nám, en hún hafi hvorki efni á að greiða leigu né mat fyrir dóttur sína. Hefði hún gert sér grein fyrir afleiðingunum þá hefði hún farið á annað námskeið. Loks óskar kærandi eftir að nefndin sjái hagsmuni sína í því að láta hana fá bætur næstu tvo mánuðina í stað þess að hún fari ekki í nám og þurfi þá kannski að vera á bótum allt næsta ár.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. ágúst 2011, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem skýrt komi fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Vinnumálastofnun bendir á að í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá hafi jafnframt verið tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að virk atvinnuleit felist meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er til boða standi. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem vinnumálastofnun býður upp á.
Einnig vísar Vinnumálastofnun til þess að skv. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli atvinnuleitandi tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Verði að telja nauðsynlegt að atvinnuleitandi tilkynni stofnuninni hyggist hann ekki sækja námskeið sem hann hefur skráð sig á.
Það er eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendum beri að tilkynna til stofnunarinnar án ástæðulausrar tafar ef þeir telja sig ekki geta sótt námskeið hjá stofnuninni.
Þá kemur fram í greinargerð Vinnumálastofnunar að í ljósi þess að það hvíli rík skylda á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat stofnunarinnar að skýring sú er kærandi hafi fært fram í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar geti ekki réttlætt fjarveru kæranda á framangreindu námskeiði og að með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Að lokum sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar, með vísan til framangreindra sjónarmiða, að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráð hjá stofnuninni án greiðslna atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá 3. ágúst 2011, að því gefnu að hún uppfylli öll almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. september 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. september 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“
Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er meðal annars virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga til atvinnuleitanda. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. 14. gr. laganna. Í h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um það skilyrði atvinnuleitanda að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem honum standa til boða.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ekki með fullnægjandi hætti á námskeið sem hún skráði sig á hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt námskeiðshaldara var kærandi einungis með 64% mætingu á námskeiðið eftir að tekið hafði verið tillit til fjarvista vegna veikinda barns, en mætingarskylda á námskeiðið var 90%. Skýringar kæranda á fjarveru sinni voru þær að hún kynni efni námskeiðsins. Henni láðist hins vegar að tilkynna Vinnumálastofnun um það og óska um leið eftir að sækja annað námskeið. Þessar skýringar kæranda á ófullnægjandi mætingu á námskeið Vinnumálastofnunar eru ekki taldar réttlæta fjarveru hennar á námskeiðinu.
Fallist verður á þau rök Vinnumálastofnunar að grundvallarskilyrði þess að stofnuninni sé gert kleift að aðstoða atvinnuleitendur, sé að atvinnuleitandi uppfylli þau skilyrði sem kveðið er á um í lögunum, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með fjarveru sinni brást kærandi skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og slíkt leiðir til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. júlí 2011 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson