Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 105/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. maí 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 105/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Kæra þessi lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda, A, atvinnuleysisbætur frá 25. ágúst 2011 en ekki 1. júlí 2011 þegar kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun greiddi kæranda á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún taldist ekki tryggð á sama tíma og hún hafi átt ónýtta orlofsdaga. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 4. ágúst 2011. Hún krefst þess að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi. Vinnumálastofnun krefst þess að staðfest verði að kæranda beri að fá greiðslur frá 25. ágúst 2011.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 1. júlí 2011. Á vottorði vinnuveitanda, dags. 18. júlí 2011, útgefnu af X ehf. kemur fram að kærandi átti ótekið orlof við starfslok, alls 39 daga. Þar sem atvinnuleitandi telst ekki tryggður þann tíma sem nemur ónýttum orlofsdögum hefði kærandi ekki átt að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrstu 39 dagana er hún var skráð atvinnulaus hjá stofnuninni. Sökum kerfisvillu við útborgun atvinnuleysistrygginga kæranda þann 2. ágúst 2011 eftir að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur var samþykkt, var kæranda þó greiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 7.341 kr.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. ágúst 2011, greinir kærandi frá því að Vinnumálastofnun hafi ákveðið að skerða atvinnuleysisbætur til hennar í júlí og að því að henni sé tjáð, einnig í ágúst, með því að draga að fullu frá orlof fyrir almanaksárið 2010, 2011 og þar að auki vegna uppsafnaðs orlofs sem hún hafði ekki náð að taka á meðan hún starfaði hjá X ehf. Fyrirtækið hafi skuldað kæranda fjölmarga daga í orlof og hafi þá greitt eins og lög geri ráð fyrir þegar hún hafi hætt hjá fyrirtækinu. Þetta hafi verið orlof fyrir 2009 og 2010 og hluta árs 2011. Kærandi telji sig hafa átt rétt á þessum greiðslum og að þær eigi ekki að koma til frádráttar varðandi þetta mál. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til þess sem fram komi hjá VR: „Orlofsárið er frá 1. maí – 30. apríl ár hvert og skal orlof tekið í samráði við vinnuveitanda. Allir eiga rétt á 24 daga orlofi jafnvel þó þeir eigi ekki rétt til orlofslauna allan þann tíma hjá vinnuveitanda. Orlofstímabilið er frá 2. maí – 15. september. Til orlofsdaga teljast aðeins virkir dagar. Greiða skal út orlof við starfslok. VR gerir heildarkjarasamninga við tvenn samtök vinnuveitenda; SA og FA (áður FÍS), og eru ákvæði um orlofsrétt mismunandi eftir þessum tveimur samningum.“

Kærandi hafi kvartað yfir þessum útreikningum Vinnumálastofnunar 2. ágúst með tölvupósti og fengið svar þar sem vísað hafi verið til 16. gr. og 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi telji ósanngjarnt að Vinnumálastofnun túlki ákvæði 4. mgr. 51. gr. einhliða sér í vil, því ef kærandi hefði tekið þessa daga sem frí eða laun fyrr á tímabilinu, þá hefði ekki komið til þeirrar skerðingar sem nemi meira en frídögum yfir eitt almanaksár. Kærandi telji túlkun Vinnumálastofnunar hvorki vera sanngjarna né að meðalhófs hafi verið gætt við ákvörðunina.

Kærandi telji hins vegar að Vinnumálastofnun hafi túlkað lagaákvæðið sem vísað sé í þannig að allir frídagar allra ára eigi að taka nú í einu lagi, og án þess að tilkynna kæranda um það fyrirfram. Það geti ekki verið að almanaksár allra ára eigi að vera í útreikningum Vinnumálastofnunar. Kærandi fái ekki séð að fyrri ár komi stofnuninni við. Lagagreinin sem Vinnumálastofnun hafi vísað til í bréfi, dags. 2. ágúst 2011, sé ekki nógu skýr varðandi þetta atriði. Kærandi velti fyrir sér hvort ákvörðun Vinnumálastofnunar stangist ekki á við ákvæði um orlof meðan atvinnuleysi varir.

Þá greinir kærandi frá því að samkvæmt upplýsingum frá vinnuveitanda sínum hafi hún tekið eftirfarandi daga í frí og óskar eftir að það verði lagfært í gögnum málsins: 14., 15. og 16. júlí 2010, 4., 5. og 6. ágúst 2010, 1., 2., 3. og 6. september 2010, 27., 28. og 29. október 2010 og 21., 22., 23., 27. og 28., alls 18 daga.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. ágúst 2011, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði þá ákvörðun stofnunarinnar að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur frá móttöku umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur að því er nemur þeim orlofsdögum sem hún hafði ekki nýtt sér þegar hún hætti störfum hjá X ehf.

Vinnumálastofnun vísar til 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem mælt sé fyrir um hvað felist í virkri atvinnuleit, sem sé almennra skilyrða þess að njóta greiðslna atvinnuleysistrygginga. Í f-lið ákvæðisins segi að eitt af skilyrðum þess að atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit sé að hann eigi „ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við.

Þá vísar Vinnumálastofnun einnig til 4. mgr. 51. gr. laganna og telur að skýrt sé af framangreindum lagaákvæðum að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður þann tíma sem hann eigi ónýtta orlofsdaga hjá fyrri vinnuveitanda. Ljóst sé af gögnum málsins að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga 1. júlí 2010. Í vottorði vinnuveitanda kæranda frá X ehf. komi fram að kærandi hafi átt 39 ótekna orlofsdaga við starfslok. Í kæru sinni til úrskurðarnefndar hafi kærandi sagt að áunnir orlofsdagar hafi verið greiddir við starfslok. Sé því ljóst að umrætt orlofstímabil hafi þegar verið greitt til kæranda. Sé kærandi því samkvæmt framangreindu ekki tryggð á grundvelli laganna þann tíma.

Vinnumálastofnun telji því af öllu framangreindu virtu að kærandi eigi fyrst rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga frá 29. ágúst þegar orlofstíma hafi verið lokið.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar sé því sú að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga sem nemur þeim orlofsdögum sem hún hafi ekki nýtt sér þegar hún hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. september 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. september sama ár. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupóstum, dags. 6. september og 4. október 2011, en með þeim fylgja tölvupóstar frá Vinnumálastofnun, dagsettir í október og september 2011, þar sem kærandi hafði átt í samskiptum við stofnunina meðan málið var í vinnslu hjá úrskurðarnefndinni.

Í tölvupóstum kæranda frá 6. september og 4. október 2011 bendir hún meðal annars á rangfærslur í greinargerð Vinnumálastofnunar varðandi fjárhæðir og dagsetningar.

Kærandi telur að hér sé um óréttlæti að ræða, það komi Vinnumálastofnun ekki við hvort hún hafi tekið orlof árin 2009 og 2010 þar sem hún hafi ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr en eftir að orlofsárið 2011 var hafið. Kærandi hafi unnið þennan tíma og átt inni umræddan pening og það geti ekki verið að Vinnumálastofnun megi túlka lagaákvæði sér í vil svo viðkomandi fái ekkert um sagt og ekkert bætt. Fyrir utan það að Vinnumálastofnun hafi átt þessa tvo mánuði sem hún kjósi að greiða kæranda ekkert, að greiða kæranda 75% af 300.000 kr., sem sé heildarfjárhæð sem megi greiða út.

Einnig telur kærandi felast óréttlæti í því að greiða viðkomandi ekkert eins og gert hafi verið þennan mánuð sem nú sé hafinn og 6.996 kr. fyrir síðasta mánuð, ekki 7.341 kr. eins og fram kom af hálfu stofnunarinnar, en henni hafi ekki borist upplýsingar þess efnis, hvorki bréfleiðis né símleiðis.

Þá hafi komið fram af hálfu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið greitt frá 29. ágúst 2011, að eyðublaði hafi ekki verið skilað og að merkt hafi verið við endurkomu, en framangreint kannist kærandi ekki við. Þá undrast kærandi að gögn fylgi máli sínu frá því hún hætti hjá fyrirtæki sem hún fyrir árið 2008 og telur að þau komi heldur ekki máli sínu við af hálfu Vinnumálastofnunar. Þá bendir kærandi á misvísandi upplýsingar af hálfu stofnunarinnar um hvort hún hafi ekki verið á bótum til 24. eða 29. ágúst.

Þá bendir kærandi á að hún hafi ekki sótt um atvinnuleysisbætur 1. júlí 2010 heldur 2011 og fer fram á að tekið sé tillit til þess dags en ekki 4. júlí, enda hafi hún ekki komist inn á innskráningarkerfi stofnunarinnar þann 1. júlí. Hún hafi engar leiðbeiningar haft um að hún ætti ekki að fara í nýskráningu því hún hafði áður verið á bótum.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.

Í athugasemdum með umræddu ákvæði í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir að lagt sé til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó sé gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Komi orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. júlí 2011 og kemur það fram í gögnum málsins af hálfu beggja aðila. Á vottorði vinnuveitanda, X ehf., dags. 10. júlí 2011, kemur fram að við starfslok hafi 39 orlofsdagar verið óteknir og samkvæmt launaseðli og upplýsingum frá kæranda hafi hún fengið orlofsdagana greidda 30. júní 2011. Frá 1. júlí til 24. ágúst voru 39 virkir dagar að báðum dögum meðtöldum.

Ljóst er samkvæmt framangreindu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma er hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni, þar sem hún fékk greidda 39 orlofsdaga 30. júní 2011. Vinnumálastofnun bar því að greiða kæranda atvinnuleysisbætur að fullu frá og með 25. ágúst 2011, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Varðandi þann þátt kærunnar sem lýtur að kvörtun vegna misræmis í fjárhæð ber að taka fram að kærandi fékk samkvæmt greiðsluseðli atvinnuleysistrygginga 6.996 kr. eftir að dregnar höfðu verið frá heildarfjárhæðinni, 7.341 kr., iðgjald í lífeyrissjóð og verkalýðsfélag. Skýrist þannig misræmi fjárhæðar af þeirri ástæðu.

  

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að greiða kæranda ekki fullar atvinnuleysisbætur fyrr en að loknum 39 virkum dögum frá umsóknardegi er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta