Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 9/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. júlí 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 9/2008.

    

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. mars 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að úthlutunarnefnd Vinnumálastofnunar hafi á fundi sínum, þann 26. mars 2008, hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur, dags. 22. febrúar 2008, á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. apríl 2008, mótteknu 25. apríl sama ár.

Kærandi starfaði hjá fyrirtæki sem rekur Y á Akureyri, til ársloka 2007. Honum var þá sagt upp með tveggja mánaða uppsagnarfresti og námssamningi hans við fyrirtækið var rift. Hann skráði sig til náms á X-braut Verkmenntaskólans á Akureyri 4. janúar 2008. Samkvæmt gögnum frá skólanum var hann skráður í 11 eininga nám á vorönn 2008 og er óumdeilt að það er undir 75% námshlutfalli. Ráða má af kærunni að kærandi telji sig vera í það lágu hlutfalli í skóla að hann geti alveg unnið samhliða námi.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. maí 2008, að samkvæmt stundaskrá feli nám kæranda í sér að hann þurfi að sækja mikið af tímum alla virka daga vikunnar. Að mati Vinnumálastofnunar geti nemendur sem svo er ástatt um ekki tekið almennu starfi. Í þessu sambandi er vísað til 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig er það mat stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 13. gr. téðra laga, sbr. 14. gr., um virka atvinnuleit og teljist ekki tryggður skv. 52. gr. laga nr. 54/2006. Af þeirri ástæðu beri að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur á meðan hann stundar nám í því umfangi og á þeim tíma sem hann hefur lagt fram upplýsingar um.

 

2.

Niðurstaða

Í áðurnefndu bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. mars 2008, var kærandi upplýstur um höfnun umsóknar hans um atvinnuleysisbætur. Ákvörðunin var kynnt með eftirfarandi hætti:

„Umsókn þín um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 er hafnað á grundvelli 52. gr. laganna en þar segir:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

C-liður 3. gr. laganna segir:

Nám:75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúnings­menntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Af framangreindu verður ekki önnur ályktun dregin en að lagagrundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, sbr. c-lið 3. gr. laganna.

Óumdeilt er að kærandi var skráður í nám hjá Verkmenntaskóla Akureyrar á vorönn 2008 sem var minna en 75% nám. Nám kæranda féll því utan gildissviðs skilgreiningar c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Þegar af þeirri ástæðu var ekki hægt að taka afstöðu til umsóknar kæranda á grundvelli 1. mgr. 52. gr. laganna eins og Vinnumálastofnun gerði í hinni kærðu ákvörðun.

Sem lægra settu stjórnvaldi ber Vinnumálastofnun að rannsaka mál með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eftir atvikum veita umsækjendum andmælarétt áður en ákvörðun er tekin, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem æðra setts stjórnvalds er að endurskoða ákvarðanir hins lægra setta. Þegar rannsókn lægra setts stjórnvalds er verulega ábótavant kann það að koma í veg fyrir að æðra sett stjórnvald geti bætt úr. Afleiðing þess verður þá að jafnaði sú að ákvörðun hins lægra setta stjórnvalds verður ómerkt og því falið að taka málið fyrir á ný svo að hægt sé að leiða til lykta með löglegum hætti.

Í þessu máli hefur Vinnumálastofnun fyrir úrskurðarnefndinni borið því við að stofnunin skuli meta sérstaklega hvort sá er stundar nám en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að það sé mat hennar að kærandi hafi ekki verið á vinnumarkaði í skilningi laganna og styðst sú fullyrðing við a-lið 13. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Síðastnefndu lagaákvæðin mæla fyrir um þau skilyrði sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur þarf að uppfylla til að teljast í virkri atvinnuleit. Framangreindar röksemdir Vinnumálastofnunar komu fyrst fram við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni.

Kæranda var ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Brotið var því á andmælarétti kæranda. Hin kærða ákvörðun var tekin á röngum lagagrundvelli vegna þess að nám kæranda uppfyllti ekki þau skilyrði sem tilgreind eru í c-lið 3. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun bar því að rannsaka hvort kærandi teldist í virkri atvinnuleit og gefa kæranda kost á að tjá sig um það álitaefni hvort hann, þrátt fyrir nám sitt, teldist í slíkri atvinnuleit. Úr þessum annmörkum á málsmeðferð Vinnumálastofnunar er ekki hægt að bæta fyrir úrskurðarnefndinni og verður því hið lægra setta stjórnvald að taka málið upp á ný og rannsaka það á réttum lagagrundvelli. Hin kærða ákvörðun verður því ómerkt og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.

 

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun er ómerkt og er málinu vísað til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta