Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 20/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. nóvember 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 20/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 31. júlí 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 28. júlí 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 12. júní 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi sem var móttekið 10. september 2008. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá og með 12. júní 2008. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi hafði í tæp þrjú ár unnið skrifstofustörf og sem bílstjóri hjá X ehf. þegar honum var sagt upp störfum í lok janúar á þessu ári. Ástæða uppsagnarinnar var sú að kærandi hafði verið handtekinn vegna gruns um að hafa staðið að innflutningi fíkniefna. Kærandi sat í gæsluvarðhaldi frá 24. janúar 2008 til 11. júní 2008 en þá var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Y í máli hans þar sem hann var sakfelldur og dæmdur til að sæta fangelsi í 2½ ár.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 12. júní 2008. Með bréfi frá Vinnumálastofnun, dags. 9. júlí 2008, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hans væri frestað og var óskað eftir því að vinnuveitendavottorð frá X ehf. yrði lagt fram. Sama dag barst Vinnumálastofnun vinnuveitendavottorð frá X ehf. þar sem kom fram að kæranda hafi verið sagt upp vegna fíkniefnasmygls. Í framhaldinu var afgreiðslu umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur frestað á ný með bréfi frá Vinnumálastofnun, dags. 17. júlí 2008, og honum tilkynnt að líkur væru fyrir því að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, sbr. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Með bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 19. júlí 2008, var fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar mótmælt þar sem hann ætti ekki sök á uppsögn sinni. Kærandi byggði mótmælin á því að endanleg niðurstaða í sakamáli hans hefði ekki fengist þar sem því hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Með bréfi, dags. 31. júlí 2008, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. júlí 2008 að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri samþykkt en með vísan til upplýsinga á vinnuveitendavottorði um starfslok hans væri réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Þessi ákvörðun var tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi við ákvörðun Vinnumálastofnunar og veitti stofnunin hann með bréfi, dags. 29. ágúst 2008. Í rökstuðningnum kom fram að ákvörðunin byggðist á þeirri reglu 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að umsækjandi um atvinnuleysisbætur ætti ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur ef hann hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur ætti sök á. Stofnunin taldi að vinnuveitendavottorðið í málinu sem og áðurnefndur dómur Héraðsdóms Y gæfi fullt tilefni til að ætla að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann ætti sjálfur sök á.

Í rökstuðningi sem fylgdi kæru kom fram að dómi Héraðsdóms Y hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og niðurstöðu þaðan ekki að vænta fyrr en á næsta ári. Kærandi taldi að Vinnumálastofnun hefði ekki haft næg gögn um málavexti til að geta fullyrt að kærandi skuli sæta biðtíma á þeim forsendum að uppsögnin hafi verið hans sök. Kærandi taldi sig ekki hafa rekist á þann lagabókstaf sem tryggi sér endurgreiðslu á bótum ef svo færi að dómur Hæstaréttar leiddi til sýknu sem myndi staðfesta að hann hafi ekki átt sök á uppsögninni heldur hafi hún orsakast af gremju vinnuveitanda. Kærandi vísaði til 1. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem segi að eigi skuli refsa manni nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem refsing er lögð við í lögum. Þar sem endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir sé óvarlegt að fullyrða að ástæða uppsagnar hafi verið sök kæranda.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. október 2008, eru svipuð rök færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun og var að finna í áðurnefndum rökstuðningi stofnunarinnar fyrir ákvörðuninni, þ.e. að kærandi hafi átt sök á uppsögn sinni þar sem hann hafi verið handtekinn fyrir innflutning á fíkniefnum, setið í gæsluvarðhaldi og fengið 2½ árs fangelsisdóm með dómi Héraðsdóms Y frá 11. júní 2008.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Ágreiningur málsins snýst um það hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur átti sök á. Við mat á því verður að hafa hugfast að allt aðrar sönnunarkröfur eru gerðar til vinnuveitanda sem segir starfsmanni upp vegna brota hans í starfi en þegar handhafar ákæruvalds þurfa að sanna fyrir dómi að sakborningur hafi brotið gegn lögum með refsiverðum hætti. Í þessu máli var ákærði handtekinn í lok janúar 2008 og hnepptur í gæsluvarðhald sem varði í tæpt hálft ár. Hann var fundinn sekur um innflutning fíkniefna með dómi Héraðsdóms Y þann 12. júní 2008. Það lá strax fyrir í lok janúar síðastliðnum að kærandi var grunaður um að hafa misnotað aðstöðu sína sem starfsmaður X ehf. til að standa að innflutningi ólöglegra fíkniefna. Vinnuveitandi, sem hefur lifibrauð sitt af X, getur vart haft starfsmann sem er grunaður um slíkt athæfi og situr af þeim sökum í gæsluvarðhaldi. Heimildir vinnuveitenda til að slíta ráðningarsamningi við þessar aðstæður teljast því fyrir hendi. Ástæða þess að þær heimildir urðu virkar eru fyrst og fremst meint háttsemi kæranda. Kærandi telst því hafa átt sök á ráðningarslitunum í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úr­skurðar­orð

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. júlí 2008 um frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta til A í 40 bótadaga.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta