Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 61/2007

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. júlí 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 61/2007.

    

1.

Málsatvik og kæruefni.

Málsatvik eru þau að með bréfi, dagsettu 23. október 2007, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, þá ákvörðun sína að hún þyrfti að endurgreiða ofteknar atvinnuleysisbætur sem næmu samtals kr. 3.191.533. Þessi ákvörðun grundvallaðist á að kærandi hafi fengið nefnda fjárhæð ofgreidda á tímabilinu desember 2004 til apríl 2007. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi Vinnumálastofnunar og úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 13. júní 2007. Í áðurnefndu bréfi segir að ákvörðunin hafi verið reist á 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. desember 2007, sem móttekið var hinn 13. desember 2007.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu verði felld úr gildi en til vara að kæranda verði einungis gert að endurgreiða greiddar atvinnuleysisbætur er féllu til á tímabilinu 1. júlí 2006 til apríl 2007, þ.e. eftir gildistöku laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði hjá útgerðarfélaginu X ehf. á árabilinu 1995-2004 en félagið gerði út bát til rækjuveiða í Y. Tryggingargjald var greitt í atvinnuleysistryggingarsjóð vegna launa sem kærandi fékk fyrir störf sín hjá félaginu. Rækjuveiðar í Y voru stöðvaðar síðla árs 2004 og í framhaldi af því lagði kærandi inn umsókn um atvinnuleysisbætur sem móttekin var hjá vinnumiðlun Z þann 10. desember 2004. Fallist var á umsókn hennar og óumdeilt er að hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 10. desember 2004 til 19. mars 2007.

Hinn 24. apríl 2007 tilkynnti Vinnumálastofnun á Z kæranda að í ljós hafi komið að hún hafi verið skráður eigandi, setið í stjórn og verið prókúruhafi fyrirtækisins X ehf. samkvæmt ársreikningi félagsins frá árinu 2005. Um sé að ræða það fyrirtæki sem kærandi starfaði síðast hjá og vinnuveitendavottorð, dags. 6. desember 2004, hafi verið undirritað af eiginmanni hennar sem var forsvarsmaður X ehf. Jafnframt hafi komið fram í tilkynningu Vinnumálastofnunar að samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2005 hafi félagið haft rekstrartekjur sem námu meira en 55 milljónum króna og hreyfing hafi verið á virðisaukaskattsnúmeri félagsins árið 2006. Með hliðsjón af starfsemi félagsins árið 2005 og 2006 var óskað eftir því við kæranda að hún upplýsti hvers vegna hún sótti um atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að vera eigandi, í stjórn og prókúruhafi félags sem var enn starfandi, en slíkt varðaði bótamissi, sbr. 59.-61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og endurgreiðslu með álagi, sbr. 39. gr. sömu laga. Tekið var fram í bréfinu að meðan beðið væri upplýsinga af hálfu kæranda yrði greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar frestað. Kæranda var veittur andmælaréttur til 10. maí 2007.

Í bréfi sínu  til Vinnumálastofnunar á Z, dagsettu 18. maí 2007, greindi kærandi frá því að hún hafi sótti um atvinnuleysisbætur þann 10. desember 2004 vegna þess að í september sama ár hafi hún orðið atvinnulaus. Hún taldi rétt sinn til að skrá sig atvinnulausa vera hinn sama og almennra launþega, enda voru engar athugasemdir gerðar við umsókn hennar af hálfu starfsmanns vinnumiðlunar á Bíldudal.  Kærandi kvað sig vera minnihluta eiganda í fyrirtækinu X ehf., hún starfaði við ýmis bókhaldsstörf í fyrirtækinu og var prókúruhafi.  Frá stofnun félagsins hafi það greitt tilskilin gjöld til ríkisins og þar með talin atvinnuleysistryggingagjöld af öllum greiddum launum og því hafi hún gert ráð fyrir að hafa öðlast sama rétt og aðrir launþegar til atvinnuleysisbóta.  Ekki hafi verið um reiknað endurgjald að ræða í tilviki kæranda.

Á fundi Vinnumálastofnunar og úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sem haldinn var 13. júní 2007, var m.a. fært til bókar í máli kæranda að fyrri ákvörðun um endurgreiðslu væri staðfest. Kæranda var gerð grein fyrir niðurstöðu þessari með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. október 2007. Til stuðnings þeirri fullyrðingu að kærandi hafi frá upphafi umsóknar sinnar um atvinnuleysisbætur verið sjálfstætt starfandi einstaklingur var í bréfinu vísað til reglugerðar nr. 316/2003, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 og 18. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Með hliðsjón af þessu bæri kæranda að endurgreiða samtals kr. 3.191.533 en af því var kr. 2.568.745 vegna atvinnuleysisbóta og kr. 622.788 vegna mótframlags í lífeyrissjóð á tímabilinu 10. desember 2004 til apríl 2007. Ekki var gerð frekari grein fyrir fjárhæð kröfunnar en hún var talin styðjast við 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. 

Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. desember 2007, sem undirrituð er af lögmanni kæranda er því lýst að kærandi hafi starfað sem launþegi hjá X ehf. en ekki sem sjálfstætt starfandi einstaklingur með reiknað endurgjald.  Verkefni kæranda hjá félaginu hafi verið fólgin í almennum skrifstofustörfum, s.s. færslu bókhalds, skýrslugerð, greiðslu reikninga og fleira. Eiginlegum rekstri félagsins hafi verið hætt þegar lokað var fyrir rækjuveiðar í Y haustið 2004 en forsvarsmaður félagsins og einn háseti störfuðu þó lengur og fengu greidd laun frá félaginu fram eftir ári 2005. Eftir það var félagið ekki með starfsmenn á launaskrá.  Ekki hafi þótt ástæða til að tilkynna skattyfirvöldum um að rekstri félagsins væri hætt né loka virðisaukaskattsnúmeri félagsins þar sem vonir hafi staðið til að lokun rækjuveiðanna yrði einungis tímabundin. Á árinu 2005 hafi félagið selt aflaheimildir sínar í þorski og hafi þær tekjur verið uppistaðan í heildartekjum félagsins það ár en á árinu 2006 hafi einu tekjur félagsins verið í formi leigutekna vegna leigu á aflaheimildum sem félagið fékk í bætur vegna stöðvunar rækjuveiðanna. Eiginlegur rekstur hafi ekki verið hjá félaginu á þessum árum. 

Í kærunni er þeim skilningi Vinnumálastofnunar mótmælt að kærandi hafi nokkurn tíma verið sjálfstætt starfandi einstaklingur. Kærandi byggir á því að hún hafi starfað sem launþegi hjá X ehf. og hafi fullnægt þeim skilyrðum sem í gildi voru þegar sótt var um greiðslu atvinnuleysisbóta.  Þá byggir kærandi á því að hún hafi ekki fallið undir skilgreiningu 2. gr. reglugerðar nr. 316/2003 á hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingur en þá hafi reglugerðin verið sett með heimild í lögum nr. 12/1997.  Þá falli kærandi heldur ekki undir skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingi samkvæmt b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006.  Í ákvæðinu sé talað um starf á vegum einkahlutafélags en þó með þeim takmörkunum að viðkomandi þurfi að hafa haft ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar fyrir félagið.  Máli sínu enn frekar til stuðnings vísaði kærandi til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 en þar komi m.a. fram að aðrir þeir sem starfa hjá félögum sem launamenn teljist til launamanna í skilningi frumvarpsins óháð eignarhlut.  Jafnframt komi fram í sömu athugasemdum að við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur teljist launamenn eða sjálfstætt starfandi í skilningi frumvarpsins verði m.a. litið til ákvarðana skattyfirvalda um hvernig skattskilum þeirra er háttað samkvæmt gildandi lögum og reglum um tekjuskatt.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar 2008, er tekið fram að starfsmönnum hennar hafi ekki verið kunnugt um stöðu kæranda í einkahlutafélaginu X ehf. fyrr en á vormánuðum 2007 og þá þegar hafi verið hafist handa við skoðun málsins.  Sú skoðun hafi leitt í ljós að X ehf. sé fyrirtæki í eigu fjölskyldu kæranda þar sem hún hafi verið einn stofnenda með jafnan eignarhlut við aðra fjölskyldumeðlimi.  Kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu óslitið frá stofnun þess þar til hún sótti um atvinnuleysisbætur 2004.  Hún hafi aldrei selt eða afsalað sér sínum hlut í félaginu, þvert á móti sé hún og hafi verið einn stjórnarmanna frá stofnun þess og eigi nú samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá 50% hlut í því.  Það sé skýlaus afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings samkvæmt öllum nefndum lögum og reglugerðum og byggi sú afstaða á ákvæðum 2. gr. reglugerðar nr. 316/2003. Samkvæmt ákvæðinu teljist sá vera sjálfstætt starfandi einstaklingur sem við eigin rekstur, í eigin nafni eða í sameignarfélagi sem ekki er sjálfstæður skattaðili, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi.

Þá vísar Vinnumálastofnun til b-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 en samkvæmt ákvæðinu telst sá vera sjálfstætt starfandi einstaklingur sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða tengdra félaga, þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. 

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar segir að verði ekki fallist á lögskýringar stofnunarinnar um skilgreiningu  sjálfstætt starfandi einstaklings samkvæmt lögum nr. 12/1997, reglugerð nr. 316/2003 og lögum nr. 54/2006 og kærandi talin hafa stöðu launþega sé bent á að samkvæmt vinnuveitandavottorði hafi hún gefið upp að hún hafi verið í 100% starfi hjá fyrirtækinu.  Samkvæmt skoðun á skilum X ehf. á staðgreiðslu fyrir kæranda árið 2004 komi í ljós að hún hafi verið í u.þ.b. 26% starfi þar miðað við útgefnar viðmiðunarreglur Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald fyrir árið 2004.  Samkvæmt þeim reglum sé eðlilegt að kærandi falli undir flokk B4 en sá flokkur eigi við þá sem stýra rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn.  Á árinu 2004 skyldi reiknað endurgjald í þessum flokki vera miðað við kr. 285.000 í laun á mánuði sem voru talin almenn laun fyrir sambærilega vinnu ef starfað hefði verið fyrir vandalausa og þyki eðlilegt að miðað sé við þau í þessu máli. 

Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna bréfs Vinnumálastofnunar og með bréfi lögmanns kæranda, dags. 12. mars 2008, var þeirri fullyrðingu hafnað að kærandi falli undir skilgreiningu um sjálfstætt starfandi einstaklinga í reglugerð nr. 316/2003, sbr. lög nr. 12/1997, þar sem hvergi sé minnst á starfsmenn einkahlutafélaga eða hlutafélaga heldur einungis þá sem starfa við eigin rekstur, í eigin nafni eða í sameignarfélagi.  Þá er því hafnað að kærandi falli undir skilgreiningu b-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 um sjálfstætt starfandi einstaklinga enda hafi hún ekki haft ráðandi stöðu í félaginu og að henni hafi ekki verið gert af skattyfirvöldum að standa skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi heldur hafi tilskildum gjöldum, þ.m.t. staðgreiðslu og tryggingagjaldi, verið skilað af henni sem launamanni án athugasemda af hálfu skattyfirvalda. 

Í greinargerð kæranda er ennfremur bent á að skattyfirvöld hafi ekki talið nauðsynlegt að kærandi gerði skattskil þannig úr garði að hún væri sjálfstætt starfandi einstaklingur. Vangaveltur Vinnumálastofnunar um hvað hún hafi átt að reikna sér í endurgjald árið 2004 eigi því ekki við. Þess er þó getið í greinargerðinni að kærandi hefði sennilega flokkast í E-flokk samkvæmt viðmiðunarreglum Ríkisskattstjóra en ekki í B-flokk eins og Vinnumálastofnun hafi haldið fram. Vegna athugasemda Vinnumálastofnunar þar að lútandi var tekið fram í greinargerð kæranda að hún hafi ekki notið arðgreiðslna frá X ehf. á þeim árum sem hún fékk atvinnuleysisbætur, þ.e. á árunum 2004-2007. Þá er því hafnað að kærandi hafi haldið grundvallarupplýsingum leyndum fyrir Vinnumálastofnun og fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem henni beri að endurgreiða.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. mars 2008, voru fyrri röksemdir stofnunarinnar ítrekaðar og ennfremur bent á að skattalögin líti til þeirra fjárhæða sem einstaklingar greiði í staðgreiðslu.  Einstaklingur geti ekki valið að gefa upp mjög lágar tekjur til að greiða lága staðgreiðslu. 

Með bréfi til kæranda, dagsett þann 27. mars 2008 var tilkynnt að vegna breytinga á nefndarskipan í úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða yrði fyrirsjáanlegt að frekari tafir yrðu á meðferð málsins fyrir nefndinni. Aðalmenn nefndarinnar, sem rita úrskurð þennan, voru skipaðir með bréfi félags- og tryggingamálaráðherra, dags. 14. maí 2008.

 

2.

Niðurstaða.

Markmið lagareglna um atvinnuleysistryggingar er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Í þessu felst m.a. að atvinnuleysisbætur eiga ekki að rata til aðila sem eru í starfi. Eldri löggjöf um atvinnuleysistryggingar, sbr. lög nr. 12/1997, var einnig reist á þessari grundvallarforsendu. Það var því eðlilegt af hálfu Vinnumálastofnunar að grípa til aðgerða vorið 2007 þegar í ljós kom að kærandi hafði þegið atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 10. desember 2004 til 19. mars 2007 en á sama tíma verið framkvæmdastjóri og setið í stjórn einkahlutafélags ásamt því að hafa prókúrumboð fyrir þess hönd og eiga 50% hlut í félaginu samkvæmt opinberri skráningu. Enn ríkari ástæða var fyrir aðgerðum Vinnumálastofnunar í ljósi þess að einkahlutafélagið hafði 55 milljóna króna tekjur árið 2005 og hafði virkt virðisaukaskattsnúmerið árið 2006.

Þrátt fyrir augljósa og brýna nauðsyn á aðgerðum Vinnumálastofnunar bar stofnuninni að haga aðgerðum sínum í samræmi við lög og grunnreglur stjórnsýsluréttar þar sem bæði stöðvun greiðslna atvinnuleysisbóta til bótaþega og krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta eru íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir. Nauðsynlegt er að vanda til undirbúnings við töku ákvarðana af þessu tagi og hafa verður í huga að lagaskilyrði eru ekki þau sömu þegar greiðslur atvinnuleysisbóta eru stöðvaðar og þegar krafist er endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Þó að þetta mál fyrir úrskurðarnefndinni snúist um gildi endurgreiðslukröfu Vinnumálastofnunar á hendur kæranda er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um undirbúning þeirrar ákvörðunar stofnunarinnar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.     

Upphaf máls þessa má rekja til bréfs Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 24. apríl 2007, þar sem kæranda var gerð grein fyrir þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar hefði verið „frestað“ á þeim grundvelli að hún hefði allt frá lokum árs 2004 verið sjálfstætt starfandi einstaklingur. Í bréfi Vinnumálastofnunar var ekki tilgreint nákvæmlega hver væri lagagrundvöllur ákvörðunarinnar heldur var eingöngu vísað almennt til 59.-61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 sem og 39. gr. sömu laga. Líta verður svo á að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að „fresta“ bótagreiðslum hafi eingöngu getað stuðst við 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006, en þar er m.a. mælt fyrir um að hafi bótaþegi veitt Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar um aðstæður sínar, geti hann misst rétt til bótagreiðslna í 40 daga.

Frestun bótagreiðslna er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem verður að styðjast við skýra lagaheimild og verður eingöngu tekin að gættum grunnreglum stjórnsýsluréttar. Ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 gera ekki ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti stöðvað greiðslur bóta tímabundið og veitt bótaþega síðan rétt til að andmæla. Því verður að telja að sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta tímabundið hafi verið í andstöðu við lög.  Þó að andmælaréttur kæranda hafi að þessu leyti verið áfátt, gafst henni kostur á að koma sínum sjónarmiðum að áður en Vinnumálastofnun tók afstöðu til þess hvort hún ætti áfram rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta.

Kærandi nýtti sér andmælarétt sinn með bréfi dagsettu 18. maí 2007 og kom á framfæri upplýsingum sem bentu til þess að hún væri ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga. Sérstök ástæða var til að rannsaka andmæli kæranda nánar með hliðsjón af orðalagi skilgreiningar á sjálfstætt starfandi einstaklingi í tíð eldri og gildandi lagareglna um atvinnuleysistryggingar. Þannig verður ekki annað ráðið af áliti Umboðsmanns Alþingis frá 4. júlí 2003 í máli nr. 3691/2003 að í tíð laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur ekki verið talinn sjálfstætt starfandi nema að honum hafi verið gert að standa skil á tryggingagjaldi, mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti, samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, sbr. lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Einnig hefðu athugasemdir um 3. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 átt að gefa Vinnumálastofnun sérstakt tilefni til að kanna hvernig skattskilum kæranda hafi í reynd verið háttað en stofnunin hefur heimildir til að fá gögn frá skattyfirvöldum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Rannsókn af þessu tagi hefði getað lagt betri grundvöll undir ákvörðun stofnunarinnar en hún fór í reynd aldrei fram. Þótt liðinn væri sá 40 daga frestur sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 hóf kærandi ekki aftur töku atvinnuleysisbóta. Kæranda virðist aldrei hafa verið tilkynnt sú ákvörðun að stöðva endanlega greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar. 

Á fundi Vinnumálastofnunar þann 13. júní 2007 var ákveðið að krefja kæranda um ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þessi ákvörðun Vinnumálastofnunar var ekki tilkynnt kæranda fyrr en með bréfi dags. 23. október 2007 og var því í ósamræmi við grunnregluna um hraða málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og þau sjónarmið sem búa að baki 20. gr. sömu laga. Ástæða var þó til þess að gæta að þessu þar sem í áliti Umboðsmanns Alþingis frá 30. desember 2004 í máli nr. 4115/2004 var fundið að störfum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða vegna sambærilegra málsatvika og að framan greinir.

Í téðu bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. október 2007, var endurgreiðslukrafan sögð styðjast við 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Það lagaákvæði mælir hins vegar eingöngu fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta tímabundið. Hvergi í nefndri lagagrein er minnst á rétt Vinnumálastofnunar til að endurkrefja bótaþega um ofgreiddar bætur. Bréf Vinnumálastofnunar var að þessu leyti áfátt en rétt tilgreining til réttarheimilda var sérstaklega brýn í ljósi þess að endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar var að miklu leyti byggð á lögum nr. 12/1997 sem giltu til 1. júlí 2006.

Við sjálfstæða könnun úrskurðarnefndarinnar á eldri og gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar kemur í ljós að fyrir 1. júlí 2006 gat endurgreiðslukrafa Vinnumála-stofnunar eingöngu verið reist á 2. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar nr. 12/1997 en eftir 1. júlí 2006 gat hún eingöngu verið reist á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Nákvæm tilgreining á þessum lagaákvæðum kemur ekki fram í bréfum Vinnumálastofnunar til kæranda dagsettum 24. apríl 2007 og 23. október 2007. Vinnumálastofnun hefur ekki minnst á þessi lagaákvæði í málflutningi sínum fyrir úrskurðarnefndinni eða hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi samkvæmt þeim til að endurgreiðslukrafa stofnunarinnar eigi rétt á sér. Nákvæm tilgreining á fjárhæð endurgreiðslukröfunnar hefur ekki komið fram og því er ekki hægt að staðreyna réttmæti fjárhæðarinnar sé litið til útskriftar frá úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á Z, dags. 10. október 2007.

Bréf Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 24. apríl 2007, var fyrst og fremst tilkynning um frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta en ekki ákvörðun um að endurkrefja kæranda um rúmar þrjár milljónir króna. Kærandi fékk því í reynd ekki að andmæla forsendum hinnar kærðu ákvörðunar áður en hún var tekin og henni birt hún með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. október 2007. Um afar íþyngjandi ákvörðun var að ræða í garð kæranda og verður því að telja að við töku hennar hafi verið brotið á andmælarétti hennar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi hefur fyrir úrskurðarnefndinni byggt málflutning sinn á því að fella eigi hina kærðu stjórnvaldsákvörðun úr gildi á efnislegum forsendum og hefur rekstur máls þessa fyrir úrskurðarnefndinni nú þegar tekið yfir átta mánuði. Á hitt ber þó að líta að eingöngu tveir mánuðir eru síðan að þeir aðalmenn úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sem rita þennan úrskurð, voru skipaðir. Eins og að framan greinir var með hinni kærðu ákvörðun m.a. brotið á málshraðareglu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga ásamt því að brotið var á andmælarétti kæranda. Niðurstaðan verður því sú að hin kærða ákvörðun verður felld úr gildi vegna þessara formannmarka.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta