Mál nr. 232/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 232/2024
Fimmtudaginn 22. ágúst 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 27. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. apríl 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 9. mars 2022 og var umsóknin samþykkt 6. apríl 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. apríl 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hennar til atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hún hefði hafnað starfi.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. maí 2024. Með bréfi, dags. 28. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. júní 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 3. júlí 2024 og voru kynntar Vinnumálastofnun 4. júlí 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hún sé frá B og hafi búið á Íslandi frá árinu 2016. Hún og maður hennar eigi saman einn son sem sé tveggja og hálfs árs gamall. Fjölskyldan búi í Vesturbænum og sé að kaupa sína fyrstu íbúð.
Kærandi sé í virkri atvinnuleit. Hún hafi sinnt öllum sínum skyldum gagnvart Vinnumálastofnun, hvort sem þær snúist um að mæta á skyldunámskeið eða í þau atvinnuviðtöl sem hún hafi verið boðuð í fyrir milligöngu stofnunarinnar.
Þann 9. apríl 2024 hafi kæranda borist tilkynning frá Vinnumálastofnun um að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið frestað á grundvelli þess að hún hefði hafnað atvinnutilboði. Kærandi kveðst ekki hafa hafnað neinu atvinnutilboði og telji greinilegt að Vinnumálastofnun hafi yfirsést, ekki gefið nægan gaum eða beitt réttum og rökbundnum hætti í yfirferð sinni og við mat á öllum gögnum og skýringarbréfi kæranda. Kærandi telji einnig líklegt að Vinnumálastofnun hafi ekki leitað staðfestingar á framburði hennar hjá viðkomandi atvinnurekanda. Framangreint hafi því leitt til niðurstöðu sem eigi ekki við rök að styðjast.
Vinnumálastofnun byggi ákvörðun sína á því að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði hjá C þann 4. apríl 2024. Kærandi kveður þetta alfarið rangt. Hún hafi ekki hafnað neinu atvinnutilboði. Atvinnurekendurnir séu indæl indversk hjón en einungis eiginkonan hafi tekið starfsviðtalið. Kæranda hafi aldrei formlega verið boðið starfið, heldur hafi þær rætt um starfssvið, vinnutíma og tímakaup. Umrætt starf sé gerólíkt þeim störfum sem kærandi sé að leita að og hafi sótt um, auk þess sem ekki hafi verið um fullt starf að ræða. Þegar þessi atriði hafi verið rædd við eiginkonuna, auk möguleika á umræddu starfi, hafi hún talið að kærandi þyrfti einhvern tíma til íhuga starfið. Eiginkonan hafi því stungið upp á því að kærandi íhugaði málið í nokkra daga og hefði svo samband.
Nokkrum dögum síðar hafi kærandi rætt við eiginmann konunnar, hinn atvinnurekandann, sem hafi tjáð henni að þann 4. apríl 2024 hefði hann sent Vinnumálastofnun skilaboð þess efnis að honum hefði ekki fundist kærandi hafa haft áhuga á umræddu starfi. Kærandi telji að hjónin hafi annað hvort misskilið hvort annað eða að umrætt samkomulag kæranda við eiginkonuna hafi ekki borist til mannsins. Maðurinn hafi frekar tekið sjálfstæða og einhliða ákvörðun um að meta sem svo að kærandi hefði ekki haft áhuga á starfinu og komið þeim skilaboðum til Vinnumálastofnunar. Hafi maðurinn verið upplýstur um umrætt samkomulag megi færa rök fyrir því að hann hafi í raun brotið samkomulagið, með eða án samþykkis eiginkonu sinnar.
Kæranda hafi þann 9. apríl 2024 verið greint frá því að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri frestað og að óskað væri eftir skýringum frá henni. Kærandi hafi sent skýringarbréf þann 10. apríl 2024. Tveimur dögum síðar, þann 12. apríl 2024, hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun um tveggja mánaða niðurfellingu greiðslna. Rökstuðningur hafi hvorki verið veittur né hafi verið vitnað til atriða í skýringarbréfi kæranda sem forsendur fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Kærandi hafi nánast fengið það á tilfinninguna að um sjálfvirkt svar væri að ræða, en ekki sanngjarnt og faglegt ferli ásamt ígrunduðu svari. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni þann 12. apríl 2024.
Rökstuðningur hafi ekki borist frá Vinnumálastofnun fyrr en 29. apríl 2024. Þar segi:
„Í máli þessu liggur fyrir að þér stóð til boða atvinnutilboð hjá B en yfirskrift starfs var „Sales“ en ferilskrá þín var send á atvinnurekanda þann 3. apríl 2024 af hálfu vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar. Þann 4. apríl 2024 barst tilkynning frá atvinnurekanda þess efnis að þú hafir hafnað atvinnutilboði. Í skriflegum skýringum þínum kemur fram að þú hafir hafnað umræddu atvinnutilboði þar sem umrætt atvinnutilboð samræmdist ekki menntun þinni.“
Kærandi telur þetta ekki samræmast skriflegum skýringum sínum til Vinnumálastofnunar, þar sem segi:
„Við mættum í þetta starfsviðtal, og við höfnuðum ekki neinu atvinnutilboði. Við töluðum við konu á staðnum, ræddum um mögulegt starf, tímakaup og vinnutíma, sem var ekki fullt starf eins og við hún er að leita að, heldur bara frá 09:30 til 16:00. Starfssvið þessa starfs er ekki tengt hennar sviði, þ.e. matreiðsla og matargerð, eins og öll önnur störf sem hún hefur sótt um, og farið í viðtöl fyrir. Við vorum samt tilbúin í að íhuga starfið. Við ræddum þetta við konuna, og hún stakk upp á að við mundum hugsa málið í nokkra daga og tala svo aftur saman. Svo þegar við höfðum aftur samband þá sagði maðurinn hennar að hann hefði þegar og sé búinn að senda VMST skilaboð um að honum finnist hún ekki hafa áhuga á starfinu. Hún var kannski ekkert rosalega spennt yfir mögulegu starfi sem er ekki á hennar sviði og hún hefur enga reynslu fyrir, á lágmarkslaunum VR og er heldur ekki fullt starf, en við absolutely höfnuðum aldrei neinu, og maðurinn eða konan sem við töluðum við ættu að geta staðfest það.“
Að mati kæranda sé á engan máta hægt að skilja skýringarbréf hennar með þeim hætti sem Vinnumálastofnun geri, það er að hún hafi hafnað umræddu atvinnutilboði. Kæranda gruni að viðkomandi starfsmaður Vinnumálastofnunar, sem eigi að hafa metið inntak bréfsins, hafi gert það í flýti og/eða með ógaumgæfilegum hætti, þar sem augljósar rökvillur megi finna í stuttu svari stofnunarinnar. Kærandi vísar til eftirfarandi setningar í svari stofnunarinnar:
,,Í skriflegum skýringum þínum kemur fram að þú hafir hafnað umræddu atvinnutilboði þar sem umrætt atvinnutilboð samræmdist ekki menntun þinni.“
Framangreind setning sé í raun sú eina sem líti ekki út fyrir að vera afrituð og límd úr reglum Vinnumálastofnunar eða sjálfvirk skilaboð, heldur sé hún skrifuð af starfsmanni stofnunarinnar með hliðsjón af skýringarbréfi kæranda. Kærandi telji að sú staðhæfing sem stofnunin haldi fram í þessu eina svari sé hreinlega röng. Um sé að ræða augljósa og klaufalega rökvillu. Kærandi hafi ekki hafnað neinu atvinnutilboði í skýringarbréfi sínu, eins og komi skýrt og greinilega fram í bréfinu sjálfu. Það sé með engum hætti hægt að meta svör hennar sem svo. Í umræddu svari Vinnumálastofnunar komi einnig fram að kærandi hafi vísað til þess að menntun hennar hafi ekki samræmst umræddu atvinnutilboði. Í kæru kveðst kærandi aldrei hafa minnst á menntun sína í skýringarbréfinu né að hún hafi ekki samræmst umræddu atvinnutilboði. Það sé með öllu ómögulegt að færa rök fyrir því.
Í athugasemdum vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar telur kærandi að röksemdafærsla stofnunarinnar fyrir frestun á greiðslum atvinnuleysisbóta standist ekki skoðun auk þess sem hún taki breytingum eftir því sem líði á málið. Upphafleg rök Vinnumálastofnunar hafi verið þau að kærandi hefði hafnað umræddu atvinnutilboði þar sem starfið hefði ekki samræmst menntun kæranda. Skýrt kæmi fram af hálfu kæranda að hún hefði ekki hafnað neinu atvinnutilboði og ekki á grundvelli menntunar sinnar. Þá hefði hún ekkert minnst á menntun sína í skýringarbréfi sínu.
Kærandi kveðst hafa rætt um margt í umræddu atvinnuviðtali og að hún hafi átt gott samtal við annan atvinnurekandann, eiginkonuna, sem hafi verið mjög vingjarnleg. Þær hafi rætt um marga hluti tengda starfinu. Kærandi hafi, eins og eðlilegt væri, nefnt að starfið væri frábrugðið þeim störfum sem hún hefði sótt um. Þær hafi aðallega rætt um það hvað fælist í starfinu, vinnutíma og tímakaup. Kærandi hafi aldrei sagt við atvinnurekanda að hún þyrfti tíma til að íhuga starfið. Það hafi verið atvinnurekandinn sem hefði stungið upp á því að kærandi íhugaði málið í nokkra daga og hefði svo samband.
Sama dag, þann 4. apríl 2024, hafi hinn atvinnurekandinn, eiginmaðurinn, tilkynnt Vinnumálastofnun að kærandi hefði ekki áhuga á starfinu og að hún hefði hafnað því. Kærandi kveðst hvorki hafa hafnað starfinu né sýnt merki um áhugaleysi þegar hún hafi rætt við eiginkonu hans. Í tilkynningu eiginmannsins komi fram að kærandi hefði komið því á framfæri að tungumálakunnátta hennar væri ekki nægjanleg. Kærandi kveðst ekkert hafa minnst á tungumálakunnáttu sína. Hún tali fína ensku og ágæta íslensku en atvinnuviðtalið hefði farið fram á ensku.
Kærandi telji að samkomulag hennar við annan atvinnurekandann hafi verið brotið af hálfu hins þegar hann hafi tilkynnt Vinnumálastofnun, sama dag og viðtalið hefði farið fram, að kærandi hefði hafnað starfinu. Vinnumálastofnun hafi aldrei minnst einu orði á umrætt brot á samkomulagi.
Þá nefni Vinnumálastofnun engin atriði sem röklegar forsendur fyrir því að skýringar kæranda geti ekki talist gildar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið taki til höfnunar á starfi en kærandi telji skýrt að hún hafi hvorki hafnað neinu starfstilboði né reynt að réttlæta ætlaða höfnun með nokkrum hætti.
Vinnumálastofnun telji jafnframt að framkoma og viðbrögð kæranda í umræddu atvinnuviðtali hafi falið í sér höfnun á starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi telji þetta mjög óljóst. Að mati kæranda komist stofnunin að þessari niðurstöðu án þess að tilgreina hvað við framkomu hennar og viðbrögð hafi brotið í bága við ákvæðið.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 9. mars 2022. Með erindi, dags. 6. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 79%. Með erindi, dags. 19. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hennar hefði verið endurreiknaður og væri réttilega 100%.
Þann 4. apríl 2024 hafi Vinnumálastofnun borist tilkynning um að kærandi hefði hafnað starfi hjá C. Um hafi verið að ræða afgreiðslustarf í verslun en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf þann 3. apríl 2024 af Vinnumálastofnun. Í skýringum atvinnurekanda hafi komið fram að kærandi hefði ekki áhuga á starfinu.
Með erindi, dags. 9. apríl 2024, hafi Vinnumálastofnun óskað skýringa á ástæðum þess að kærandi hefði hafnað starfi hjá fyrirtækinu. Stofnuninni hafi borist skýringar kæranda þann 10. apríl 2024. Í skýringum kæranda hafi komið fram að hún hefði ekki hafnað atvinnutilboði. Hún hefði rætt við atvinnurekanda um að starfið væri ekki á hennar sviði en væri samt tilbúin að íhuga starfið. Atvinnurekandi hafi stungið upp á því að hún myndi hugsa málið og hafa svo samband.
Þann 12. apríl 2024 hafi Vinnumálastofnun tilkynnt kæranda um tveggja mánaða niðurfellingu greiðslna sökum þess að hún hefði hafnað starfi hjá C. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi þann 12. apríl 2024 óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar um viðurlög. Þann 29. apríl 2024 hafi kæranda verið sendur umbeðinn rökstuðningur.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem séu tryggðir og hafi misst fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.
Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá C. Henni hafi í kjölfarið verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 57. gr. sé svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Í athugasemdum með 57. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að ekki skipti máli hvort það starf sem bjóðist atvinnuleitanda sé fullt starf, hlutastarf eða vaktavinna, þar sem mikilvægt sé að hinn tryggði verði aftur virkur á vinnumarkaði. Þá sé áréttað að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem bjóðist. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykja megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi.
Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna atvinnuviðtali hafi verið réttlætanleg. Í 4. mgr. segi orðrétt:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.
Þær skýringar sem kærandi hafi veitt fyrir ástæðu höfnunar á umræddu starfi lúti einkum að því að hún hefði ekki talið sig hafa hafnað atvinnutilboði. Hún hefði rætt við atvinnurekanda um að vinnan væri ekki á hennar sviði en hún væri samt tilbúin að íhuga starfið. Atvinnurekandi hafi þá stungið upp á að hún myndi hugsa málið og hafa svo samband.
Í tilkynningu atvinnurekanda hafi komið fram að kærandi hefði ekki haft áhuga á starfinu. Þá hafi jafnframt komið fram að hún hefði komið því á framfæri að tungumálakunnátta hennar væri ekki nægjanleg.
Það sé mat Vinnumálastofnunar að framangreindar skýringar kæranda geti ekki talist gildar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Eins og fyrr segi hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá felist meðal annars í virkri atvinnuleit samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara og óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að framkoma kæranda í atvinnuviðtalinu hafi falið í sér höfnun á starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafi viðbörgð kæranda ekki verið til þess fallin að hún yrði ráðin til starfa hjá fyrirtækinu. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað starfi hjá C og ekki haft þar að baki gildar ástæður, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Því hafi borið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda þann 3. apríl 2024 miðlað í starf hjá C. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 4. apríl 2024 að kærandi hefði hafnað starfinu þar sem hún hefði ekki haft áhuga á því. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi ekki hafnað starfinu. Hún hafi rætt við atvinnurekanda um að umrætt starf væri gerólíkt þeim störfum sem kærandi væri að leita að og hafi sótt um, auk þess sem ekki hafi verið um fullt starf að ræða. Hún hafi þó sagst vera tilbúin að íhuga starfið. Atvinnurekandi hafi þá stungið upp á að hún myndi hugsa málið og hafa svo samband.
Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 kemur til skoðunar hvort kærandi hafi sannanlega hafnað starfi, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Ekki er að sjá af gögnum málsins að Vinnumálastofnun hafi gætt að þeirri skyldu sinni, enda var í engu brugðist við skýringum kæranda áður en hin kærða ákvörðun var tekin, svo sem með því að óska eftir frekari upplýsingum frá fyrirtækinu.
Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. apríl 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
_________________________________
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir