Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 120/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 120/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. september 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að þar sem hann hafi látið hjá líða að tilkynna um töku sjúkradagpeninga frá 27. apríl til 29. júlí 2011 sé bótaréttur hans felldur niður frá og með 31. ágúst 2011 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir skv. 1. mgr. 59. gr., sbr. 35. gr. a, laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. október 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. september 2010. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra komu fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur kæranda í maí 2011 vegna greiðslna sjúkradagpeninga frá X ehf. Samkvæmt upplýsingum kæranda til Vinnumálastofnunar fékk hann greidda sjúkradagpeninga 26. maí 2011 að fjárhæð 47.964 kr., 10. júní 2011 að fjárhæð 50.786 kr., 1. júlí 2011 að fjárhæð 81.821 kr. og 29. júlí 2011 að fjárhæð 79.000 kr.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi slasast við leik og beinbrotnað. Kærandi kveðst, áður en hann hafi sótt um slysabætur, rætt við lögfræðing um það að hann nyti atvinnuleysisbóta og hvort hann gæti jafnframt þegið slysabætur. Lögfræðingurinn hafi sagt að þessar greiðslur kæmu atvinnuleysisbótunum ekkert við. Kærandi hafi því tekið við þeim í góðri trú. Hann kveðst eftir á að hyggja hafa átt að kynna sér þetta betur og að mistökin verði að skrifast á hann. Hann kveður það aldrei hafa verið ætlun sína að svindla á kerfinu. Kærandi kveðst vera á námssamningi og skertar eða niðurfelldar bætur muni gera honum mjög erfitt fyrir með að sækja skóla í Reykjavík og að framfleyta sér.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. september 2011, bendir Vinnumálastofnun á að ákvörðun stofnunarinnar um að fella niður rétt kæranda til greiðslna atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé einnig mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar komi fram að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

Bent er á að í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi mjög skýrlega að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um vinnufærni.

Vinnumálastofnun vísar einnig til 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segi að hver sá sem njóti sjúkradagpeninga eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, sem komi til vegna óvinnufærni að fullu, teljist ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili. Þar sem greiðslum þeim sem taldar séu upp í 51. gr. laganna sé ætlað sama framfærsluhlutverk og greiðslur atvinnuleysistrygginga verði að ætla að atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrðið um virka atvinnuleit á þeim tíma sem hann eigi rétt á þeim greiðslum sem taldar séu upp.

Fram kemur að um endurgreiðslu hinna ofgreiddu atvinnuleysistrygginga til kæranda fari eftir 3. mgr. 29. gr. laganna þar sem mælt sé fyrir um að heimilt sé að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysistryggingum á móti síðar tilkomnum greiðslum atvinnuleysistrygginga sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemi 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði.

Vinnumálastofnun kveður það vera niðurstöðu sína að þar sem kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem á honum hvíldi að tilkynna til stofnunarinnar um breytingu á aðstæðum sínum og ósamrýmanlegar greiðslur skuli kærandi sæta viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga. Hinum ofgreiddu atvinnuleysistryggingum skuli svo skuldajafnað við síðar tilkomnar greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. október 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. október 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. september 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli þessu þáði hann tryggingabætur vegna tekjumissis í kjölfar slyss hjá X ehf. á tímabilinu 27. apríl til 29. júlí 2011 á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Er því ljóst að kærandi þáði ósamrýmanlegar greiðslur á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar, skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann færi greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kanna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna.

Kærandi gætti ekki að þeirri skyldu sinni skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að láta Vinnumálastofnun vita um þær breytingar sem urðu á högum hans þegar hann varð fyrir slysi og fékk greiddar tryggingabætur í kjölfarið.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið uppfyllti kærandi ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma er hann þáði greiðslur tryggingabóta. Vinnumálastofnun var því rétt að láta kæranda sæta viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Enn fremur var rétt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum við síðar tilkomnar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. ágúst 2011 í máli A um að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta í tvo mánuði er staðfest. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum skal skuldajafna við síðar tilkomnar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta