Mál nr. 593/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 593/2022
Fimmtudaginn 2. febrúar 2023
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 15. desember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. desember 2022, um að hann uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu desemberuppbótar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2022, nánar tiltekið á tímabilinu janúar til júlí 2022 og í desember 2022. Með erindi, dags. 15. desember 2022, óskaði kærandi eftir upplýsingum um greiðslu desemberuppbótar fyrir árið 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. desember 2022, var kæranda tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu desemberuppbótar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2022. Með bréfi, dags. 6. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 13. janúar 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur frá árinu 2020 til 15. júlí 2022. Hann hafi tekið fæðingarorlof í fjóra mánuði, frá 15. júlí til 31. nóvember 2022, og hafi þegið atvinnuleysisbætur að nýju frá 1. desember 2022. Vinnumálastofnun hafi synjað kæranda um greiðslu desemberuppbótar. Kæranda hafi ekki borist bréf varðandi ástæðu þess að hann fái ekki greidda uppbótina heldur hafi hann fengið upplýsingar um synjun Vinnumálastofnunar í netspjalli við stofnunina.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í nóvember 2020. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur þar til í júlí 2022 en þá hafi hann verið afskráður vegna töku fæðingarorlofs.
Kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga að nýju með umsókn, dags. 1. nóvember 2022. Í umsókn um atvinnuleysisbætur hafi kærandi tekið fram að hann gæti hafið störf þann 1. desember 2022 þegar fæðingarorlofi hans myndi ljúka. Sama dag hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og spurst fyrir um desemberuppbót.
Félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra hafi gefið út reglugerð þann 11. nóvember 2022 um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur. Með reglugerðinni hafi Vinnumálastofnun verið heimilað að greiða desemberuppbót til þeirra sem hefðu staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2022.
Með erindi, dags. 14. nóvember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt. Þann 21. nóvember 2022 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og spurst fyrir um staðfestingu á atvinnuleit. Kæranda hafi verið tjáð að hann þyrfti ekki að staðfesta atvinnuleit fyrr en í lok desember þar sem hann væri fyrst skráður atvinnulaus hjá stofnuninni frá og með 1. desember 2022. Kærandi hafi aftur leitað upplýsinga hjá Vinnumálastofnun varðandi desemberuppbót þann 15. desember 2022 og fengið þær upplýsingar að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu desemberuppbótar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laganna sé ráðherra fengin heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Þann 11. nóvember 2022 hafi tekið gildi reglugerð nr. 1232/2022 um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur, sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Reglugerðin hafi verið efnislega samhljóða fyrri reglugerðum sem settar hafi verið um greiðslu sérstakra desemberuppbóta á grunnatvinnuleysisbætur undanfarin ár. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að sá sem hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2022 og verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu 2022 eigi rétt á desemberuppbót að fjárhæð 94.119 kr., enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma. Þá sé í 2. til 4. gr. reglugerðarinnar kveðið á um hlutfallslegan rétt atvinnuleitanda til desemberuppbótar sem sé þó ávallt háður því skilyrði að viðkomandi atvinnuleitandi hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2022.
Eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna sé að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit. Í því felist meðal annars, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að atvinnuleitandi sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, hafi vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi honum til boða og sé reiðubúinn að taka starfi, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða eða vaktavinnu. Einnig sé skilyrði að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði laganna sem varði minnkað starfshlutfall eigi við um aðstæður umsækjanda. Staðfesting á atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun feli í sér staðfestingu atvinnuleitanda á því að hann hafi verið án atvinnu og í virkri atvinnuleit síðastliðinn mánuð.
Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur mánuði áður en hann hafi getað hafið störf þann 1. desember. Fram að þeim tíma hafi kærandi verið í fæðingarorlofi. Kærandi hafi því ekki getað staðfest atvinnuleit sína í lok nóvember því að hann hafi ekki verið í virkri atvinnuleit og ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar fyrr en 1. desember 2022.
Í ljósi skilyrða fyrir greiðslum desemberuppbóta um að atvinnuleitandi hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2022, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1232/2022, um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur, sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu desemberuppbótar, enda hafi hann ekki staðfest atvinnuleit sína í nóvember, hafi ekki talist tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og hafi ekki verið í virkri atvinnuleit á umræddu tímabili.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu desemberuppbótar á grundvelli reglugerðar nr. 1232/2022.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu desemberuppbótar fyrir árið 2022.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laganna er að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006 er ráðherra fengin heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Þann 11. nóvember 2022 var á grundvelli þeirrar heimildar sett reglugerð nr. 1232/2022 um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur. Þar segi í 2. gr. að sá sem hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2022 og verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu 2022 eigi rétt á desemberuppbót að fjárhæð 94.119 kr., enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma. Þá er í 2. til 4. gr. reglugerðarinnar kveðið á um hlutfallslegan rétt atvinnuleitanda til desemberuppbótar sem er þó ávallt háður því skilyrði að viðkomandi atvinnuleitandi hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2022.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu janúar til júlí 2022 en þá hóf hann töku fæðingarorlofs. Kærandi óskaði á ný eftir greiðslu atvinnuleysisbóta frá 1. desember 2022 þegar fæðingarorlofi hans lyki. Í framangreindri reglugerð er skýrt kveðið á um að desemberuppbót greiðist eingöngu til þeirra sem hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2022. Þar sem kærandi var skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun frá 1. desember 2022 þurfti hann ekki að staðfesta atvinnuleit fyrr en á tímabilinu 20. til 25. desember 2022. Að því virtu átti hann ekki rétt á greiðslu desemberuppbótar á grundvelli reglugerðar nr. 1232/2022 og er hin kærða ákvörðun því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. desember 2022, um að A, eigi ekki rétt á greiðslu desemberuppbótar, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir