Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 541/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 541/2021

Fimmtudaginn 20. janúar 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. október 2021, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 20. september 2021. Í kjölfarið barst Vinnumálastofnun vottorð vinnuveitanda þar sem ástæða starfsloka kæranda er skráð sem uppsögn. Skýringar vegna starfslokanna bárust frá kæranda þann 27. september 2021. Með erindi, dags. 5. október 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri bótaréttur hans hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. október 2021. Með bréfi, dags. 15. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 13. desember 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið neyddur til að segja upp starfi sínu eftir að hafa starfað við þrif hjá B í fimm og hálft ár. Meginástæða uppsagnarinnar hafi verið áreitni og einelti af hálfu pólskra yfirmanna. Það séu mörg dæmi sem hafi safnast upp á skömmum tíma þar til hann hafi tekið ákvörðun um að segja upp starfi sínu.

Kærandi geti ekki ímyndað sér að starfa á vinnustað þar sem hegðun starfsmanna sé gerð að athlægi. Það skipti ekki máli hvort viðkomandi starfsmaður hafi starfað þarna í mánuð, hálft ár eða nokkur ár. Allt starfsfólk eigi skilið viðeigandi meðferð og virðingu sem kærandi hafi ekki fengið á þessum vinnustað. Yfirmönnunum hafi þótt gaman af því að velja sér einn eða tvo einstaklinga sem geri fleiri mistök í vinnunni en aðrir og áreita þá sérstaklega. Það hafi ekki verið óalgengt að umræddir einstaklingar hafi hætt störfum þar sem þeir voru ekki færir um að takast á við slíka meðferð.

Ein ógeðslegasta hegðun yfirmannanna hafi verið kynþáttaníð gagnvart starfsfólki frá Afríku. Það sé erfitt fyrir kæranda að ímynda sér hvernig það sé mögulegt að slík misnotkun eigi sér stað í svo stóru fyrirtæki án þess að einhver bregðist við því. Hann gruni að þetta starfsfólk hafi ekki gert sér grein fyrir hvernig talað hafi verið um það þar sem það hafi verið gert á pólsku. Annað dæmi sé móðgun í garð starfsfólks á grundvelli menntunarstigs þeirra. Margir starfsmenn séu með góða menntun sem eigi erfitt með að fá vinnu í Póllandi vegna lágra launa og bágs efnahagsástands í landinu. Hins vegar sé upplifun kæranda sú að þau sem hafi menntað sig séu einskis virði, enda sé þeim stjórnað af yngra og minna menntuðu fólki. Brugðist hafi verið við gagnrýni starfsfólksins með því að senda þau á skrifstofu stjórnenda þar sem þeim hafi verið sagt að tala ekki opinberlega, að sýna ekki tilfinningar og að fara eftir fyrirmælum. Refsað yrði fyrir aðra hegðun af hefndarfullum yfirmönnum með því að láta viðkomandi starfsmann sinna verstu störfunum og með stöðugri misnotkun í garð hans. 

Það versta hafi verið framkoma stjórnenda deildarinnar. Starfsfólk hafi kvartað til þeirra og þeir hafi verið meðvitaðir um stöðuna en ekki gert neitt til að laga stöðuna. Því miður sé litið á kæranda og annað starfsfólk sem einskonar númer innan fyrirtækisins sem verði skipt út fyrir nýtt starfsfólk. Þegar kærandi hafi látið af störfum hafi honum ekki þótt hann vera neins virði, hvorki sem starfsmaður né sem einstaklingur. Hann hafi verið óöruggur og sjálfsálit hans hafi minnkað töluvert. Það sé erfitt að útskýra hvernig vinnustaður geti breyst svo mikið á fáum mánuðum.

Kærandi segi vinnustaðinn vera mengaðan og að hann geti ekki hugsað sér að snúa þangað aftur. Það hafi komið honum verulega á óvart að bótaréttur hans hafi verið felldur niður í tvo mánuði. Hann telji ástæður starfsloka sinna á rökum reistar og vilji því að kæra hans verði samþykkt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laganna sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og hafi misst fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi verið talin falla þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæðinu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þar sem annað starf sé ekki í boði. Þar sé jafnframt sérstaklega tekið fram að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki uppsögn væru gildar þar sem þær ástæður geti verið að margvíslegum toga. Þó sé í athugasemdum fjallað sérstaklega um tvenns konar tilvik sem talin séu heyra til gildra ástæða fyrir starfslokum. Annars vegar þegar um sé að ræða þau tilvik þegar maki hins tryggða hefji störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Hins vegar séu það þau tilvik þegar uppsögn megi rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær. Í athugasemdum sé þó sérstaklega áréttað að við þær aðstæður sé gert að skilyrði að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en launamaðurinn hafi látið af störfum. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls sem fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Fyrir liggi að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu hjá B. Ágreiningur lúti að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn í starfi teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.

Þær skýringar sem kærandi hafi gefið sem ástæðu fyrir uppsögn sinni lúti einkum að því að aðstæður og framkoma yfirmanna hans hafi verið með öllu óboðleg. Lýsi kærandi óboðlegri framkomu yfirmanna sinna, svo sem særandi og meiðandi ummælum í garð sjálfs síns og samstarfsmanna sinna. Þá greini hann frá því að hann hafi við störf sín hjá B misst sjálfstraust sitt og sjálfsálit. Þegar ástæður uppsagnar varði framkomu og aðstæður á vinnustað hafi í framkvæmd verið gerð sú krafa til launamanna að þeir nýti sér öll tiltæk úrræði til úrbóta, svo sem að leita til síns stéttarfélags eða tryggja sér annað starf, áður en þeir ákveði að segja starfi sínu lausu. Kærandi greini frá því að hann hafi gert athugasemdir við þá framkomu sem hann hafi skýrt Vinnumálastofnun frá en aðeins fengið verri meðferð frá yfirmönnum sínum í kjölfarið. Af gögnum málsins verði hins vegar ekki séð að kærandi hafi leitað til síns stéttarfélags. Að mati Vinnumálastofnunar hafi kærandi því ekki nýtt sér öll tiltæk úrræði til bóta áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu.

Vinnumálastofnun vilji vekja athygli á því að kæranda hafi verið tilkynnt með erindi, dags. 5. október 2021, að ef staðfesting trúnaðarmanns eða stéttarfélags bærist stofnuninni um aðstæður á vinnustað yrði mál hans tekið fyrir að nýju.

Með vísan til ofangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi sagt upp starfi sínu vegna áreitni og eineltis af hálfu yfirmanna hjá B. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hafi leitað til síns stéttarfélags. Því hafi kærandi ekki nýtt sér öll tiltæk úrræði til bóta áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu.  

Eins og fram hefur komið er ákvörðun um að umsækjandi skuli sæta biðtíma íþyngjandi ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Ekki er að sjá af gögnum málsins að Vinnumálastofnun hafi gætt að þeirri skyldu sinni, enda var hvorki óskað sérstaklega eftir frekari upplýsingum frá kæranda né fyrrum vinnuveitanda hans um þær aðstæður sem hann vísaði til á vinnustaðnum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi ekki upplýst mál kæranda nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun um að fella niður bótarétt hans var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. október 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta