Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 33/2012

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 33/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 28. nóvember 2011 fjallað um höfnun hennar á atvinnuviðtali. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 28. nóvember 2011 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Í bréfinu segir að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 21. febrúar 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. september 2011. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið boðuð í starfsviðtal hjá Reykjavíkurborg - leikskólasviði í nóvember 2011 sem hún hafi hafnað. Kærandi kveðst hins vegar hafa verið boðuð í starfsþjálfun hjá Reykjavíkurborg í nóvember 2011 sem hún hafi hafnað. Kærandi skilaði inn skriflegum skýringum til Vinnumálastofnunar 16. nóvember 2011 þar sem hún gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum. Fram kemur meðal annars að hún taldi starfið ekki henta sér þar sem hún væri háskólamenntuð og enn ekki úrkula vonar um að fá vinnu við hæfi.

 

Kærandi telur að skýring starfsmanns Reykjavíkurborgar á höfnun starfsþjálfunar og skráning hans á atvikum og málsatriðum séu algerlega ófullnægjandi. Þá hefði sá sem hringdi mátt útskýra málið betur og hefði mátt segja kæranda að um væri að ræða starfsviðtal en ekki námsúrræði og að hún teldist vera að hafna starfi. Ástæða þess að hún hafi hafnað starfsþjálfun á leikskólasviði Reykjavíkurborgar hafi verið að hún hafi starfað í lengri tíma á leikskóla og hafi ekki talið sig þurfa þjálfun til slíkra starfa. því hafi hún ekki talið nefnt úrræði henta sér. Kærandi telur að Vinnumálastofnun þurfi að bera ábyrgð á því að skýringar hennar og andmæli hafi ekki verið skráð í kjölfar símtals við starfsmann sem boðið hafi starfsþjálfunina. Þessum skýringum hafi verið komið á framfæri við starfsmanninn og hafi kærandi talið að skýringarnar lægu fyrir hjá Vinnumálastofnun þegar hún ritaði bréf sitt, dags. 16. nóvember 2011. Skýringarnar hafi hins vegar ekki legið fyrir við töku ákvörðunarinnar sem hefði átt á skrá þegar hún hafnaði starfsþjálfuninni. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við þessa stjórnsýsluhætti sem varla geti talist vandaðir. Kærandi telur að með því að hafa ekki aflað frekari upplýsinga frá umræddum starfsmanni sem bauð henni starfsþjálfunina um ástæður fyrir höfnun starfsþjálfunar hafi Vinnumálastofnun brotið gegn 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Kærandi hafnar því að henni hafi verið boðið starf með sannanlegum hætti í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Henni hafi verið boðin starfsþjálfun í starf sem hún hafi áður unnið fyrir stuttu síðan. Þá telji hún að þrátt fyrir höfnun starfsþjálfunar hafi hún samt uppfyllt skilyrði virkrar atvinnuleitar. Hefði henni verið boðið starf á leikskóla hefði hún að sjálfsögðu tekið því.

 

Kærandi telur ljóst að hún uppfylli ekki skilyrði starfsþjálfunar á leikskóla, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar segi að skilyrði fyrir slíkum samningi sé meðal annars að atvinnuleitandi hafi ekki áður starfað í þeirri starfsgrein sem um sé að ræða eða lengri tími en eitt ár sé liðinn síðan hann hafi látið af störfum í starfsgreininni. Í bréfi Vinnumálastofnunar komi það fram að um hafi verið að ræða sérstakt átaksverkefni á grundvelli 9. gr. reglugerðarinnar. Úrræði það sem henni hafi verið boðið upp á með símtali í nóvember 2011 hafi skýrlega verið kynnt sem starfsþjálfun. Hún telji að það hljóti að skipta máli að litið verði svo á að hún hafi hafnað starfsþjálfun á leikskóla, enda uppfylli hún ekki skilyrði 3. mgr. 3. gr. framangreindrar reglugerðar. Höfnunin hafi þannig verið byggð á gildum og góðum ástæðum.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. maí 2012, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

 

Vinnumálastofnun greinir jafnframt frá því að eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Kemur fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi er boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi hafi hafnað starfi hjá Reykjavíkurborg - leikskólasviði. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafi kærandi talið að starfið hentaði henni ekki og sé það í samræmi við þær upplýsingar sem kærandi hafi veitt í skýringarbréfi sínu til Vinnumálastofnunar.

 

Það úrræði sem kæranda hafi verið boðið sé hluti af þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem starfræktar eru á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Í 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir sé tekið fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsúrræða og falli þar undir meðal annars starfsúrræði, þ.e. starfskynning, starfsþjálfun og reynsluráðning. Í 3. gr. reglugerðar nr. 12/2009 sé fjallað um starfsþjálfun og í 1. mgr. sé meðal annars tekið fram að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til fyrirtækis eða stofnunar í stað þess að greiða það til atvinnuleitanda. Sambærilega útfærslu á greiðslu grunnatvinnuleysisbóta til fyrirtækis eða stofnunar sé að finna varðandi reynsluráðningu, frumkvöðlastarf innan fyrirtækis eða stofnunar og varðandi sérstök átaskverkefni.

 

Í tilfelli kæranda hafi ekki verið um að ræða starfsþjálfun heldur sérstakt átaksverkefni á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Í 3. mgr. 9. gr. komi fram að skilyrði fyrir gerð átaksverkefnasamnings skv. 1. mgr. sé að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda fyrirtækis, stofnunar eða frjálsra félagasamtaka.

 

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að hvort sem úrskurðarnefndin telji mál kæranda falla undir 3. eða 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009 telji Vinnumálastofnun engan eðlismun vera á umræddum úrræðum og höfnun á þeim án gildra ástæðna feli í sér höfnun á vinnumarkaðsúrræði og varði því viðurlög skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í fyrrgreindri ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi þó verið vísað til 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en réttilega hefði átt að vísa til 58. gr. laganna. Þar sem mælt sé fyrir um sömu viðurlög í báðum ákvæðunum og við mat á gildi höfnunar atvinnuleitanda á vinnumarkaðsúrræði sé litið til sömu sjónarmiða og við mat á gildi höfnunar atvinnuleitandans á atvinnuviðtali telji stofnunin það ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins eða þau viðurlög sem kærandi hafi sætt af hálfu stofnunarinnar að vísað hafi verið ranglega til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í stað 1. mgr. 58. gr. laganna. Telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað vinnumarkaðsúrræði í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. maí 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. júní 2012. Kærandi sendi frekari athugasemdir með bréfi, dags. 3. júní 2012.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi kveður að sér hafi í nóvember 2011 verið boðin tímabundin starfsþjálfun í leikskóla. Því hafi hún hafnað vegna þess að hún hafi starfað í lengri tíma á leikskóla og hafi ekki talið sig þurfa þjálfun til slíkra starfa. Í gögnum máls sem úrskurðarnefndinni hefur borist frá Vinnumálastofnun kemur fram að henni hafi verið boðið starf á leikskóla. Þar kemur einnig fram að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali hjá Reykjavíkurborg þar sem kærandi hafi ekki talið vinnuna sem boðin var, henta sér. Kæranda var gefinn kostur á að skila skýringum á því hvers vegna hún hafnaði atvinnutilboðinu. Það gerði kærandi og var skýringarbréfið móttekið þann 17. nóvember 2011. Í skýringarbréfi kæranda kemur fram að kærandi telji að sér hafi ekki verið boðið starf heldur starfsþjálfun hjá Reykjavíkurborg á leikskóla. Hún taldi sig ekki þurfa neina starfsþjálfun þar sem hún hafi verið vanur starfsmaður á leikskóla. Hún taldi hins vegar að henni hafi alls ekki verið boðið neitt starf. Eftir að skýringarbréf barst frá kæranda var tekin formleg ákvörðun um niðurfellingu bóta í tvo mánuði frá og með 28. nóvember 2011 þar sem kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali.

 

Hvergi í gögnum Vinnumálastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið boðin sérstök starfsþjálfun. Allt ferli kæranda hjá Vinnumálastofnun gengur út á að um atvinnuviðtal hafi verið að ræða sem henni var boðið. Það er því ekki fallist á að mál kæranda skuli skoða út frá því að um einhvers konar starfsþjálfunarboð hafi verið að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar var ákvörðun í máli kæranda tekin á réttum grundvelli, þ.e. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

 

Í 4. mgr. sömu lagagreinar kemur eftirfarandi fram:

 

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

 

Í athugasemdum við tilvitnaða 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að heimilt sé að taka tillit til þess þegar hinn tryggði geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu þar sem ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann er ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar.

 

Umsókn atvinnuleitanda og síðari upplýsingar sem hann veitir Vinnumálastofnun leggja grundvöllinn að aðgerðum stofnunarinnar til að útvega honum starf. Að jafnaði er gert ráð fyrir því að atvinnuleitandi sé fær til flestra almennra starfa, en að öðrum kosti telst hann ekki í virkri atvinnuleit í skilningi a-liðar 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Sú skilyrðislausa skylda hvílir á atvinnuleitanda að tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar um breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun er heimilt að taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis, sbr. lokamálslið 4. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal aðili eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins hver afstaða hans var. Í tilviki kæranda gaf hún skýringar sínar á því hvers vegna hún hafnaði atvinnutilboðinu. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að sjónarmið kæranda vegna höfnunarinnar hafi legið fyrir á því tímamarki þegar hin kærða ákvörðun var tekin og að uppfylltar hafi verið reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt kæranda. Hver og einn umsækjandi um atvinnuleysisbætur fær kynningu hjá Vinnumálastofnun á því hvernig réttur hans er á því tímabili þegar hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Þá er rækilega greint frá því á vef Vinnumálastofnunar hverjar afleiðingar eru af því ef umsækjandi um greiðslu atvinnuleysisbóta hafnar atvinnutilboði. Það verður því ekki hjá því komist að líta svo á að kæranda hafi mátt vera kunnugt um það hverjar afleiðingar gætu verið af höfnun atvinnutilboðs.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. nóvember 2011 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta