Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 611/2020-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 611/2020

Fimmtudaginn 25. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. nóvember 2020, um að synja umsókn hennar um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 16. október 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. nóvember 2020, á þeirri forsendu að skilyrði d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 24/2020 væri ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 7. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. janúar 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið samfleytt í vinnu í mörg ár og greitt öll sín gjöld og skatta. Í lok ágúst 2020 hafi kærandi skipt um vinnustað og farið að starfa sjálfstætt. Þar sem kærandi hafi verið launþegi fyrir þann tíma hafi ekki verið neinn tilgangur í því að greiða sjálf tryggingagjaldið en hún hafi vissulega samfleytt í mörg ár staðið skil á sínu. Kærandi óski því eftir endurskoðun málsins en hún hafi verið skikkuð í sóttkví.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað á grundvelli d. liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 24/2020. Þar komi fram að skilyrði fyrir greiðslum sé að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með opinn rekstur, auk þess að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda að minnsta kosti þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra. Á umsóknardegi hafi kærandi verið með reiknað endurgjald vegna septembermánaðar en fyrir þann tíma hafi kærandi verið launþegi og því hafi skilyrði d. liðar 1. mgr. 7. gr. laganna ekki verið uppfyllt þegar kærandi hafi sótt um greiðslur í sóttví.

Lög nr. 24/2020 taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Í 1. mgr. 7. gr. laganna sé fjallað um skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2020 komi fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur skuli vera með opinn rekstur og skuli auk þess hafa staðið í skilum á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda að minnsta kosti þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag. Í greinargerðinni komi fram að í ljósi þess að kveðið sé á um tímabundið úrræði sem afmarkist við tiltekið tímabil á árinu 2020 þyki rétt að miðað sé við að sjálfstætt starfandi einstaklingar séu með opinn rekstur og hafi staðið skil á opinberum gjöldum á framangreindan hátt. Þá verði að ætla að ekki geti verið um tekjutap að ræða hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur stöðvað rekstur áður en til þess komi að hann sæti fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví. Í 8. gr. frumvarpsins sé lagt til að fjárhæð greiðslna til sjálfstætt starfandi einstaklinga taki mið af reiknuðu endurgjaldi. Við mat á því hvort umsækjandi teljist vera með opinn rekstur sé gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti meðal annars litið til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá Ríkisskattstjóra, sbr. heimild stofnunarinnar í 10. gr. frumvarpsins til þess að afla nauðsynlegra upplýsinga.

Kærandi hafi sótt um þann 16. október 2020. Á þeim tíma er kærandi sæki um greiðslur í sóttkví hafi hún staðið skil á reiknuðu endurgjaldi vegna septembermánaðar. Fyrir þann tíma hafi kærandi verið launþegi. Jafnvel þó að kærandi hafi verið launþegi fyrir þann tíma og vinnuveitandi hennar hafi staðið skil á skattgreiðslum uppfylli kærandi ekki eitt af þeim skilyrðum sem lög nr. 24/2020 setji, enda þurfi kærandi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda að minnsta kosti þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra.

Samkvæmt þeim gögnum sem liggi til grundvallar hafi kærandi ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattayfirvalda á ávinnslutímabilinu sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Á þeim grundvelli hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að synja umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví, þ.e. skilyrði laga nr. 24/2020 væru ekki uppfyllt. Í þessu samhengi vísist sérstaklega til d. liðar 1. mgr. 7. gr. laganna.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga nr. 24/2020. Þá verði ekki fallist á að aðrar ástæður er kærandi hafi fært fram í máli sínu geti talist gildar í skilningi laga nr. 24/2020. Í ljósi framangreinds telji Vinnumálastofnun að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví með vísan til d. liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 24/2020.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. 

Í 1. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um gildissvið laganna. Þar segir að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafi launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2020. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fái ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Óumdeilt er að kærandi var sjálfstætt starfandi þegar henni var gert að sæta sóttkví.

Í 7. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingi launatap, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:

a. sjálfstætt starfandi einstaklingur, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hafi sætt sóttkví,

b. sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,

c. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi getað unnið störf sín,

d. sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með opinn rekstur auk þess að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.“

Kærandi sótti um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 þann 16. október 2020. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að skilyrði d. liðar 7. gr. laganna væri ekki uppfyllt. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi reiknað endurgjald í september 2020 en var launþegi fyrir þann tíma. Kærandi uppfyllti því ekki framangreint skilyrði d. liðar 7. gr. laga nr. 24/2020 um að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi í að minnsta kosti þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag. Að því virtu er skilyrði til greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020 ekki uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. nóvember 2020, um að synja umsókn A, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta