Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 79/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 79/2015

Fimmtudaginn 22. september 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 5. desember 2015, kærði A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. september 2015, um að synja  umsókn hennar um atvinnuleysistryggingar.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 31. desember 2014 og var umsókn hennar samþykkt. Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta fékk kærandi heimild til að stunda nám á framhaldsskólastigi á vorönn 2015. Með tölvupósti þann 4. júní 2015 óskaði kærandi eftir því að vera tekin af greiðsluskrá atvinnuleysisbóta þar sem hún væri að hefja nám í sumarskóla og var í kjölfarið afskráð.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju þann 8. júlí 2015. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2015, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn hennar um atvinnuleysistryggingar þar sem hún væri í námi og skráð í nám á næsta misseri, sbr. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar tölvupósts frá kæranda þann 13. september 2015 tók Vinnumálastofnun umsókn hennar fyrir að nýju og staðfesti stofnunin fyrri ákvörðun sína með bréfi til kæranda, dags. 18. september 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. desember 2015. Með bréfi, dags. 5. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust 20. febrúar 2016.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur verði samþykkt. Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki ætlað í nám haustið 2015 þar sem hún hafi verið komin með vilyrði fyrir vinnu. Á skömmum tíma hefðu heimilisaðstæður þó breyst þannig að hún hafi skráð sig í nám. Í 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt tekið fram að aðili þurfi að ætla sér í áframhaldandi nám til þess að vera ekki gjaldgengur til bóta. Orðalag ákvæðisins gefi einnig til kynna hugarástand eða yfirlýsingu. Kærandi hafi hvorki gefið út yfirlýsingu til skóla né Vinnumálastofnunar um að hún hafi ætlað sér að halda áfram í námi.

Kærandi ítrekar að heimilisaðstæður hefðu ekki gert henni kleift að fara í nám og því sé það skýrt að hún hafi aldrei ætlað sér í nám þrátt fyrir að hafa á endanum gert það. Hin kærða ákvörðun sé því röng og ósanngjörn, enda hafi aðstæður þeirra hjóna breyst talsvert frá því hún hafi sótt um bætur og þar til hún hafi óskað þess að vera skráð af þeim.

Kærandi bendir á að síðasta námsönnin, sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun, hafi verið sumarskóli í fjölbrautarskóla en þar hafi hún einungis tekið fjórar einingar. Samkvæmt Vinnumálastofnun hafi svo fáar einingar ekki áhrif á getu atvinnuleitanda til að stunda vinnu skyldi hún bjóðast.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Þá komi fram í 6. mgr. 14. gr. að sá sem hafi verið skráður í nám á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggist halda námi áfram á næstu námsönn teljist ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildi um námsmenn sem skipti um skóla á milli námsanna eða fari á milli skólastiga.

Í athugasemdum með 5. gr. frumvarpsins sem hafi orðið að lögum nr. 134/2009 segi meðal annars að það þyki ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla, enda sé kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Það komi því skýrt fram að námsmenn teljist ekki tryggðir í námsleyfum skóla. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Þá sé í 6. mgr. 14. gr. laganna skýrt tekið fram að námsmaður teljist ekki vera tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið skráður í skóla á einni námsönn og sé jafnframt skráður í nám á næstu námsönn á eftir. Ákvæðið sé ekki bundið frekari skilyrðum en þeim að viðkomandi einstaklingur stundi nám í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og falli nám við framhaldsskóla þar undir.

Vinnumálastofnun tekur fram að það liggi ljóst fyrir að kærandi hafi stundað nám á framhaldsskólastigi á vorönn 2015 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, með heimild Vinnumálastofnunar. Þá hafi kærandi stundað nám á sumarönn 2015 en verið afskráð af greiðsluskrá á meðan á náminu stóð. Kærandi hafi hafið nám á haustönn 2015 þann 19. ágúst 2015. Kærandi hafi því verið á milli anna á því tímabili sem hún hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun bendir á að stofnunin geti ekki tekið til skoðunar fyrirætlanir kæranda og hvenær hún hafi ákveðið að halda áfram námi. Að mati stofnunarinnar sé ákvæði 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 ekki bundið frekari skilyrðum en þeim að viðkomandi einstaklingur stundi nám í skilningi 3. gr. laganna á milli anna. Þá geti sá fjöldi eininga sem kærandi hafi lokið á sumarönn 2015 ekki haft áhrif á niðurstöðu í máli hennar, enda falli allt nám á framhaldsskólastigi undir 3. gr. laganna óháð umfangi. Ástundun náms sé þar af leiðandi óheimil samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, sbr. 52. gr. laganna, nema um sé að ræða vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt skýru orðalagi 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/20096 teljist kærandi því ekki tryggð á grundvelli laganna þann tíma sem námsleyfi hennar hafi staðið yfir. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á milli námsanna.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hún væri námsmaður á milli anna, sbr. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. laganna.

Í 6. mgr. 14. gr. segir að sá sem hafi verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggist halda námi áfram á næstu námsönn teljist ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildi um námsmenn sem skipti um skóla á milli námsanna og fari á milli skólastiga. Í athugasemdum við 5. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 134/2009 og er nú 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að það þyki ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla, enda sé kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Samkvæmt gögnum málsins þáði kærandi atvinnuleysisbætur á vorönn 2015 og fékk heimild frá Vinnumálastofnun til að stunda nám í fjölbrautaskóla samhliða þeim greiðslum. Þá liggur fyrir að kærandi óskaði eftir því að hún yrði afskráð af greiðsluskrá atvinnuleysistrygginga þegar hún hóf nám í sumarskóla sumarið 2015. Með umsókn, dags. 8. júlí 2015, sótti kærandi um atvinnuleysisbætur á ný og lýtur ágreiningur málsins að því hvort hún hafi verið námsmaður á milli anna á þeim tíma í skilningi 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006.

Að mati úrskurðarnefndarinnar á ákvæði 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 við um þá einstaklinga sem hafa stundað nám og eru ekki tryggðir samkvæmt lögunum, þ.e. eru ekki að þiggja greiðslur frá Vinnumálastofnun. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið heimild til að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta verður hún ekki skilgreind sem námsmaður samkvæmt ákvæðinu. Úrskurðarnefndin getur því ekki fallist á þá afstöðu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið námsmaður á vorönn 2015, en líkt og að framan greinir eru námsmenn ekki tryggðir samkvæmt lögum nr. 54/2006.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. september 2015, í máli A um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta