Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 67/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 67/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hafi á fundi sínum þann 7. desember 2010 tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann væri í námi samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga, án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 20. ágúst til 19. október 2010 að fjárhæð 346.165 kr. sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. apríl 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 14. júní 2010 og fékk greitt í samræmi við rétt sinn.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar við námsskrár menntastofnana í októbermánuði 2010, kom í ljós að kærandi var skráður í nám við Fjölbrautaskólann á Selfossi, samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga, án þess að fyrir lægi námssamningur kæranda við Vinnumálastofnun.

Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. apríl 2011, segir kærandi að hann hafi veitt Vinnumálastofnun réttar upplýsingar á byrjunarstigi umsóknar um greiðslu atvinnuleysistrygginga, eins og gögn í máli hans sýni. Telur kærandi að um misskilning sé að ræða og auk þess telur hann að Vinnumálastofnun hafi ástundað óvönduð vinnubrögð.

Með bréfi, dags. 3. nóvember 2010, var kæranda tilkynnt um framangreinda samkeyrslu gagnagrunna og var hann beðinn um að hafa samband við ráðgjafa Vinnumálastofnunar ásamt því að skila inn staðfestingu á einingafjölda frá viðkomandi skóla. Kæranda var einnig tilkynnt að í kjölfar þess að gögn frá honum bærust, myndi Vinnumálastofnun taka ákvörðun um hvort honum væri heimilt að stunda nám samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga. Engar athugasemdir eða skýringar bárust frá kæranda.

Með bréfi, dags. 14. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann væri í námi samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga, án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 20. ágúst til 19. október 2010 að fjárhæð 346.165 kr. sem honum bæri að endurgreiða með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með bréfi, dags. 24. desember 2010, sendi kærandi beiðni til Vinnumálastofnunar um endurupptöku máls hans hjá stofnuninni þar sem hann taldi að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að beiðni hans um endurupptöku væri synjað þar sem stofnunin taldi að engar nýjar upplýsingar hafi komið fram sem þýðingu hefðu við ákvörðun málsins.

Í beiðni kæranda til Vinnumálastofnunar um endurupptöku máls, dags. 24. desember 2010, segir kærandi að Vinnumálastofnun hafi ekki byggt ákvörðun sína frá 14. desember 2010 á fullnægjandi upplýsingum og gögnum. Kærandi bendir á að hann hafi ekki leynt Vinnumálastofnun neinum upplýsingum, hann hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni sem atvinnuleitandi og upplýst Vinnumálastofnun frá upphafi um að hann væri í námi. Kærandi vísar til rafrænnar umsóknar sinnar um greiðslu atvinnuleysistrygginga, þar sem hann svaraði spurningunni „Ert þú í námi núna?“ með því að velja valkostinn „já“ og einnig hafi hann tekið fram að hann væri í fullu námi. Kærandi segist einnig hafa beðið Fjölbrautaskóla Suðurlands um að upplýsingar um námshlutfall hans og afrit af stundatöflu hans yrðu send til Vinnumálastofnunar.

Kærandi segir að hann hafi talið að með greiðslu atvinnuleysistrygginga til hans væri verið að staðfesta rétt hans til atvinnuleysisbóta á grundvelli þeirra gagna sem hann hafi lagt fram. Kærandi segist hafa sent öll umbeðin gögn og sinnt upplýsingaskyldu sinni fullkomlega í öllum samskiptum sínum við Vinnumálastofnun. Kærandi segist hafa gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun myndi fara fram á að hann myndi fylla út umsókn um námssamning ef þess gerðist þörf, í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi bendir á upplýsingar fyrir atvinnuleitanda sem er að finna á vef Vinnumálastofnunar um nám, en þar segir að Vinnumálastofnun skuli meta sérstaklega hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður samkvæmt lögum þessum þegar hann hefur stundað nám með starfi sínu sem hann missti og námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kærandi segir að hann hafi stundað nám samhliða því að vinna áður en hann varð atvinnulaus og því hafi Vinnumálastofnun borið að meta rétt hans til atvinnuleysistrygginga með hliðsjón af því. Kærandi bendir einnig á að nám hans sem var alls 12 einingar, hafi ekki verið lánshæft samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Kærandi telur einnig að Vinnumálastofnun hafi borið að eiga frumkvæði að gerð námssamnings við hann, hafi þess gerst þörf.

Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. apríl 2011, segir kærandi að hann hafi veitt Vinnumálastofnun réttar upplýsingar á byrjunarstigi umsóknar um greiðslu atvinnuleysistrygginga, eins og gögn í máli hans sýni. Telur kærandi að um misskilning sé að ræða og óvönduð vinnubrögð af hálfu Vinnumálastofnunar. Kærandi ítrekar þau sjónarmið sem fram komu í beiðni hans um endurupptöku máls hans, að hann hafi tilgreint að hann væri í námi sem væri ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og að Vinnumálastofnun hafi borist öll gögn varðandi námsþátttöku hans.

Kærandi segir að þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki óskað eftir því að gera við hann námssamning, hafi hann talið að stofnunin hafi metið umsókn hans þannig að námssamningur væri óþarfur. Kærandi vísar til máls úrskurðarnefndarinnar nr. 65/2010, þar sem fjallað sé um undanþáguheimildir.

Kærandi vísar til upplýsinga til atvinnuleitanda á vef Vinnumálastofnunar og segir að Vinnumálastofnun hafi borið að meta sérstaklega hvort hann væri tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, þar sem hann uppfylli skilyrðið um að hafa stundað ólánshæft nám með starfi sem hann hafi síðar misst.

Kærandi telur það umhugsunarefni hvers vegna hann hefði átt að telja það vera sér í hag að gera ekki námssamning við Vinnumálastofnun, þegar augljóst er að hann hafi uppfyllt öll skilyrði til þess. Kærandi segir að hann hafi ekki gert sér grein fyrir möguleika á námssamningi og bendir á að ráðgjafar á þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar sinni því hlutverki að leiðbeina atvinnuleitendum.

Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni skv. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, einnig telur hann að úrskurða eigi í máli hans á grundvelli meginreglu stjórnsýslulaga um meðalhóf, þannig að ekki eigi að taka íþyngjandi ákvörðun í máli hans þar sem hægt sé að beita vægari úrræðum.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. júní 2011, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar sé sett fram skilgreining á námi sem samfellt nám við viðurkennda menntastofnun sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Vinnumálastofnun áréttar að í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Meginregla laga um atvinnuleysistryggingar sé að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga meðan þeir leggi stund á nám sem sé ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar, sbr. 52. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun áréttar einnig að það sé eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, þar sem Vinnumálastofnun er veitt heimild til að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur sé gerður er að viðkomandi einstaklingur óski eftir því að slíkur samningur verði gerður við sig í upphafi annar og að því gefnu að hann uppfylli sett skilyrði.

Vinnumálastofnun vísar til gagna málsins þar sem fram komi að kærandi hafi ekki sótt um slíkan námssamning vegna náms á haustönn 2010 og því uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Undantekning sú sem fram komi í 2. mgr. 52. gr. á einungis við ef um háskólanám er að ræða. Vinnumálastofnun vísar til þess að í málinu liggi fyrir að kærandi stundaði grunnnám rafiðna við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna þurfi nám að vera hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar svo kærandi geti þegið atvinnuleysisbætur samhliða því að stunda nám.

Vinnumálastofnun telur ljóst að 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sé undantekning frá meginreglu 52. gr. laga, sem beri því að túlka þröngt. Það er mat Vinnumálastofnunar að með hliðsjón af framangreindum atriðum sé stofnuninni ekki heimilt að gera afturvirkan námssamning vegna náms kæranda, eftir að umræddri námsönn er lokið. Vinnumálastofnun vísar til skýringa kæranda á námi hans við Fjölbrautaskóla Suðurlands sem bárust stofnuninni þann 29. desember 2010 en á þeim tímapunkti var umræddu námi á haustönn 2010 lokið.

Vinnumálastofnun telur að eftir standi að meta hvort mistök hafi verið gerð af hálfu Vinnumálastofnunar við meðferð stofnunarinnar á umsókn kæranda. Vinnumálastofnun bendir á að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi sent rafræna umsókn um greiðslur atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar þar sem hann tók fram að hann væri í námi við grunndeild rafiðna. Þann 11. ágúst 2010 barst Vinnumálastofnun vottorð um skólavist kæranda við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem staðfest var að kærandi hafi stundað nám við skólann á haustönn 2009 og vorönn 2010. Einnig kom þar fram að kærandi hætti námi við skólann þann 24. maí 2010 og að hann væri ekki skráður í nám við skólann á haustönn 2010. Á grundvelli þessa vottorðs gerði Vinnumálastofnun ráð fyrir að kærandi væri ekki skráður í nám á haustönn 2010 og var því hvorki óskað eftir frekari upplýsingum vegna námsins né var kæranda boðið að fylla út umsókn um námssamning.

Það er mat Vinnumálastofnunar að umsækjendur atvinnuleysistrygginga beri ábyrgð á því að framlögð gögn séu rétt úr garði gerð. Telur Vinnumálastofnun að í ljósi þess að framlagt skólavottorð staðfesti að skólagöngu kæranda væri lokið, telur stofnunin að hvorki hafi verið brotið gegn leiðbeiningarskyldu stjórnvalds né rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Það er mat Vinnumálastofnunar að stofnuninni hafi því ekki borið að leiðbeina kæranda um að óska eftir námssamningi við stofnunina.

Vinnumálastofnun telur að kærandi teljist því ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þann tíma er hann var skráður í nám.

Vinnumálastofnun vísar til 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að samkvæmt skýru orðalagi greinarinnar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Það er mat Vinnumálastofnunar að kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 20. ágúst til 19. október 2010, að fjárhæð 346.165 kr.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum meðan hann var skráður í nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. júlí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

 

Kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. desember 2010. Beiðni kæranda um endurupptöku málsins barst Vinnumálastofnun 29. desember 2010. Með framlagningu beiðninnar rofnaði hinn þriggja mánaða kærufrestur, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2011, var beiðni kæranda um endurupptöku synjað. Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 27. stjórnsýslulaga hélt kærufresturinn að líða að nýju frá og með þessum tíma, þ.e. kærufresturinn var þrír mánuðir frá og með 27. janúar 2011 að frádregnum tveimur vikum.

Kæran barst 27. apríl 2011 eða utan hins lögbundna kærufrests. Þegar svona háttar til skal vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 26. janúar 2011, sagði meðal annars: „Kærufrestur er þrír mánuðir frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðun þessa.“ Með þessu veitti Vinnumálastofnun kæranda þær leiðbeiningar að kærufresturinn væri þrír mánuðir frá og með 26. janúar 2011. Þar sem ætla má að þessi tilkynning hafi borist til kæranda 27. janúar 2011 og hann hafi sent kæruna fyrir 27. apríl 2011 þá telst kæran hans hafa borist innan kærufrestsins enda var það fyllilega afsakanlegt af hans hálfu að senda kæruna innan þess frests sem hann fékk leiðbeiningar um hjá Vinnumálastofnun.

Eins og rakið hefur verið sótti kærandi um atvinnuleysisbætur sumarið 2010. Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda skrifaði hann undir rafræna umsókn um atvinnuleysisbætur 9. ágúst 2010. Sama dag barst Vinnumálastofnun vottorð um skólavist og samkvæmt því stundaði kærandi nám á haustönn 2009 og vorönn 2010 við Fjölbrautaskóla Suðurlands en hætti námi 24. maí 2010. Kærandi hefur lagt fram gögn sem benda til þess að hann hafi upplýst Vinnumálastofnun frá öndverðu um að hann væri í 100% námi. Starfsmenn Vinnumálastofnunar virðast hins vegar hafa lagt til grundvallar að hann væri hættur námi við Fjölbrautaskóla Suðurlands og því hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 20. ágúst til 19. október 2010. Samkvæmt færslu í samskiptasögu Vinnumálastofnunar, dags. 7. desember 2010, var lagt til grundvallar að kærandi ætti að endurgreiða 301.013 kr. í ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi, þ.e. samtals 346.165 kr. Bætur til kæranda voru jafnframt stöðvaðar frá og með 20. október 2010, eins og rakið hefur verið.

Á tímabilinu 20. ágúst til 19. október 2010 var 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 37/2009 og 16. gr. laga nr. 134/2009, svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þessar reglur verður að túlka með hliðsjón af því hvernig nám er skilgreint í lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 37/2009, en í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar er nám: „Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Kærandi var í námi á haustönn 2010 í framhaldsskóla. Meginregla 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar átti því við um hann, sbr. c-lið 3. gr. sömu laga. Undantekningarreglur 2. mgr. og 3. mgr. 52. gr. eiga eingöngu við um þá sem stunda háskólanám. Beiting þeirra reglna kemur því ekki álita í máli þessu. Af þessu leiðir að kærandi átti ekki rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 20. ágúst til 19. október 2010 enda var hann á sama tíma í námi við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Kærandi heldur því fram að Vinnumálastofnun hafi ekki veitt honum fullnægjandi leiðbeiningar og hafi ekki rannsakað mál hans sem skyldi, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Fallast ber á að Vinnumálastofnun hafi átt að rannsaka mál kæranda nánar í ágúst 2010 áður en sú ákvörðun var tekin að veita honum atvinnuleysisbætur. Þetta byggist á því að upplýsingar um nám kæranda frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og í umsókn hans um atvinnuleysisbætur stönguðust á. Í ljósi þess að Vinnumálastofnun taldi að kærandi ætti rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í öndverðu þá var engin ástæða fyrir starfsmenn Vinnumálastofnunar til að veita honum nánari leiðbeiningar um réttarstöðu sína.

Með hliðsjón af framangreindu verða ekki taldar forsendur til þess að fella ákvörðun Vinnumálastofnunar úr gildi, um að stöðva atvinnuleysisbætur til kæranda frá og með 20. október 2010, fyrir þá sök eina að stofnunin greiddi kæranda atvinnuleysisbætur fyrir mistök. Eðli málsins samkvæmt getur stofnunin leiðrétt mistök af þessu tagi og stöðvað greiðslur atvinnuleysisbóta til atvinnuleitanda.

Þótt Vinnumálastofnun hafi gert mistök við afgreiðslu á umsókn kæranda í ágúst 2010 þá breytir það engu um það að kærandi þáði greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. ágúst til 19. október 2010 sem hann átti ekki rétt á að fá greiddar. Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. ákvæðisins segir meðal annars:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með þessari lagareglu er kveðið á um það með afdráttarlausum hætti að Vinnumálastofnun sé heimilt að endurheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, meðal annars þegar hinn tryggði hefur fengið greiddar bætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þessa ber að fallast á að kæranda beri að endurgreiða það sem hann fékk greitt í atvinnuleysisbætur á tímabilinu 20. ágúst til 19. október 2010, þ.e. samtals 301.013 kr. Með vísan til lokamálsliðar 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður hið 15% álag fellt úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun er staðfest að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, A, frá og með 20. október 2010. Kæranda ber að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals 301.013 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta