Mál nr. 97/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 97/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. júlí 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, ódagsettu en mótteknu 8. júlí 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 28. desember 2010. Með bréfi, dags. 1. júní 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hafi ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans, þar sem Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hann hafi starfað hjá X samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Meðal gagna málsins eru útprentanir af netsíðu merktri X og einnig ,,X – starfsmenn“ með mynd af kæranda. Enn fremur eru myndir af Facebook-,,auglýsingasíðu“ kæranda, útprentaðri 13. maí 2011, þar sem fram kemur að hann vinni hjá fasteignasölunni. Kærandi skilaði þann 6. júní 2011 skýringum til Vinnumálastofnunar þar sem fram kom að hann hefði verið í launalausri starfsþjálfun hjá X.
Í kærunni segir kærandi að hann hafi verið í launalausri starfsþjálfun hjá X. Honum hafi láðst að tilkynna um starfsþjálfunina en hann hafi aldrei fengið laun hjá fasteignasölunni. Hann lagði með kærunni fram ódagsett vottorð X, undirritað af B, þar sem það er staðfest að kærandi hafi ekki verið á launum hjá X. Loks kemur fram af hálfu kæranda að þar sem Vinnumálastofnun hafi tekið hann af bótum sé hann launalaus með fimm manna fjölskyldu til þess að sjá fyrir.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða aflaði upplýsinga hjá C, framkvæmdastjóra umræddrar fasteignasölu. Hann upplýsti að ekki væru greidd venjuleg laun hjá fyrirtækinu heldur fengju fasteignasalar prósentur af sölu íbúða. Hann staðfesti að kærandi hefði reynt fyrir sér í fasteignasölu hjá fyrirtækinu fyrir einu til einu og hálfu ári síðan, en honum hefði ekki orðið ágengt og hefði hann því ekki fengið neitt greitt.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. ágúst 2011, kemur fram að kæranda hafi þann 1. júní 2011 verið sent erindi þar sem honum hafi verið tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði verið í vinnu hjá fasteignasölunni X samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Þann 6. júní skilaði kærandi inn skýringum til Vinnumálastofnunar þess efnis að hann hefði verið í launalausri starfsþjálfun hjá X. Þann 4. júlí 2011 var kæranda sent bréf þar sem honum var tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur til hans vegna starfs hans hjá fasteignasölunni.
Vinnumálastofnun bendir á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Vinnumálastofnun vísar til laga nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.
Fram kemur að í 13. gr. laganna segi meðal annars að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar.
Vísað er í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að af gögnum málsins megi sjá að kærandi hafi verið í starfi hjá X fasteignasölu á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysistryggingar frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi ekki tilkynnt um þessar breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysistrygginga að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. ágúst 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 29. ágúst 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar, með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a.
Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.
Í máli þessu liggja fyrir Facebook-síður kæranda með fasteignaauglýsingum þar sem fram kemur að hann vinni hjá X og hann bendir fólki á að bóka skoðun fasteigna hjá honum í farsíma hans sem er sama símanúmer og gefið er upp í kæru hjá úrskurðarnefndinni. Fram kemur á síðunum að þær voru prentaðar út 13. maí 2011. Framkvæmdastjóri fasteignasölunnar X staðfest að kærandi hefði reynt fyrir sér hjá fyrirtækinu á þessum tíma.
Í máli þessu kemur til skoðunar að beita 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit væri hætt. Þegar 60. gr. laganna er beitt á þessum grundvelli þarf að skýra orðin að „starfa á vinnumarkaði“ með hliðsjón af a- og b-liðum 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt a-lið ákvæðisins er launamaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í b-lið ákvæðisins er sjálfstætt starfandi einstaklingur hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.
Af framansögðu er ljóst að kærandi var starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Hann upplýsti Vinnumálastofnun ekki um að atvinnuleit hans hafi verið hætt. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að með framangreindri háttsemi hafi kærandi brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. júlí 2011 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga til kæranda er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson