Mál nr. 77/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 77/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 13. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 29. nóvember 2010 fjallað um greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá, sem gerð hafi verið skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysisbóta til hans verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. september til 19. október 2010 að fjárhæð 214.201 kr. sem honum bæri að endurgreiða auk 15% álags eða samtals 246.334 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 12. mars 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 12. nóvember 2008.
Við samkeyrslu á gagnagrunnun Vinnumálastofnunar við nemendaskrár menntastofnana sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, kom í ljós að kærandi var skráður í 12 ECTS eininga nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina.
Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2010, var kæranda tilkynnt um framangreinda samkeyrslu gagnagrunna og honum bent á á að í þessu ljósi hafi greiðslum atvinnuleysistrygginga til hans verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kærandi sótti um endurupptöku ákvörðunar Vinnumálastofnunar þann 28. desember 2010. Þeirri beiðni var synjað á fundi stofnunarinnar þann 19. janúar 2011.
Kærandi kveðst hafa verið skráður í tvo áfanga (12 ECTS einingar) vegna mistaka á haustönn 2010. Hann hafi ekki getað skráð sig úr öðrum þeirra vegna þess að Háskóli Íslands hafi breytt reglunum um úrskráningu þannig að ekki hafi verið hægt að skrá sig úr áföngum eftir 1. október 2010. Kærandi kveðst hafa lokið hinum áfanganum (6 ECTS einingar) eins og til hafi staðið. Kærandi segist hafa talið að ekki þyrfti námssamning ef ætlunin væri að fara ekki yfir það hámark einingafjölda sem Vinnumálastofnun setji, þ.e. 10 ECTS einingar á önn.
Kærandi kveðst hafa lokið áfanga sem beri nafnið X. Áfangann hafi hann tekið tvisvar sinnum áður í mastersnámi sem hann hafi lokið. Eina ástæða fyrir því að hann hafi setið í þessum áfanga hafi verið sú að samkvæmt læknisráði hafi honum verið ráðlagt að hafa eitthvað fyrir stafni þar sem hann hafi verið kominn með þunglyndiseinkenni vegna langvarandi atvinnuleysis og félagslegrar/faglegrar einangrunar.
Kærandi bendir á að það sé alveg augljóst að hann hafi ekki verið að reyna að fara í kringum reglur Vinnumálastofnunar um nám. Hann sé með BS í Y, MBA í z og master í X og þurfi ekkert á frekari gráðum að halda en þurfi hins vegar nauðsynlega á atvinnuleysisbótum að halda til þess að geta framfleytt sér. Það sé slæmt að sitja auðum höndum og allar aðgerðir til þess að rjúfa þann vítahring hljóti að vera jákvæðar og gera viðkomandi hæfari til þess að fara aftur út á vinnumarkaðinn þegar að því komi.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. febrúar 2012, vísar stofnunin í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um skilgreiningu á hugtakinu „námi“. Vinnumálastofnun vísar einnig til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er mælt fyrir um nám.
Vinnumálastofnun bendir á að í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Það sé ljóst af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar árið 2006 sé í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins því haldið fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.
Vinnumálastofnun áréttar að í 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að atvinnuleitenda sé heimilt að stunda nám sem nemi að hámarki 10 ECTS einingum á námsönn, enda sé námið ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Í 3. mgr. 52. gr. laganna sé að finna undanþáguheimild frá þessari meginreglu, sem mælir fyrir um að Vinnumálastofnun sé heimilt að meta þegar sérstaklega standi á, hvort sá sem stundar nám á háskólastigi sem nemi allt að 20 ECTS einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna, enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Í 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur sé gerður sé að viðkomandi einstaklingur óski eftir því í upphafi annar og að því gefnu að hann uppfylli önnur skilyrði. Samkvæmt þeim gögnum sem Vinnumálastofnun hafi aflað vegna málsins hafi kærandi verið skráður í 12 ECTS einingar á haustönn 2010 án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Kærandi hafi ekki sótt um slíkan námssamning vegna á haustönn 2010 og uppfylli hann því ekki skilyrði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Undanþáguheimild sú sem fram komi í 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistrygginga beri að túlka þröngt og því ótækt að beita heimild til gerðar námssamnings afturvirkt.
Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum þann tíma er hann hafi verið skráður í nám, frá 1. september til 19. október 2010. Hafi hann því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga þann tíma.
Vinnumálastofnun vísar til 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laganna beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er kærandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2010, að fjárhæð 214.201 kr. að viðbættu 15% álagi eða samtals 246.334 kr.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. febrúar 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. febrúar 2012. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 20. febrúar 2012.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. og 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Í tilviki kæranda var honum tilkynnt með ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 13. desember 2010 að þar sem hann væri skráður í háskólanám samhliða því að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni án þess að fyrir lægi námssamningur hafi greiðslum atvinnuleysisbóta til hans verið hætt og að honum beri að endurgreiða þær bætur sem hann hafi fengið greiddar á tímabilinu 1. september til 19. október 2010 ásamt álagi.“
Strax og kærandi fékk ákvörðun Vinnumálastofnunar til sín, sendi hann staðfestingu frá Háskóla Íslands um að hann hafi einungis stundað 6 ECTS eininga nám á greindu tímabili og óskaði hann eftir endurupptöku máls hans með vísan til þess að rangar upplýsingar hafi legið fyrir hjá stofnuninni. Bréf kæranda um endurupptöku málsins er dagsett 27. desember 2010 og staðfesting háskólans á að hann hafi lokið 6 eininga námi á önninni er dagsett þann 6. janúar 2011. Í skýringum kæranda kemur fram að hann hafi skráð sig haustið 2010 í tvo áfanga sem voru samtals 12 einingar. Hann hafi reynt að skrá sig úr öðrum áfanganum en ekki getað vegna reglna Háskóla Íslands. Hann hafi einungis haldið áfram í öðrum áfanganum og lokið honum. Hann hafi því einungis stundað 6 eininga nám. Vottorð háskólans staðfestir þessar fullyrðingar kæranda. Fram kemur hjá kæranda að hann hafði áður lokið háskólanámi sínu en ákvað að sækja nám í greindum áfanga sér til endurmenntunar.
Kærandi hafði sjálfur lokið mastersnámi sínu löngu áður en hann hóf töku atvinnuleysisbóta og hafði verið starfandi sérfræðingur. Kærandi lýsir því að hann hafi verið atvinnulaus í u.þ.b. tvö ár og hafi sótt námskeið hjá Háskóla Íslands vegna endurmenntunar og heilsufars hans, að læknisráði.
Með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 mátti kærandi sinna 6 eininga námi án þess að gera sérstakan námssamning við Vinnumálastofnun, enda var það ekki hluti af samfelldu námi hans. Kærandi lagði fram öll þau gögn sem honum var mögulegt til staðfestingar á fullyrðingum hans. Það voru því engin rök til annars en að taka mál hans til endurskoðunar þegar hann óskaði þess í lok desember 2010 og þegar öll gögn lágu fyrir í byrjun árs 2011.
Í því sérstaka tilviki sem um ræðir í máli þessu er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að líta beri svo á að kærandi hafi einungis verið skráður í 6 ECTS nám á haustönn 2010 og að meðhöndla eigi mál hans sem slíkt. Með því verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að nám kæranda á tímabilinu 1. september til 19. október 2010 hafi verið innan þeirra marka sem heimilt er samkvæmt ákvæði 2. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 og því eru ekki rök til annars en að fallast á kröfur kæranda. Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. nóvember 2010 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er felld úr gildi.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson