Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 36/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 36/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. janúar 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hefði komið í ljós að hann væri skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysistrygginga til hans verið hætt, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 1. september 2014 til 30. nóvember 2014 að fjárhæð 525.773 kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 28. apríl 2015. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 7. október 2013 og var þá í námi. Kærandi gerði námssaming við Vinnumálastofnun sem gilti frá 1. nóvember 2013 til 12. desember 2013 og bætur kæranda voru skertar um 40% á því tímabili.

Með bréfi, dags. 12. desember 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að við samkeyrslu atvinnuleysisskrár við nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana og skóla á háskólastigi hafi komið í ljós að hann hafi verið skráður í nám á haustönn 2014 jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Þá er óskað skýringa á því hvers vegna kærandi hafi ekki upplýst stofnunina um nám hans. Þann 19. desember 2014 bárust skýringar frá kæranda þar sem fram kemur meðal annars að Vinnumálastofnun hafi verið kunnugt um nám hans og námið nýtist honum við atvinnuleit. Með bréfi, dags. 8. janúar 2015, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga og innheimta ofgreiddar bætur.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið við nám í B sem sé eingöngu kennt í fjarnámi og auglýst sem nám með vinnu. Í upphafi bótatímabils á fundi hjá Starfi.is hafi honum verið sagt að Vinnumálastofnun samkeyrði gögn um nám í viðurkenndum skólum og þeir sem væru í námi ættu að gera námssamning við stofnunina. Hann hafi því gert það í upphafi.

Vinnumálastofnun hafi haft upplýsingar um fjarnámið frá því að hann hafi skráð sig atvinnulausan og gert námssamning. Einnig hafi stofnunin undir höndum ferilskrá hans þar sem bent sé á fjarnámið og hún send á aðila sem auglýsi eftir starfsfólki. Það hafi leitt af sér atvinnuviðtöl.

Hann telji sig hafa farið eftir öllum reglum og tilmælum stofnunarinnar. Hann hafi mætt í öll starfsviðtöl, verið mjög virkur í atvinnuleit og sótt námskeið hjá Starfsleitarstofu. Hann telji að það komi ekki nógu skýrt fram hjá Vinnumálastofnun hversu oft eigi að gera námssamning. Það sé hvergi tekið fram.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. maí 2015, segir að ágreiningur málsins varði það hvort kæranda beri að endurgreiða þær atvinnuleysistryggingar sem hann hafi þegið á meðan hann hafi stundað 18 ECTS eininga nám á haustönn 2014 hjá B.

Þá vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 3. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt segir að samkvæmt framangreindum ákvæðum sé meginreglan sú að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga meðan þeir leggi stund á nám sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar, sbr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 52. gr. sé mælt fyrir um þá meginreglu að hver sá sem stundi nám sé ekki tryggður samkvæmt lögunum á meðan nám sé stundað. Mælt sé fyrir um undanþágur frá þessari meginreglu í 2. og 3. mgr. sömu greinar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar geri kærandi kröfu um að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki sækst eftir að gera námssamning vegna náms á haustönn 2014. Hann hafi þó áður gert námssamning á haustönn 2013. Kæranda hafi því verið fullkunnugt um að nauðsynleg skilyrði fyrir því að stunda nám samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur væri að Vinnumálastofnun hefði heimilað slíkt með undirritun námssamnings. Á grundvelli þess námssamnings sem kærandi hafi gert vegna 12 ECTS eininga náms á haustönn 2013 hafi bætur til kæranda verið skertar um 40%. Á haustönn 2014 var kærandi hins vegar í 18 ECTS eininga námi.

 Þar sem kærandi hafi verið skráður í 18 eininga háskólanám á því tímabili sem um ræði beri að horfa til 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar komi fram að Vinnumálastofnun sé heimilt, þegar sérstaklega standi á, að veita atvinnuleitanda undanþágu frá meginreglu fyrstu málsgreinar ákvæðisins. Þessi heimild sé bundin við þá sem stundi háskólanám sem sé umfangsmeira en 10 ECTS einingar en minna en 21 ECTS einingar á námsönn. Atvinnuleitanda beri að leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um námshlutfall sitt áður en undanþága sé veitt.

Vinnumálastofnun fallist ekki á að kærandi eigi tilkall til afturvirkrar heimildar til að stunda nám samhliða því að þiggja atvinnuleysistryggingar á haustönn 2014. Kærandi hafi ekki óskað eftir námssamningi vegna þeirrar námsannar sem um ræði. Mál hans hafi hafist í kjölfar eftirlitsaðgerða Vinnumálastofnunar. Það sé ótækt að halda því fram að Vinnumálastofnun hafi verið kunnugt um að hann hafi stundað 18 ECTS eininga nám og engu að síður greitt honum atvinnuleysisbætur án athugasemda og án þess að skerða bætur til hans á grundvelli undanþáguákvæðis 52. gr. laganna.

Það að atvinnuleitandi hafi fengið heimild til að stunda nám árið áður veiti ekki fullvissu fyrir því að hann sé skráður í nám á næstu námsönn. Þar að auki sé einingafjöldi misjafn milli anna og því kalli hver námsönn á tilkynningu og beiðni um undanþágu frá atvinnuleitanda. Það sé alveg ljóst að atvinnuleitandi þurfi að gera námssamning fyrir hverja önn sem hann stundi nám á meðan hann sé skráður atvinnulaus enda séu námssamningar undirritaðir með upphafs- og lokadagsetningu.

Þá séu þær breytingar sem atvinnuleitendur kunni að gera á ferilskrá sinni til að senda á atvinnurekendur hvorki fullnægjandi tilkynning um námsþátttöku né beiðni um námssamning hjá stofnuninni. Þó sé vakin athygli á því að mál þetta snúi ekki að því hvort kæranda beri að sæta biðtíma sökum þess að hann hafi látið hjá líða að veita upplýsingar heldur hvort honum beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi ekki verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli laganna.

Einnig bendi stofnunin á að kæranda hafi verið fullkunnugt um að svo umfangsmikið nám myndi leiða til skerðingar á atvinnuleysisbótum hans ef undanþáguheimild yrði veitt. Kærandi hafi áður gert námssamning og fengið greiddar skertar atvinnuleysisbætur á haustönn 2013 á meðan hann hafi verið skráður í 12 ECTS eininga nám. Bætur til hans hafi verið skertar um 40%. Honum hafi átt að vera það ljóst að 18 ECTS eininga nám myndi leiða til enn frekari skerðingar á atvinnuleysisbótum enda skerðing metin í samræmi við umfang náms.

 Þar sem kærandi hafi ekki óskað eftir undanþágu frá meginreglu 52. gr. laganna á haustönn 2014 sé það afstaða Vinnumálastofnunar að meginregla 1. mgr. 52. gr. laganna eigi við í máli hans. Kærandi teljist því ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2014. Í samræmi við 39. gr. laganna beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. maí 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Kærandi var með námssamning á haustönn 2013. Hann var þá í 12 ECTS eininga námi við B og greiðslur til hans voru skertar um 40% á því tímabili í samræmi við 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar þeirri önn var lokið fékk kæranda greiddar óskertar atvinnuleysisbætur. Haustið 2014 fer kærandi í nám á ný. Hann var skráður í 18 ECTS eininga nám við B en gerði ekki námssamning við Vinnumálastofnun vegna þess. Kærandi fékk því greiddar óskertar bætur á haustönn 2014.  

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skylt að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Þar sem kærandi var í 18 ETCS eininga námi í B á haustönn 2014 og fékk auk þess greiddar atvinnuleysisbætur bar honum að upplýsa Vinnumálastofnun um nám sitt samkvæmt 3. mgr. 9. gr og 3 mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi ber fyrir sig að Vinnumálastofnun hafi haft upplýsingar um fjarnám hans frá því að hann hafi skráð sig atvinnulausan og gert námssaming haustið 2013. Þá er bent á að Vinnumálastofnun hafi undir höndum ferilskrá hans þar sem bent sé á fjarnámið. Einnig segir kærandi að það komi hvergi fram hversu oft eigi að gera námssamning. Gildistími námssamnings kemur fram í samningnum sjálfum. Kærandi gerði slíkan samning vegna haustannar 2013 og honum mátti því vera ljóst að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysistryggingum á haustönn 2014 án þess að fyrir lægi nýr námssamningur. Auk þess voru bætur til kæranda skertar um 40% á haustönn 2013 þegar hann var í 12 ECTS eininga námi og kærandi mátti því vita að hann ætti ekki rétt á fullum bótum á haustönn 2014 þegar hann var skráður í 18 ECTS eininga nám. Þá telur úrskurðarnefndin að það sé ekki fullnægjandi tilkynning um námsþátttöku að veita upplýsingar um nám í ferilskrá. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á framangreindar málsástæður kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgera að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á haustönn 2014 þar sem hann var skráður í nám í B án námssamnings við Vinnumálastofnun.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu ber kæranda að endurgreiða atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu bóta að viðbættu 15% álagi. Kæranda ber því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. september 2014 til 30. nóvember 2014 ásamt 15% álagi, samtals að fjárhæð 525.773 kr.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. janúar 2015 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga og endurgreiðslu ofgreiddra bóta að fjárhæð 525.773 kr. með 15% álagi, er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta