Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 7/2018

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 7/2018

Fimmtudaginn 5. apríl 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 11. janúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. október 2017, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun með umsókn þann 18. nóvember 2014. Umsókn hans var samþykkt og var hann skráður atvinnulaus hjá stofnuninni þar til í mars 2015. Í janúar 2015 fékk kærandi tekjur fyrir tilfallandi vinnu og tilkynnti um þær greiðslur eftir á. Atvinnuleysisbætur kæranda voru því endurreiknaðar og honum tilkynnt um ofgreiðslu á „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun þann 27. febrúar 2015 og á greiðsluseðli stofnunarinnar 2. mars 2015. Hluta af skuld kæranda var skuldajafnað á móti greiðslu atvinnuleysisbóta í mars 2015 en þegar kærandi var skráður af atvinnuleysisskrá nam skuld hans 86.601 kr. Í október 2017 var skuld kæranda enn ógreidd og með ákvörðun, dags. 11. október 2017, var farið fram á að kærandi myndi endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. janúar 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 6. febrúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. febrúar 2018 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að í innheimtubréfi Vinnumálastofnunar komi fram að hann hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum en það sé ekki rétt. Allar upplýsingar hafi legið fyrir og engar athugasemdir komið frá stofnuninni. Kærandi tekur fram að hann hafi farið eftir ráðleggingum Vinnumálastofnunar um að vinna einn og einn dag ef hann hefði tækifæri til þess. Að mati kæranda sé greinilega ekki hægt að treysta á ráðleggingar stofnunarinnar.

Í athugasemdum við greinargerð Vinnumálastofnunar vísar kærandi til þess að starfsmenn Vinnumálastofnunar hefðu aldrei greint frá því að hann ætti að gera tekjuáætlun. Þá sé hvergi minnst á það í gögnum frá Vinnumálastofnun. Að vinna samhliða atvinnuleysinu hafi verið ráðleggingar starfsmanna Vinnumálastofnunar og allir launaseðlar sendir til stofnunarinnar frá atvinnurekanda. Engar athugasemdir hafi borist frá Vinnumálastofnun fyrr en löngu eftir að hann hafi verið hættur á skrá en það séu óásættanleg vinnubrögð. Kærandi bendir á einstaklingar fái ekki atvinnuleysisbætur nema uppfylla allar reglur Vinnumálastofnunar en hann hafi fengið launatekjur samhliða atvinnuleysisbótum með fullri vitneskju stofnunarinnar.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í desember 2014 hafi kærandi tilkynnt um tilfallandi vinnu í janúar 2015. Kærandi hafi aftur tilkynnt um tilfallandi vinnu 13., 14. og 24. janúar 2015 en á því tímabili hafi kærandi ekki gert neina tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun um áætlaðar tekjur vegna þeirrar vinnu. Þar sem ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun hafi stofnunin við útgreiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda ekki getað tekið tillit til þeirra tekna sem hann hafi þegið vegna tilfallandi vinnu sinnar, en í janúar 2015 hafi kærandi fengið tekjur að fjárhæð 449.128 kr. Hluta skuldar kæranda hafi verið skuldajafnað á móti síðari greiðslum atvinnuleysisbóta en í mars 2015 hafi hann fengið fasta vinnu og verið skráður af atvinnuleysisskrá.

Vinnumálastofnun tekur fram að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið launatekjur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Sökum þess að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun hafi greiðslur atvinnuleysistrygginga verið leiðréttar í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þar sem greiðslurnar hafi verið skertar afturvirkt hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar sem kæranda beri að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheimta þær sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysistryggingar en í dag nemi skuld hans við stofnunina 86.601 kr. Ekkert álag hafi verið lagt á skuldina. Hvað varðar athugasemd kæranda um að allar upplýsingar hafi legið fyrir á þeim tíma sem um ræði ítrekar Vinnumálastofnun að ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun um áætlaðar tekjur hans fyrir tilfallandi vinnu. Þá bendir Vinnumálastofnun á að launaseðlar launagreiðanda séu gefnir út fyrir undanfarandi mánuð og því hafi stofnuninni ekki verið kunnugt um tekjur kæranda fyrr en greiðslur atvinnuleysisbóta höfðu farið fram. Ekki verði fallist á að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum umfram heimildir laga nr. 54/2006, þar með talið 36. gr. laganna. Kæranda beri því að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hafi verið ofgreiddar.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. október 2017 um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 86.601 kr. á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.

Með greiðsluseðli Vinnumálastofnunar, dags. 2. mars 2015, var kæranda tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tekna á greiðslutímabilinu 1. janúar til 31. janúar 2015. Kæranda var bent á að hafa samband við greiðslustofu Vinnumálastofnunar hefði hann athugasemdir eða vildi frekari skýringar á greiðsluseðlinum. Þá var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, forvera úrskurðarnefndar velferðarmála, og um þriggja mánaða kærufrest. Sérstaklega var tekið fram að heimilt væri að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning á atvinnuleysisbótum og skuldamyndun. Ljóst er að sá frestur var liðinn þegar kærandi lagði inn kæru til úrskurðarnefndarinnar 11. janúar 2018 og verður sá þáttur kærunnar því ekki tekinn til efnislegrar meðferðar.

Í hinni kærðu ákvörðun er farið fram á að kærandi endurgreiði Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda er gefinn kostur á að semja um greiðslu skuldarinnar og tilkynnt að mál hans verði sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu hafi greiðsla ekki borist innan 90 daga. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að rétt hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda við Vinnumálastofnun. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. október 2017, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta