Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 111/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. mars 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 111/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. maí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 17. maí 2010 fjallað um rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hún verið erlendis frá 16. mars til 23. mars 2010. Vegna dvalar kæranda erlendis var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Að auki var þess krafist að kærandi myndi endurgreiða greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá daga sem hún var erlendis skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 5. júlí 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Af hálfu kæranda kemur fram að henni hafi láðst að láta vita af ferð sinni til Noregs í mars. Kærandi telur það hart að missa rétt til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði fyrir að hafa skroppið í vikuferð til sonar síns í B-landi. Kærandi segist alveg tilbúin að hlíta því að missa rétt til atvinnuleysisbóta þá viku sem hún var erlendis. Hún hafi hins vegar ekki vitað að hún þyrfti að láta vita af ferðum sínum en hún hefði að sjálfsögðu tilkynnt þetta ef hún hefði vitað af því. Kærandi greinir frá því að hún hafi aldrei verið látin vita af þessari tilkynningarskyldu um ferðir til útlanda. Hún viti til þess að þeir sem skrái sig atvinnulausa séu boðnir á kynningarfund þar sem þetta komi fram en hún hafi ekki verið boðuð á slíkan fund. Hún hafi haldið að þegar um væri að ræða minnkað starfshlutfall eins í hennar tilviki væri ekki boðið á slíkan kynningarfund. Því hafi henni aldrei verið sagt frá þessu.

Kærandi kveðst ekki vera atvinnuleitandi heldur hafi vinnutími hennar verið styttur um 20% að morgni og síðdegis. Kærandi bendir á að hún eigi einungis rétt á launatengdum bótum í eitt ár, þ.e. fram í nóvember 2010. Að þeim tíma loknum muni hún hætta á bótum þar sem þær komi til með að lækka töluvert og hún vilji halda rétti sínum til bóta óskertum ef á þurfi að halda seinna meir.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. desember 2010, kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 2. nóvember 2009 samhliða minnkuðu starfshlutfalli en kærandi starfaði þá í 73% starfshlutfalli hjá X ehf.

Vinnumálastofnun greinir frá því að hinn 20. mars 2010 hafi borist rafræn staðfesting á atvinnuleit kæranda frá B-landi. Í kjölfarið hafi stofnunin sent kæranda bréf 26. apríl 2010 þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á dvöl hennar erlendis. Skýringar kæranda á dvöl hennar erlendis ásamt farseðlum sem staðfestu brottfarar- og heimkomudag hafi borist. Mál kæranda hafi verið tekið upp á fundi 17. maí 2010 og kæranda send hin kærða ákvörðun í bréfi 18. maí 2010.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum og í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar segir að atvinnuleitandi beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Vinnumálastofnun vísar í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Stofnunin segir ljóst að kærandi hafi verið stödd erlendis, tímabilið 16. mars til 23. mars 2010. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um ferð sína líkt og henni bar að gera skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi kveðst ekki hafa vitað að þörf væri á að tilkynna ferðir úr landi og vegna þess bendir Vinnumálastofnun á að stofnunin hafi margsinnis vakið athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi. Hafi stofnunin meðal annars vakið athygli á framangreindum skilyrðum í formi almennra upplýsinga og frétta af heimasíðu sinni. Einu undanþágurnar frá skilyrðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna í VIII. kafla laganna. Hafi þeim sem huga að ferð erlendis verið bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofu stofnunarinnar fyrir brottfarardag. Vinnumálastofnun tekur fram að þrátt fyrir að sérstaklega sé vakin athygli á framangreindu á kynningarfundum telur stofnunin að öllum sem þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga ætti að vera ljóst að tilkynna beri atvik til stofnunarinnar sem koma í veg fyrir að þeir uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Þá vekur stofnunin athygli á því að í þeim tilvikum sem stofnuninni er tilkynnt um slíkar ferðir fyrirfram sé atvinnuleitanda gerð grein fyrir því, nema fyrir liggi E-303 vottorð frá stofnuninni, að hann fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hann dvelst erlendis. Það sé eindregin afstaða stofnunarinnar að eftirlitsaðgerðum hennar verði ekki jafnað við tilkynningu frá atvinnuleitanda og verði í ljósi 9. gr. og 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að gera greinarmun á þeim sem láta sjálfir vita um ferðir sínar og þeirra sem stofnuninni berast upplýsingar um með öðrum leiðum. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, en hún er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laganna er þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skylt að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Kærandi ber fyrir sig að hún hafi ekki vitað að þörf væri á að tilkynna ferðir úr landi.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í c-lið 1. mgr. þess ákvæðis kemur fram skilyrði um að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla laganna. Þá segir í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. h-lið 1. mgr. án ástæðulausrar tafar.

Kærandi heldur því fram að hún hafi ekki vitað af hinni ríku tilkynningarskyldu sinni þar sem hún hafi aldrei verið upplýst um hana. Ekki er fallist á þessi sjónarmið kæranda enda eru ítarlegar leiðbeiningar á heimasíðu Vinnumálastofnunar um réttindi og skyldur þess sem fær greiddar atvinnuleysisbætur. Sjálfsagt er að ætla að sá sem tekur við atvinnuleysisbótum kynni sér þær skyldur sem hann ber um leið og þau réttindi sem hann nýtur á meðan á greiðslu atvinnuleysisbóta stendur. Á vef Vinnumálastofnunar er hvergi gefið í skyn að önnur sjónarmið eigi við um þá sem þiggja atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, en þá sem þiggja atvinnuleysisbætur af öðrum ástæðum.

Óumdeilt er að kærandi dvaldi erlendis á tímabilinu 16.–23. mars 2010 án þess að láta Vinnumálastofnun vita af því fyrirfram. Á þessu tímabili var hún því ekki lengur í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hafði brotið þá skyldu sína sem atvinnuleitandi að upplýsa Vinnumálastofnun um breytta hagi sína.

Með setningu laga nr. 134/2009 var gerð breyting á ákvæði 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og var ákvæðið fært til þess er það nú er. Með þessari breytingu voru settar í lögin afar strangar viðurlagareglur í þeim tilvikum þegar sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur sinnir ekki tilkynningarskyldu sinni. Þessar reglur eru með öllu ófrávíkjanlegar og engin leið að horfa framhjá ákvæðinu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og framanröktum ákvæðum 3. mgr. 9. gr., c-liðar 1. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 16. mars til 23. mars 2010 og að fella skuli niður bótarétt hennar í tvo mánuði skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. maí 2010 í máli A um að endurkrefja hana um fjárhæð atvinnuleysisbóta fyrir fjóra virka daga og fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta