Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 39/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 15. október 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 39/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. febrúar 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 10. febrúar 2015 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysistrygginga. Beiðni kæranda um að rafræn staðfesting atvinnuleitar, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, yrði samþykkt og atvinnuleysisbætur greiddar afturvirkt hafi verið hafnað þar sem ekki hafi verið séð að um mistök Vinnumálastofnunar væri að ræða. Rökstuðningur fyrir ákvörðuninni var veittur með bréfi, dags. 23. febrúar 2015. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 16. apríl 2015. Kærandi krefst þess að réttur hennar til atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá og með 5. janúar 2015 til 23. janúar 2015 verði viðurkenndur. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum vegna framangreinds tímabils.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. október 2015. Þann 29. desember 2014 barst Vinnumálastofnun tölvupóstur frá kæranda þar sem hún tilkynnti stofnuninni að hún yrði erlendis frá 30. desember 2014 til 4. janúar 2015. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda samdægurs að hún þyrfti að koma með flugfarseðla sína til stofnunarinnar innan þriggja virkra daga frá heimkomu. Þar sem kærandi hafði ekki samband við stofnunina innan þriggja daga var hún afskráð af greiðsluskrá.

Kærandi kom á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar þann 23. janúar 2015 til að skila inn flugfarseðli sínum og jafnframt til að tilkynna að hún myndi hefja störf hjá B þann 26. janúar 2015. Kærandi var skráð inn á greiðsluskrá frá og með 23. janúar 2015. Með bréfi til Greiðslustofu óskaði kærandi eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá 5. janúar 2015 til 23. janúar 2015. Beiðni kæranda var tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 10. febrúar 2015 og kæranda tilkynnt um höfnun á beiðninni með bréfi, dags. 16. febrúar 2015.

 Í kæru segir að í máli þessu virðist ágreiningur standa um hvort kærandi hafi brotið gegn trúnaðar- og upplýsingaskyldu sinni gagnvart Vinnumálastofnun og hafi þannig fyrirgert rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Samkvæmt rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar virðist ákvörðunin ekki byggð á því að kærandi hafi gefið rangar upplýsingar heldur á því að hún hafi skilað gögnum til stuðnings tilkynningu of seint. Kærandi hafi tilkynnt um brottför sína líkt og skylda hennar geri ráð fyrir, sbr. 3. mgr. 9. gr., 14. gr. og 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vegna fljótfærni kæranda hafi hún lesið skilaboðin þannig að hún ætti að skila flugmiðum innan þriggja vikna. Það verði að telja það eðlilegan misskilning þar sem hún hafði þá þegar tilkynnt um brottför sína og heimkomu og gögnin einungis til stuðnings þeirri tilkynningu.

Í áminningu Vinnumálastofnunar, dags. 29. desember 2014, í kjölfar tilkynningar um ferð kæranda sé ekki sérstaklega tilgreint að séu flugmiðar ekki afhentir innan þriggja virkra daga frá heimkomu þá hætti hún að vera tryggð. Þá sé hvergi fjallað um þau viðurlög á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Því telji kærandi að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. júní 2013, í máli nr. 121/2012.

Þá hafi kæranda ekki verið tilkynnt um að hún hafi verið tekin út af atvinnuleysisskrá og henni hafi ekki verið það ljóst fyrr en hún hafi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 23. janúar 2015. Vinnumálastofnun hafi ekki gert tilraun til að ítreka beiðni um flugmiða áður en ákvörðun, um að svipta hana atvinnuleysisbótum, hafi verið tekin. Slíkt hefði verið hægðarleikur fyrir Vinnumálastofnun að gera með stöðluðum tölvupósti. Það sé skylda Vinnumálastofnunar að rannsaka mál áður en ákvörðun í því sé tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og í þessu máli telji kærandi að tilefni hafi verið fyrir Vinnumálastofnun til að kalla eftir gögnum vegna tilkynningar um brottför til útlanda. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi stofnunin brugðist rannsóknarskyldu sinni, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. desember 2013, í máli nr. 57/2013. Þá verði að telja að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, hafi ekki verið gætt. Eðlilegra hafi verið að tilkynna kæranda um að hún fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hún hafi ekki skilað flugmiðum í stað þess að svipta hana þeim umsvifalaust án tilkynningar.

Kærandi vilji ítreka að ekki sé hægt að draga í efa að hún hafi verið í virkri atvinnuleit á því tímabili sem deilt sé um. Hún hafi sent starfsumsókn á fyrsta degi eftir að hún hafi komið til landsins þann 5. janúar 2015 og það hafi síðan skilað henni starfi. Skilyrði um að kærandi hafi verið í virkri atvinnuleit hafi því verið uppfyllt. Þá sé rökstuðningur Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi ekki verið tryggð með vísan til 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar óljós. Enda fjalli það ákvæði ekki um rétt til atvinnuleysisbóta heldur heimild Vinnumálastofnunar til að kalla eftir persónuupplýsingum frá tryggðum einstaklingi. Kærandi hafi alltaf ætlað að skila flugmiðum og hefði gert það innan þriggja virkra daga hafi hún ekki mislesið skilaboðin.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. maí 2015, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að neita kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 5. janúar 2015 til 22. janúar 2015 þar sem kærandi hafi ekki mætt á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar innan þriggja virkra daga eftir dvöl hennar erlendis. Ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í athugasemdum í greinargerð sem hafi fylgt frumvarpi laga nr. 134/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að mikilvægt sé að festa framkvæmd stofnunarinnar enn frekar í sessi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og undirstrika þannig að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þessi lagabreyting hafi tekið gildi þann 1. janúar 2010.

Þann 29. desember 2014 hafi kæranda verið tjáð að hún þyrfti að mæta á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar með flugfarseðla innan þriggja virkra daga eftir heimkomu. Þar sem hún hafi ekki mætt fyrr en 23. janúar 2015 hafi það verið mat Vinnumálastofnunar, með hliðsjón af 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að hún teldist ekki tryggð á grundvelli laganna á tímabilinu frá 5. janúar 2015 til 22. janúar 2015. Enda hafi Vinnumálastofnun ekki getað vitað að hún væri stödd hérlendis það tímabil sem um ræði og því óvíst hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. maí 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust þann 11. júní 2015. Í athugasemdunum kemur meðal annars fram að málsatvik séu óumdeild. Ágreiningsefni málsins snúist því í meginatriðum um túlkun á 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og stjórnsýslu Vinnumálalstofnunar.

Þá segir að af úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða nr. 121/2012 sé ljóst að 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði ekki túlkuð sem heimild til að svipta þeim sem tryggðir séu bótarétti fyrirvaralaust. Kærandi efist ekki um heimild stofnunar samkvæmt þessu ákvæði til að afla gagna og krefja bótaþega um gögn. Aftur á móti feli þetta ákvæði ekki í sjálfu sér heimild til að svipta kæranda bótum. Hvergi í ákvörðun Vinnumálastofnunar sé vísað til viðeigandi ákvæðis í XI. kafla laganna, enda sé ágreiningslaust að kærandi hafi ekki brotið trúnaðarskyldu 59. gr. laganna og af framlögðum gögnum verði ekki efast um að skilyrði 14. gr. laganna hafi sannanlega verið uppfyllt.

Í kæru sé vísað til fjölda ákvæða í stjórnsýslulögum. Það kunni að skýrast af einfaldri staðreynd. Kæranda hafi ekki verið ljóst að hún hafi verið svipt atvinnuleysisbótum á tímabilinu 5. janúar til 22. janúar 2015 þar sem henni hafi ekki verið tilkynnt um þá ákvörðun fyrr en eftir að hún hafi mætt með umrædda flugmiða. Grundvallaratriðis um birtingu ákvörðunar hafi því ekki verið gætt, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Hefði kæranda verið tilkynnt um þá ákvörðun að svipta hana bótum sé ljóst að hún hefði getað takmarkað tjón sitt með því að bregðast við þeirri tilkynningu og skilað flugmiðum fyrr. Í niðurlagi greinargerðar komi fram það mat Vinnumálastofnunar að stofnunin hafi ekki getað vitað hvort hún væri á landinu eða ekki. Þeirri fullyrðingu er mótmælt þar sem mögulegt hafi verið að leita eftir þeim upplýsingum og jafnframt greina frá viðurlögum ef þær yrðu ekki veittar. Í kjölfar þess hefði verið rétt að taka stjórnvaldsákvörðun um að fella kæranda út af atvinnuleysisskrá og birta kæranda þá ákvörðun. Birting ákvörðunar hefði þá veitt kæranda andmælarétt.

Hafa verði í huga að í ábendingu Vinnumálastofnunar um skyldu til að skila flugmiðum komi hvergi fram að verði flugmiðum ekki skilað innan þriggja daga eftir heimkomu missi kærandi bótarétt sinn eða verði afskráður af atvinnuleysisskrá.

Athugasemdir kæranda voru sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi, dags. 11. júní 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins frá 5. janúar 2015 til 22. janúar 2015. Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, segir:

 Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 134/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hefur verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Talið var að þetta fyrirkomulag væri þýðingarmikið í því skyni að efla eftirlit með því að atvinnuleitendur væru að sinna skyldum sínum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Bótaþegar þurfa að uppfylla margvíslegar skyldur þegar þeir koma inn í atvinnuleysistryggingakerfið og þann tíma sem þeir þiggja bætur. Þessum skyldum er lýst í lögum um atvinnuleysistryggingar og bótaþegum er leiðbeint sérstaklega um þær í kynningarefni og á kynningarfundum. Má sem dæmi um skyldur nefna kröfuna um að vera staddur hér á landi og skylduna um að tilkynna um breytingar á högum.

Kærandi tilkynnti um ferð sína til útlanda líkt og henni bar þann 29. desember 2014. Sama dag tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að hún þyrfti að koma með flugfarseðlana sína til stofnunarinnar innan þriggja virkra daga frá heimkomu. Þar sem kærandi hvorki mætti né hafði samband við stofnunina innan þriggja virkra daga var hún afskráð af greiðsluskrá. Kærandi afhenti flugfarseðlana þann 23. janúar 2015 og Vinnumálastofnun samþykkti einungis að greiða kæranda atvinnuleysisbætur frá því tímamarki.

Í framangreindri tilkynningu Vinnumálastofnunar frá 29. desember 2014 er ekki minnst á hvaða afleiðingar það hafi ef farseðlum sé ekki skilað innan frests. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að kærandi hafi ekki mátt gera ráð fyrir því að vera skráð af greiðsluskrá ef flugfarseðlunum yrði skilað of seint. Vanræksla kæranda var ekki alvarleg í ljósi þess að hún hafði þegar tilkynnt um ferð sína til útlanda og farseðlarnir voru einungis staðfesting á þeim upplýsingum. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að afskrá kæranda af greiðsluskrá var hins vegar mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Þar sem kæranda var ekki leiðbeint um að töf á skilum gætu varðað missi bóta er það mat úrskurðarnefndar að leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið nægjanlega gætt.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Því er ekki mótmælt af hálfu Vinnumálastofnunar að kærandi var í virkri atvinnuleit eftir að hún kom heim frá útlöndum. Í kæru kemur fram að hún hafi sótt um starf þann 5. janúar 2015 og farið í atvinnuviðtal þann 16. janúar 2015 sem hafi leitt til þess að hún hafi verið ráðin í tímabundið starf frá 26. janúar 2015. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins frá 5. janúar 2015 til 22. janúar 2015.

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja A um greiðslu atvinnuleysisbóta frá 5. janúar 2015 til 22. janúar 2015 er felld úr gildi. Kærandi skal fá greiddar atvinnuleysisbætur vegna framangreinds tímabils.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta