Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 96/2012 - endurupptaka

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. október 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður vegna kröfu um endurupptöku í máli A, nr. 96/2012.

1. Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A, þann 14. maí 2013. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 26. janúar 2012, að þar sem Vinnumálastofnun hefði ekki borist upplýsingar um óupplýstar tekjur kæranda sem óskað hefði verið eftir þann 5. janúar 2012 hefði stofnunin stöðvað greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Í bréfinu hafi jafnframt komið fram að ef Vinnumálastofnun bærust umræddar upplýsingar yrði umsókn kæranda tekin fyrir á ný. Kærandi hafi sent inn umbeðin gögn 30. maí 2012. Vinnumálastofnun hafi litið svo á að kærandi hefði skilað inn nýrri umsókn með þessu og umsókn hennar hafi verið samþykkt frá og með þeim degi. Stofnunin hafi ekki talið sér fært að endurupptaka mál kæranda þar sem þriggja mánaða kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt 12. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar hafi verið liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. júní 2012. Í kæru bar kærandi því við að henni hefði ekki verið kunnugt um að umræddar upplýsingar hefðu ekki borist en hún hefði beðið lífeyrissjóð sinn um að koma upplýsingunum til skila.

Í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða komst nefndin að þeirri niðurstöðu að vísa bæri kærunni frá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefndin taldi að þar sem umsókn kæranda hefði verið samþykkt frá og með 30. maí 2012 hefði kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá ákvörðun fyrir nefndinni. Þá taldi úrskurðarnefndin, að því er varðaði synjun Vinnumálastofnunar á greiðslum til kæranda fyrir tímabilið frá 20. desember 2011 til 29. maí 2012, að ekkert í gögnum málsins gæfi til kynna að afsakanlegt hefði verið að kæran hefði borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, mótteknu 7. september 2015, óskaði kærandi eftir endurupptöku á máli sínu. Í beiðninni kemur meðal annars fram að allar hennar tekjur fari í gegnum Landsbankann rafrænt. Þá spyr hún hvers vegna aldrei hafi verið gerð athugasemd þessa fimm mánuði sem hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur.

2. Niðurstaða

Um heimild til endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í 1. mgr. 24. gr. laganna segir að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þá verður mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því aðila var tilkynnt um ákvörðun nema veigamiklar ástæður mæli með því samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Beiðni kæranda um endurupptöku barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. september 2015. Þá voru rúmlega tvö ár frá því að úrskurðarnefndin úrskurðaði í máli hennar þann 14. maí 2013. Í máli þessu hafa ekki komið fram upplýsingar þess efnis að ákvörðun úrskurðarnefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að íþyngjandi ákvörðun hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Auk þess verður ekki ráðið af gögnum málsins að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið upp að nýju.

Með vísan til þess sem að ofan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.

Úrskurðarorð

Kröfu A um endurupptöku úrskurðar í máli hennar fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 14. maí 2013 er hafnað.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta