MÁL NR. 599/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 599/2023
Fimmtudaginn 14. mars 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 15. desember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. nóvember 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. febrúar 2023 og var umsóknin samþykkt 2. mars 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Í kjölfar skýringa sem bárust frá kæranda daginn eftir var mál hans tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. desember 2023, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar væri staðfest. Þann 22. desember 2023 barst Vinnumálastofnun læknisvottorð þar sem fram kom að kærandi hefði byrjað á lyfjum þann 7. nóvember 2023. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi ákvörðunarinnar þann sama dag. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. janúar 2024, var kæranda tilkynnt að ákvörðunin hefði verið tekin til endurumfjöllunar og í ljósi þess að kærandi hefði ekki tilkynnt tafarlaust um veikindi sín væri bótaréttur hans felldur niður á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 í stað 58. gr.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2023. Með bréfi, dags. 9. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 25. janúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi alls ekki viljað kæra þetta mál en hann þurfi skoðun frá öðru sjónarhorni. Hann hafi verið boðaður í viðtal hjá Vinnumálastofnun með tölvupósti sem hafi farið framhjá honum. Hann hafi klúðrað því að láta vita að hann kæmist ekki þar sem hann hafi verið að hjálpa móður sinni launalaust með verkefni. Hann hafi séð tölvupóst Vinnumálastofnunar um tveimur til þremur dögum eftir viðtalið og hafi verið látinn sæta viðurlögum. Hann fái ekki annað tækifæri til að mæta í viðtal þrátt fyrir að hafa beðið um það. Kærandi sé búinn að senda skýringar en þær hafi ekki verið teknar gildar.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 22. febrúar 2023. Með erindi, dags. 2. mars 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 50%.
Þann 10. nóvember 2023 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur og sms og hann boðaður í viðtal á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar 13. nóvember 2023, klukkan 14:00. Kærandi hafi ekki mætt á fund stofnunarinnar og með erindi, dags. 15. nóvember 2023, hafi kærandi verið inntur eftir skýringum á fjarveru sinni og gefinn sjö daga frestur til að svara því. Kærandi hafi ekki skilað skýringum og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. nóvember 2023, hafi honum verið gert að sæta tveggja mánaða bið eftir atvinnuleysisbótum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysitryggingar.
Með bréfi, mótteknu 24. nóvember 2023, hafi kærandi skilað skýringum á fjarveru sinni og í kjölfarið hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar verið tekin til endurumfjöllunar. Með erindi, dags. 8. desember 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri hins vegar mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hans, dags. 23. nóvember 2023, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli hans. Lutu skýringar kæranda að því að hann hefði ekki tekið eftir umræddu fundarboði þar sem hann hefði verið að aðstoða móður sína.
Kærandi hafi sent frekari gögn, auk beiðni um rökstuðning 15. og 22. desember 2023. Meðal þeirra gagna hafi verið læknisvottorð, útgefið 21. desember 2023.
Með erindi, dags. 26. janúar 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri mat stofnunarinnar að fyrri ákvörðun í máli hans, dags. 23. nóvember 2023, hefði verið byggð á röngum grunni með tilliti til síðar tilkominna gagna og því hafi ákvörðun um biðtíma á grundvelli 58. gr. verið afturkölluð en kæranda gert að sæta biðtíma vegna ákvæðis í 59. gr. þar sem að tilkynning um forföll vegna veikinda hafi borist mun seinna en boðaður fundur hafi átt sér stað.
Kæra hafi borist úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. desember 2023. Af kæru og þeim gögnum sem henni hafi fylgt megi ráða að skýringar kæranda séu efnislega samhljóða þeim skýringum sem hann hafi veitt stofnuninni í upphafi en andstæð síðar tilkomnum skýringum um veikindi.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Í ljósi þess að kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um veikindi sín án ástæðulausrar tafar hafi honum verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé svohljóðandi:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a.“
Hið sama eigi við þegar hinn tryggði hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á högum hans á því tímabili sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skuli honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt 39. gr.
Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé rík áhersla lögð á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Þannig sé meðal annars í 3. mgr. 9. gr. laganna kveðið á um að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Upplýsingaskylda atvinnuleitanda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknarferlis um atvinnuleysisbætur. Við upphaf umsóknar séu atvinnuleitendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar á meðal um upplýsingaskyldu. Í lok umsóknarferlis staðfesti allir atvinnuleitendur að þeir hafi kynnt sér þau atriði.
Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum þeirra að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segi í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar.
Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi sín fyrr en nærri fimm vikum eftir að honum hafi borið að mæta á boðaðan fund og ekki fyrr en stofnunin hafði leitað eftir skýringum á því hvers vegna hann hafi ekki sinnt skyldu sinni til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði á vegum Vinnumálastofnunar og tekið ákvörðun um viðurlög vegna þessa. Slíkt uppfylli augljóslega ekki áskilnað 2. mgr. og 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að tilkynna beri veikindi án ástæðulausrar tafar. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda og að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Vinnumálastofnun hafi verið heimilt að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segir meðal annars í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Jafnframt skuli hann skila inn læknisvottorði innan viku frá lokum veikindanna óski Vinnumálastofnun eftir því.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ekki í boðað viðtal hjá Vinnumálastofnun sem fara átti fram 13. nóvember 2023 vegna þess að hann var að aðstoða móður sína. Þá liggur fyrir að kærandi skilaði inn læknisvottorði til Vinnumálastofnunar þann 22. desember 2023 sem staðfesti að hann hefði byrjað á lyfjum vegna kvíða og þunglyndis 7. nóvember 2023. Fyrir liggur að kærandi var beittur viðurlögum á þeirri forsendu að hann hefði ekki tilkynnt um veikindi sín fyrr en um fimm vikum eftir að honum bar að mæta í boðað viðtal og ekki fyrr en Vinnumálastofnun leitaði eftir skýringum á því hvers vegna hann hafði ekki mætt í viðtalið. Að mati Vinnumálastofnunar lét kærandi hjá líða að tilkynna stofnuninni um nauðsynlegar upplýsingar og því um að ræða brot á tilkynningarskyldu, sbr. 59. gr. laga nr. 54/2006.
Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að það að vera á lyfjum vegna kvíða og þunglyndis leiði sjálfkrafa til breytingar á vinnufærni eða að um sé að ræða upplýsingar sem ávallt ber að upplýsa Vinnumálastofnun sérstaklega um. Þá verður ekki fallist á að slíkar aðstæður falli undir tilfallandi veikindi í skilningi 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda bar því ekki að sæta viðurlögum með vísan til brots á tilkynningarskyldu, sbr. 1. mgr. 59. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði felld úr gildi.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006, er felld úr gildi.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir