Mál nr. 146/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. mars 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 146/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 29. júlí 2010 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 5. ágúst 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 13. júlí 2009. Honum bauðst í maí 2010 atvinnuviðtal hjá X ehf. og mætti í viðtalið. Samkvæmt gögnum málsins stóð til hjá X ehf. að ráða kæranda til starfa í kjölfarið en ítrekuðum hringingum til hans og einu smáskilaboði var ekki svarað. Höfnun kæranda var tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 12. júlí 2010. Þann sama dag var kæranda sent bréf þar sem greint var frá efni fundarins og var honum gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegri afstöðu sinni til málsins. Kærandi sendi skýringabréf þann 13. júlí 2010 þar sem fram kom að hann hafi ekki heyrt frá X ehf. eftir atvinnuviðtalið. Hann gerði einnig athugasemdir við þau laun sem í boði voru fyrir starfið.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, er vísað í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að í athugasemdum við 57. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.
Fram kemur að eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Komi fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu.
Vinnumálastofnun telur umsækjendur um atvinnuleysisbætur sjálfa bera ábyrgð á atvinnuleit sinni. Það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að bjóða atvinnuleitanda starf, að hann svari símhringingum og öðrum boðum er honum séu send. Eigi þau sjónarmið sérstaklega við þegar atvinnuleitandi megi eiga von á símtali frá atvinnurekanda vegna undanfarandi atvinnuviðtals. Kærandi hafi ekki svarað símtölum frá X ehf. en fyrir liggi að tólf tilraunir hafi verið gerðar til að ná sambandi við hann. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og stofnunin telji að margítrekaðar tilraunir atvinnurekanda til að bjóða kæranda starf hafi verið hunsaðar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Kærandi sendi bréf sem barst 5. janúar 2011.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að [tveimur mánuðum]1) liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Sá sem brýtur gegn 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum og er því um að ræða afar íþyngjandi ákvörðun. Stjórnvaldi ber því að gæta hófs við meðferð valds síns.
Í 57. gr. er gert ráð fyrir því að starf sem hafnað er hafi boðist með sannanlegum hætti.
Af hálfu fyrirtækisins X ehf. kemur fram að í kjölfar atvinnuviðtals hafi verið haft samband við kæranda í þeim tilgangi að bjóða honum starf. Ítrekaðar símhringingar til kæranda auk sendingar á einu smáskilaboði hafi hins vegar ekki borið árangur. Vinnumálastofnun telur það grundvallarskilyrði þess að unnt sé að bjóða atvinnuleitanda starf að hann svari símhringingum og öðrum boðum er honum séu send. Það var mat stofnunarinnar að með því að svara ekki símtölum hafi kærandi hunsað tilraunir atvinnurekanda til að bjóða honum starf.
Kærandi kveðst ekki hafa hafnað starfi hjá X ehf., enda hafi hann ekki heyrt frá forsvarsmönnum fyrirtækisins að atvinnuviðtali loknu. Hann segist hafa nefnt það sérstaklega í atvinnuviðtalinu að sími hans væri bilaður og að best væri að senda honum tölvupóst. Hann segist hvorki hafa orðið var við ósvöruð símtöl frá X né hafi þeir sent honum tölvupóst.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á að kæranda hafi verið boðið starf með sannanlegum hætti, eins og gert er ráð fyrir þegar beitt er viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. Hinni kærðu ákvörðun er því hrundið og á kærandi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur í tvo mánuði.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. júlí 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi. A á rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í tvo mánuði.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson