Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 81/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. janúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 81/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. september 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 2. september 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 23. júlí 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 31. júlí 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði hjá X ehf. í eina viku eða frá 15. júlí til 22. júlí 2009, en þá var honum sagt upp samkvæmt því sem fram kemur í vottorði vinnuveitanda, dags. 27. júlí 2009. Samkvæmt ódagsettu bréfi Vinnumálastofnunar, undirrituðu af B fulltrúa, kemur fram að hann hafi haft samband við X ehf. sem hafi sagt að meginástæðan fyrir uppsögn kæranda hafi verið ósætti milli kæranda og verkstjóra hjá fyrirtækinu. Enn fremur var gefið til kynna að kærandi væri frekar sérstakur persónuleiki og hafi því ekki átt mikið skap með öðrum á vinnustaðnum. Af hálfu kæranda kemur fram að ósætti hafi verið milli hans og yfirmanna hans hjá X ehf. og hafi það einkum snúið að launum og því að kærandi taldi sig hafa verið ráðinn sem gröfumann og bílstjóra og hafi það verið samkvæmt auglýsingu, en hann hafi síðan verið látinn starfa sem verkamaður. Kærandi kveður yfirmann X ehf. hafa sagt sér upp á vinnustaðnum og rekið hann af svæðinu og þegar kærandi hafi innt yfirmanninn eftir uppsagnarbréfi hafi hann sagt: „Þú mátt vera heppinn ef þú færð útborgað en uppsagnarbréf færð þú ekki.“ Kærandi kveðst hafa haft góð samskipti við aðra vinnufélaga sína þann tíma sem hann starfaði hjá X ehf. Hann telur að með ákvörðun Vinnumálastofnunar sé eingöngu farið eftir því sem vinnuveitandi hans segi og finnist honum brotið gróflega gegn sér sem fyrrverandi starfsmanni.

Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir á fundi sínum þann 6. ágúst 2009 og ákvað að óska eftir skriflegri afstöðu hans á ástæðum uppsagnarinnar. Svör kæranda liggja fyrir í gögnum málsins.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. desember 2009, er vísað til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og vitnað til þess að í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi um 54. greinina að erfitt geti reynst að telja upp endanlega þau tilvik sem gætu fallið undir greinina og sé því lagareglan matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Skuli stofnunin því líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Til umfjöllunar sé hvort uppsögn kæranda úr starfi geti talist stafa af ástæðum sem kærandi eigi sjálfur sök. Það sé óumdeilt að kæranda hafi verið sagt upp starfi sínu hjá vinnuveitanda sínum að því er virðist vegna ágreinings um launamál og fleiri þátta. Af skýringum kæranda og vinnuveitanda megi sjá að kærandi hafi átt í útistöðum við yfirmenn sína og að illa hafi gengið að starfa með honum. Hafi vinnuveitandi talið að umrædd atriði hafi verið nægt tilefni til brottvikningar úr starfi. Beri að líta til þess sjónarmiðs sem viðurkennt sé í vinnurétti að meðan starfsmaður sé á reynslutíma hafi vinnuveitandi ríkari heimildir til að segja starfsmanni upp.

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að skýringar kæranda á starfslokum lúti aðallega að því að hann hafi verið ósáttur við launakjör og fyrirkomulag á vinnustað. Þá megi greina almenna óánægju með fyrirtækið í skýringum kæranda. Ágreiningur milli launamanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma, aðstæður á vinnustað o.s.frv. teljist almennt ekki sem gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Til þess að svo sé þurfi launþegi að sýna fram á verulegar vanefndir á þessum þáttum af hálfu atvinnurekanda miðað við það sem um hafi verið samið. Svo virðist að í máli þessi hafi kærandi meðal annars ekki getað sætt sig við launalækkun milli starfa sem hafi numið 350 krónum á klukkustund. Vinnumálastofnun líti aftur á móti svo á að svo lítil launalækkun við þær aðstæður sem uppi voru og eru í samfélaginu geti ekki talist til gildra ástæðna fyrir uppsögn á starfi í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. desember 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 21. desember 2009. Kærandi sendi ódagsett bréf, móttekið 16. desember 2009. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sendi Vinnumálastofnun tölvupóst þann 7. janúar 2009 og óskaði eftir afriti af bréfi kæranda sem vitnað var til í greinargerð stofnunarinnar en ekki var meðal gagna málsins. Vinnumálastofnun sendi úrskurðarnefndinni frekari gögn í málinu með tölvupósti þann sama dag.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Kærandi starfaði hjá X ehf. í vikutíma frá 15. júlí til 22. júlí 2009. Í vottorði vinnuveitanda kemur fram að honum hafi verið sagt upp störfum en ástæða þess ekki tilgreind nánar. Samkvæmt upplýsingum starfsmanns hjá X ehf. var meginástæða uppsagnarinnar ósætti milli kæranda og verkstjóra. Þá gaf starfsmaðurinn einnig til kynna að kærandi væri frekar sérstakur persónuleiki og hafi því ekki átt mikið skap með öðrum á vinnustaðnum.

Af málflutningi kæranda má ráða að hann hafi verið ósáttur við yfirmenn sína vegna þeirra launa er honum voru boðin. Þá hafi hann ekki talið starfið í samræmi við starfslýsingu í auglýsingu og verkefnin önnur en hann hafi reiknað með. Kærandi segir tilraunir til að fá leiðréttingu á launum og verkefnum hafa leitt til uppsagnar hans. Kærandi telur sig ekki hafa átt sök á ósætti við yfirmenn sína og hann telur sig ekki vera ábyrgan fyrir starfslokum sína. Að sögn kæranda átti hann góð samskipti við aðra vinnufélaga sína en verkstjóra.

Í greinargerð með frumvarp því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er geti talist gildar ástæður í tilviki 54. gr. og lagt til að hvert tilvik verði metið sjálfstætt. Jafnframt er tekið fram að í ljósi þess að ákvörðun um biðtíma er íþyngjandi skuli gerðar ríkar kröfur um ástæður fyrir starfslokum.

Kæranda var sagt upp störfum sínum hjá X ehf. Ekki hefur verið leitt í ljós að hann hafi átt sök á uppsögninni í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 2. september 2009 að fella niður bótarétt A í 40 daga er felldur úr gildi. Kærandi á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá 23. júlí 2009.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta