Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 45/2009

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. janúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 45/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. mars 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 2. mars 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda var hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 3. gr. laganna. Kærandi kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi dags. 22. apríl 2009. Nokkru síðar greiddi kærandi hluta af áður ógreiddu tryggingagjaldi og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi. Málið var því tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun þann 20. ágúst 2009 og í kjölfarið var kærandi reiknaður með 25% bótarétt frá 18. mars 2009. Kærandi tjáði úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að hann vildi, þrátt fyrir þetta, halda kæru sinni til streitu og hann krefst þess að fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar.

Kærandi kveðst hafa rekið X í 30 ár. Hann segir starfsemina hafa dregist verulega saman eftir bankahrunið haustið 2008 og verkefnum fækkað. Ekki hefur verið staðið skil á mánaðarlegri staðgreiðslu af sjálfstæðum atvinnurekstri kæranda vegna tekjuáranna 2004–2009.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 2. júní 2009, kemur fram að IV. kafli laga um atvinnuleysistryggingar fjalli um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingar sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í b-lið 3. gr. laganna eins og þau voru á þeim tíma er umsókn kæranda barst séu sjálfstætt starfandi einstaklingar skilgreindir sem hver sá sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Vitnað er í 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um ávinnslutímabil sjálfstætt starfandi einstaklinga og tekið fram að það sé ljóst að þegar umsókn kæranda hafi verið tekin til skoðunar hafi ekki verið staðið skil á mánaðarlegri staðgreiðslu af sjálfstæðum atvinnurekstri vegna tekjuáranna 2004–2009 og reiknist því ekki bótahlutfall vegna sjálfstæðrar starfsemi á þessum tíma. Í nefndri greinargerð Vinnumálastofnunar er einnig tekið fram að þess beri þó að geta að nokkru eftir að stofnunin hafi hafnað umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi hann greitt hluta af áður ógreiddu tryggingargjaldi staðgreiðslu og reiknuðu endurgjaldi. Eigi hann því líklega rétt til atvinnuleysisbóta í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistrygginga.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. september 2009, kemur fram að Vinnumálastofnun hafi tekið mál kæranda fyrir að nýju þann 20. ágúst 2009, en hann hafi þá greitt hluta af áður ógreiddu tryggingagjaldi og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi. Í ljósi þessara nýju upplýsinga hafi bótaréttur kæranda verið reiknaður að nýju í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi kærandi verið reiknaður með 25% bótarétt og hafi fengið greitt frá og með 18. mars 2009.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. júní 2009, og var honum veittur frestur til 22. júní 2009 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Kærandi sendi bréf, dags. 10. júní 2009, ásamt frekari gögnum.

Eins og fram hefur komið tók Vinnumálastofnun mál kæranda fyrir að nýju þann 20. ágúst 2009 og reiknaði hann með 25% bótarétt, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 23. september 2009. Kærandi kaus þrátt fyrir það að halda málinu til streitu hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og var honum sent áðurnefnt bréf Vinnumálastofnunar og honum gefinn kostur, með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. nóvember 2009, á að koma athugasemdum á framfæri fyrir 25. nóvember 2009. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

 

2.

Niðurstaða

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Í 4. mgr. 19. gr. laganna segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili skv. 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar skuli taka mið af skrám skattyfirvalda, sbr. einnig h-lið 1. mgr. 18. gr.

Kærandi hafði ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi og hafði því ekki áunnið sér rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á ávinnslutímabili þegar hann sótti um bætur. Kærandi greiddi nokkru síðar hluta af tryggingagjaldi og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágu frá h-lið 1. mgr. þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi við stöðvun rekstrar en greiðir síðan þessi gjöld aftur í tímann. Við ákvörðun á tryggingarhlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings er þó að hámarki heimilt að miða við þrjá mánuði af þeim tíma er vanskilin áttu við um. Bótaréttur kæranda var í kjölfarið endurmetinn og talinn vera 25%, sbr. áðurnefndar reglur um útreikning á bótarétti sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Af framansögðu er ljóst að útreikningur Vinnumálastofnunar á bótarétti kæranda er í samræmi við 18. og 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. ágúst 2009 um 25% bótarétt til handa A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta