Mál nr. 93/2013
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 93/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, varð atvinnulaus 31. maí 2013. Hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 14. júní 2013 og fékk þær greiddar frá þeim tíma. Kærandi vildi ekki una því að fá ekki greiddar atvinnuleysisbætur frá því að hún varð atvinnulaus og krefst bóta frá þeim degi, þ.e. 31. maí 2013. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 16. ágúst 2012 og fékk þær greiddar í samræmi við rétt sinn. Hún fékk tímabundna vinnu hjá B frá 1. apríl til 31. maí 2013 og var því afskráð af atvinnuleysisskrá. Kærandi sótti um endurkomu á atvinnuleysisskrá með umsókn 14. júní 2013. Í vottorði B dags. 12. júní 2013, kemur fram að kærandi hafi verið í tímabundinni ráðningu hjá fyrirtækinu frá 1. apríl til 31. maí 2013.
Í kæru kveðst kærandi hafa beðið eftir vottorði vinnuveitanda sem hafi dregist að fá afhent. Um leið og það hafi borist henni hafi hún sótt um atvinnuleysisbætur að nýju. Kærandi kveðst ekki skilja ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem um endurnýjun á umsókn um atvinnuleysisbætur hafi verið að ræða en ekki nýja umsókn. Hún óskar þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 14. júní 2013.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. október 2013, kemur fram að það sé grundvallarskilyrði til að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta að viðkomandi sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar. Það sé ljóst af gögnum málsins að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 14. júní 2013 eftir að tímabundinni vinnu hennar hafi lokið. Samkvæmt framlögðu vinnuveitendavottorði kæranda hafi tímabundnu starfi kæranda lokið 31. maí 2013. Kærandi hafi hins vegar ekki sótt um endurkomu á atvinnuleysisskrá fyrr en 14. júní 2013. Vinnumálastofnun hafi ekki getað vitað að kærandi væri án atvinnu fyrr en á þeim tíma sem hún hafi sótt aftur um bætur hjá stofnuninni.
Bent er á 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar komi fram að atvinnuleitandi geti fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum frá þeim degi sem hann sækir um slíkar greiðslur hjá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi því í fyrsta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta frá 14. júní 2013 og verði ekki fallist á kröfu kæranda um greiðslu fyrir þann tíma.
Vinnumálastofnun bendir á í tilefni af ummælum kæranda að framlagning á vottorði vinnuveitanda sé ekki skilyrði fyrir því að atvinnuleitandi stofni umsókn um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Það sé hins vegar nauðsynlegt að slíkt vottorð berist svo unnt sé að meta bótarétt viðkomandi. Atvinnuleitendum sé því ekki meinað að sækja um atvinnuleysisbætur ef vottorð vinnuveitanda er ekki til staðar enda hafi umsækjandi rúman frest til að skila nauðsynlegum gögnum. Það sé afar algengt að einstaklingar sæki fyrst um atvinnuleysisbætur og færi síðar fram vottorð frá fyrri vinnuveitanda sínum.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, 30. október 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. nóvember 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:
Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttekur umsókn um atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt ofangreindum ákvæðum getur kærandi fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum frá og með þeim tíma sem umsókn um atvinnuleysisbætur berst frá henni enda er það í valdi atvinnuleitanda sjálfs að sækja um atvinnuleysisbætur. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 14. júní 2013 og á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá þeim tíma.
Hin kærða ákvörðun er staðfest.
Úrskurðarorð
Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða A atvinnuleysisbætur frá 14. júní 2013 er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson