Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 217/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 217/2016

Fimmtudaginn 8. desember 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. júní 2016, óskar A, eftir endurupptöku máls nr. 96/2012 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. maí 2013.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Upphaf máls kæranda má rekja til bréfs Vinnumálastofnunar, dags. 6. janúar 2012, þar sem óskað var eftir upplýsingum frá kæranda um óuppgefnar tekjur að fjárhæð 3.291 kr. frá Lífeyrissjóði verslunarmanna í október 2011. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2012, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar á þeirri forsendu að hún hafi ekki veitt stofnuninni umbeðnar upplýsingar um framangreindar tekjur. Í bréfi Vinnumálastofnunar kemur einnig fram að umsókn kæranda yrði tekin fyrir á ný ef umbeðnar upplýsingar myndu berast. Þann 30. maí 2012 skilaði kærandi umbeðnum gögnum til Vinnumálastofnunar sem í kjölfarið tók ákvörðun um að samþykkja atvinnuleysisbætur til kæranda frá og með þeim degi. Í ákvörðun stofnunarinnar frá 30. maí 2012 kemur fram að þegar gögn bærust eftir að kærufrestur væri liðinn væri litið á gögn eins og nýja umsókn og einstaklingur fengi greitt frá þeim degi sem gögnum væri skilað. Því væri ekki hægt að verða við beiðni kæranda um að fá greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 20. desember 2011 til 29. maí 2012. Kærandi bar þá ákvörðun undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem kvað upp úrskurð í málinu þann 14. maí 2013.

Úrskurðarnefndin taldi að þar sem umsókn kæranda hefði verið samþykkt frá og með 30. maí 2012 hefði kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá ákvörðun fyrir nefndinni. Þá taldi úrskurðarnefndin, að því er varðaði synjun Vinnumálastofnunar á greiðslum til kæranda fyrir tímabilið frá 20. desember 2011 til 29. maí 2012, að ekkert í gögnum málsins gæfi til kynna að afsakanlegt hefði verið að kæran hefði borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunni var því vísað frá nefndinni. Kærandi óskaði ítrekað eftir endurupptöku á úrskurði nefndarinnar en var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt.

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála eftir atvikum heimild til að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða um að vísa kæru kæranda frá hafi verið reist á röngum lagagrundvelli. Að því virtu telur úrskurðarnefndin að skilyrði til endurupptöku málsins séu uppfyllt, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið ásökuð um að gefa ekki upp laun þegar hún hafi verið atvinnulaus. Kærandi bendir á að skattskýrslan hennar sýni að laun hennar hafi ávallt verið gefin upp. Þá hafi hún stimplað sig inn allan þann tíma sem Vinnumálastofnun hafi ekki greitt henni atvinnuleysisbætur. Af kæru má ráða að kærandi fari fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 20. desember 2011 til 29. maí 2012. Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli kæranda nr. 96/2012 kemur fram að málið snúist um eina greiðslu frá lífeyrissjóði. Kærandi kveðst hafa beðið lífeyrissjóð sinn um að senda greiðsluupplýsingar til Vinnumálastofnunar en það hafi misfarist. Það sé því ekki rétt að hún hafi látið hjá líða að bregðast við beiðni stofnunarinnar frá 6. janúar 2012.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli kæranda nr. 96/2012 kemur fram að engar upplýsingar liggi fyrir um að kærandi hafi beðið lífeyrissjóðinn um að senda inn upplýsingar til stofnunarinnar á sínum tíma. Vinnumálastofnun vísar til 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, en af ákvæðinu megi leiða að það hvíli rík upplýsingaskylda á kæranda að upplýsa um allt það sem kunni að hafa áhrif á rétt hennar samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún þiggi atvinnuleysisbætur, þar með taldar greiðslur frá lífeyrissjóði. Í 1. mgr. 36. gr. laganna sé meðal annars kveðið á um að tekjur sem kærandi þiggi úr almennum lífeyrissjóði geti skert atvinnuleysisbætur ef þær ásamt öðrum tekjum séu hærri en óskertur réttur til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki. Af ákvæðinu leiði að ef stofnuninni berist ekki þær upplýsingar sem kveðið sé á um í ákvæðinu geti kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem henni beri að endurgreiða.

Vinnumálastofnun tekur fram að af samspili 3. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 leiði að ef kærandi sinni ekki skýru boði stofnunarinnar um að skila inn upplýsingum um tekjur þá geti það leitt til þess að stofnunin geti ekki ákvarðað rétta greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda og því sé umsókn hennar um atvinnuleysisbætur synjað þar til umbeðnar upplýsingar berist. Af þeim sökum hafi kæranda verið tilkynnt með bréfi, dags. 26. janúar 2012, að greiðslur til hennar væru stöðvaðar.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2006 um þriggja mánaða kærufrest til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Kærandi hafi ekki skilað inn umbeðnum upplýsingum fyrr en 30. maí 2012 eða rúmlega fjórum mánuðum eftir að henni hafi verið tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar. Af þriggja mánaða fresti 12. gr. laganna leiði að Vinnumálastofnun hafi túlkað þau tilfelli þar sem gögnum er skilað eftir þrjá mánuði eða lengri tíma sé stofnuninni ekki fært að endurupptaka mál. Því hafi stofnunin litið á slíkt sem nýtt mál og tekið nýja ákvörðun í máli aðila á grundvelli þeirra upplýsinga. Af þessum sökum líti Vinnumálastofnun svo á að þegar kærandi skilaði inn umbeðnum upplýsingum, 30. maí 2012, hafi hún skilað inn nýrri umsókn um atvinnuleysisbætur og þá hafi því ný ákvörðun verið tekin í máli hennar, en eldri ákvörðun frá 26. janúar 2012 ekki endurskoðuð. Því sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. desember 2011 til 29. maí 2012 þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. maí 2012 um að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 20. desember 2011 til 29. maí 2012.

Samkvæmt gögnum málsins þáði kærandi atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu október 2009 til desember 2011. Við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í janúar 2012 kom í ljós að kærandi hafði þegið 3.291 kr. frá Lífeyrissjóði verslunarmanna í október 2011 án þess að upplýsa Vinnumálastofnun um þá greiðslu. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2012, var því óskað eftir upplýsingum frá kæranda um framangreinda greiðslu og tekið fram að þær upplýsingar þyrftu að berast stofnuninni innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi beðið lífeyrissjóðinn um að senda greiðsluupplýsingar til Vinnumálastofnunar. Umbeðnar upplýsingar bárust ekki til Vinnumálastofnunar og því tók stofnunin ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og var sú ákvörðun tilkynnt með bréfi, dags. 26. janúar 2012. Í bréfi Vinnumálastofnunar er kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunarinnar. Ljóst er að kærandi nýtti sér ekki þá kæruheimild og kemur sú ákvörðun því ekki til endurskoðunar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Af samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar má ráða að kærandi hafi, þrátt fyrir ákvörðun stofnunarinnar að stöðva greiðslur, haldið áfram að staðfesta atvinnuleit sína í hverjum mánuði. Þann 30. maí 2012 skilaði kærandi yfirliti yfir greiðslur frá Lífeyrissjóði verslunarmanna og Vinnumálastofnun leit svo á að um nýja umsókn um atvinnuleysisbætur væri að ræða og samþykkti greiðslur til kæranda frá og með þeim degi. Í samskiptasögunni er kæranda greint frá því að ekki sé hægt að verða við beiðni hennar um að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 20. desember 2011 til 29. maí 2012 þar sem meira en þrír mánuðir væru liðnir frá því að hún hafi fengið ákvörðunarbréf. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því nauðsynlegt að kanna hvort framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar um meðferð máls kæranda, að um nýja umsókn væri að ræða, hafi verið reist á réttum lagagrundvelli.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

Í 3. mgr. 9. gr. segir að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fái fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan standi yfir. Þá kemur fram í 4. mgr. 9. gr. að meðal annars skattyfirvöld og hlutaðeigandi lífeyrissjóðir skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar séu við framkvæmd laganna.

Af framangreindum ákvæðum er ljóst að umsókn um atvinnuleysisbætur skal uppfylla ákveðin formskilyrði og með henni skulu fylgja ákveðin gögn. Að mati úrskurðarnefndarinnar var Vinnumálastofnun því ekki heimilt að líta á gögn þau sem kærandi lagði inn þann 30. maí 2012 sem nýja umsókn um atvinnuleysisbætur. Hin kærða ákvörðun var því ekki reist á réttum lagagrundvelli og er því felld úr gildi og málinu vísað til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. maí 2012, um að synja A, um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 20. desember 2011 til 29. maí 2012 er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta