Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 77/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. janúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 77/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni.

Kærandi, A, fékk útgefið E303 vottorð þann 6. janúar 2009 og fór í kjölfarið í atvinnuleit til Hollands. Hann sneri aftur til Íslands þann 27. mars 2009 en lét hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan lögmæltra tímamarka og er vottorð um endurkomu hans á sama bótatímabil stimplað móttekið 20. apríl 2009. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var því hafnað með vísan til 46. gr., sbr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi kveðst hafa fengið rangar upplýsingar hjá Vinnumálastofnun um E303 vottorðið sem hafi leitt til misskilnings af hans hálfu sem ekki sé honum að kenna og krefst hann þess að fá atvinnuleysisbætur frá 20. apríl 2009. Vinnumálastofnun telur kæranda hafa fengið allar nauðsynlegar upplýsingar hjá stofnuninni og telur rétt að greiðslur til hans falli niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar lauk.

Kærandi kveðst hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar þegar hann fékk E303 vottorðið. Þannig hafi hann fengið eitt A-4 blað sem hafi verið um það hvernig maður skuli hegða sér við komu til viðkomulandsins, en hann hafi átt að fá fjögur A-4 blöð þar sem einnig kæmi fram hvernig ætti að hegða sér við komuna til Íslands aftur. Kærandi segir að bæði hafi skort á að hann fengi fullnægjandi skriflegar upplýsingar hjá Vinnumálastofnun og enn fremur hafi starfsmenn Vinnumálastofnunar ekki sagt honum rétt til. Þetta sé látið bitna á honum og það finnist honum ekki réttlátt.

Vinnumálastofnun hafnar þeirri fullyrðingu kæranda að hann hafi fengið rangar upplýsingar þegar hann sótti um E303 vottorðið í desember 2008. Þær upplýsingar sem stofnunin veiti umsækjendum séu ítarlegar og til þess fallnar að koma í veg fyrir að málsaðilar glati rétti sínum vegna misskilnings, vankunnáttu eða mistaka. Upplýsingabæklingur fyrir þá sem hyggist fara til EES-ríkja í atvinnuleit sé afhentur umsækjendum. Sé einungis um að ræða eitt A-4 blað sem sé brotið í miðju. Þegar sjálft vottorðið sé gefið út til umsækjenda sé umræddur bæklingur aftur látinn fylgja með. Fyrir liggi í máli þessu að kærandi skrifaði undir og merkti við reit á umsókn sinni um E303 vottorð, þess efnis að hann hefði fengið þær upplýsingar sem giltu um vottorðið. Það sé jafnframt ljóst að umræddur bæklingur sé aldrei afhentur skjólstæðingum stofnunarinnar á þann hátt sem kærandi lýsi. Vinnumálastofnun telji að þessum sökum algerlega útilokað að kærandi hafi ekki fengið allar nauðsynlegar upplýsingar er hann sótti um E303 vottorðið og þýðingu þess að tilkynna ekki um áframhaldandi atvinnuleit innan þeirra tímamarka sem 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar setji. Vinnumálastofnun telur sig hafa gætt leiðbeiningarskyldu sinnar í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og veitt kæranda nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeiningar varðandi umsókn um E303 vottorð.

Vinnumálastofnun tekur fram að E303 vottorðið feli í sér staðfestingu stofnunarinnar á bótarétti atvinnuleitanda í íslenska atvinnuleysistryggingakerfinu og gefi umsækjendum kost á því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan þeir eru í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 1. og 4. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir liggi að kærandi tilkynnti um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi þann 20. apríl 2009 eða rúmri viku síðar en kveðið er á um í 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hann þáði atvinnuleysisbætur í Hollandi í 62 daga. Þar sem kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um áframhaldandi atvinnuleit á Íslandi innan sjö virkra daga frá því að gildistíma vottorðsins lauk féllu greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. lauk.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. október 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og frekari gögnum og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 19. október 2009. Kærandi nýtti sér það ekki.

 

2.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. samfellt í þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða. Óumdeilt er að kærandi fékk E303 vottorð útgefið þann 6. janúar 2009. Einnig er óumdeilt að kærandi hafi komið til landsins aftur frá Hollandi þann 27. mars 2009.

Kærandi sinnti ekki skyldu sinni að tilkynna Vinnumálastofnun innan sjö virkra daga frá komudegi til landsins eins og skylt er skv. 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekkert í gögnum málsins staðfestir fullyrðingar kæranda um að ástæða þess að hann sinnti þessari skyldu sinni hafi verið ófullnægjandi upplýsingar frá Vinnumálastofnun. Þvert á móti staðfesti kærandi að honum hafi verið leiðbeint um þær reglur sem giltu um E303 vottorðið. Vinnumálastofnun var rétt og skylt að fella niður bætur til kæranda samkvæmt ákvæði 2. mgr. 46.gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um atvinnuleysisbætur þar sem hann tilkynnti of seint um atvinnuleit sína á innlendum vinnumarkaði eftir að hafa nýtt sér E303 vottorðið erlendis er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta