Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 650/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 650/2020

Fimmtudaginn 8. apríl 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2020, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. júlí 2020 og var umsókn hans samþykkt 18. ágúst 2020. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. október 2020, var kæranda tilkynnt að óljóst væri hvort hann teldist vera í virkri atvinnuleit í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hvorki svaraði síma né tölvupósti. Óskað var eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna þessa. Svar barst frá kæranda með tölvupósti samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2020, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfarið sendi kærandi Vinnumálastofnun frekari skýringar. Vinnumálastofnun tók mál kæranda til umfjöllunar á ný og með bréfi, dags. 18. nóvember 2020, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. desember 2020. Með bréfi, dags. 14. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. febrúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. febrúar 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að samkvæmt Vinnumálastofnun hafi hann ekki svarað símtölum stofnunarinnar sem sé ekki rétt. Þegar kærandi hafi lagt inn umsókn um atvinnuleysisbætur hafi hann gefið upp erlent símanúmer, sem sé það eina sem hann hafi, en samkvæmt Vinnumálastofnun sé það ekki heimilt. Kæranda hafi ekki verið það kunnugt annars hefði hann fengið sér símanúmer sem væri fullnægjandi. Engar upplýsingar hafi verið á heimasíðu Vinnumálastofnunar um að eingöngu íslensk símanúmer væru samþykkt. Vegna þessara misvísandi upplýsinga hafi Vinnumálastofnun ekki getað eða ekki viljað hringja í kæranda og haldi því fram að kærandi hafi ekki svarað símtölum stofnunarinnar. Kærandi hafi verið á Íslandi allan þennan tíma sem Vinnumálastofnun hafi reynt að ná sambandi við hann og beðið eftir símtali. Til sönnunar á því hafi kærandi sent þeim bankayfirlitið sitt en Vinnumálastofnun hafi engu að síður staðfest ákvörðun sína um að fella niður bótarétt kæranda. Kærandi óski því eftir endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem hann hafi ekki sinnt boðuðu símaviðtali með ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt a-lið 13. gr. og g-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. Þá sé í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fjallað um það er umsækjandi lætur hjá líða að veita upplýsingar eða lætur hjá líða að tilkynna um breytingar á högum sínum. Samkvæmt framangreindu ákvæði beri kæranda skylda til að veita stofnuninni fullnægjandi upplýsingar, þar með talið að skráðar séu réttar upplýsingar um netfang og símanúmer umsækjanda, annars sé örðugleikum bundið að boða atvinnuleitanda á fundi, í viðtöl eða önnur úrræði á vegum stofnunarinnar.

Í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið eigi einnig við ef atvinnuleitandi mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma.

Það liggi fyrir að kærandi hafi ekki mætt í viðtal hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 23. september 2020 en honum hafi verið send boðun í viðtal með tölvupósti og í uppgefið símanúmer hans þann 22. september 2020. Í skýringum til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndarinnar komi fram að ekki hafi verið skráð rétt símanúmer hjá stofnuninni og að kærandi hafi ekki fengið umrædd smáskilaboð, símhringingu eða tölvupóst vegna boðunarinnar.

Vinnumálastofnun bendi á að í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þann 1. júlí 2020 hafi honum borið að skrá inn bæði netfang og símanúmer svo að stofnuninni væri unnt að senda honum nauðsynlegar upplýsingar vegna umsóknar hans, þar með talið boðanir á fundi og viðtöl á vegum stofnunarinnar. Kæranda hafi verið send boðun á fund hjá stofnuninni 22. september 2020 á skráð netfang kæranda. Þá hafi kærandi einnig getað nálgast umrædda boðun á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar.

Hvað varði athugasemdir kæranda um boðun á fund stofnunarinnar skuli í fyrsta lagi nefna að tilkynning hafi bæði verið send á netfang, birt á „Mínum síðum“ og send í síma kæranda. Í öðru lagi beri að nefna að kærandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun. Kæranda ætti því að vera ljóst að rétt skráning á netfangi og símanúmeri sé nauðsynleg til að stofnunin geti komið mikilvægum upplýsingum til skila.

Í samræmi við 6. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 hafi Vinnumálastofnun óskað eftir afstöðu atvinnuleitanda til samskiptamáta við stofnunina. Þegar atvinnuleitandi óski eftir rafrænum samskiptum við stofnunina hafi Vinnumálastofnun komið upplýsingum og boðum til þeirra atvinnuleitanda með tölvupósti, smáskilaboðum og tilkynningu á „Mínum síðum“. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað af umræddu símaviðtali, enda hafi stofnunin nýtt þær samskiptaleiðir sem kærandi hafði óskað eftir. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að með því að svara ekki símtölum frá stofnuninni hafi hann brugðist við skyldum sínum samkvæmt 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr.,  3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009 um breytingu á lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um viðurlög við að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í gögnum málsins liggur fyrir að ráðgjafi Vinnumálastofnunar hugðist taka símaviðtal við kæranda 23. september 2020 sem kæranda var tilkynnt um daginn áður. Símanúmer kæranda var ekki virkt. Nokkrum dögum síðar, eða 28. september, reyndi ráðgjafinn aftur að hafa samband við kæranda en símanúmerið var óvirkt. Kærandi var inntur eftir skýringum vegna þessa og tók kærandi fram að hann hafi ekki fengið neina tölvupósta eða símtöl frá Vinnumálastofnun. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður bótarétt kæranda með vísan til þess að hann hafi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum í skilningi 58. gr. laga nr. 54/2006.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 58. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum með sannanlegum hætti, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati nefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Í tilviki kæranda er í reynd um að ræða tvö símtöl til hans sem náðu ekki í gegn vegna þess að símanúmerið var óvirkt. Ekki liggur fyrir að Vinnumálastofnun hafi gert frekari tilraunir til að ná sambandi við kæranda, svo sem með því að senda honum tölvupóst eða skilaboð með beiðni um að hafa samband. Þá liggur ekki fyrir að kærandi hafi verið upplýstur um afleiðingar þess að svara ekki símtölum frá stofnuninni. Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að háttsemi kæranda jafngildi höfnun á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2020, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta