Mál nr. 470/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 470/2024
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 25. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2024, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á bið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 5. júní 2024. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hún ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2024. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. október 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst frá kæranda 15. október 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. október 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Greinargerð vegna kærunnar og umbeðin gögn bárust frá Vinnumálastofnun 13. nóvember 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, voru gögn Vinnumálastofnunar kynnt kæranda. Athugasemdir bárust frá kæranda 26. nóvember 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að mál hennar hafi byrjað í febrúar þegar Vinnumálastofnun hafi talið hana hafa hafnað atvinnutilboði og hún fengið viðurlög. Í bréfi frá Vinnumálastofnun hafi eftirfarandi komið fram:
„Að vinna af sér viðurlög. Það sem þú getur gert til að vinna af þér viðurlagatímann er að skrá þig af atvinnuleysisbótum og taka starfi í minnst hálfan mánuð eftir að ákvörðun er tekin. Vari starfið í skemmri tíma, segir þú starfi þínu lausu án gildra ástæðna eða missir það af ástæðum sem þú átt sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar þú sækir aftur um atvinnuleysisbætur, samkvæmt 3. mgr. 57.gr. laganna. Þó skal áréttað að til að eiga kost á að vinna af þér viðurlagatímann þarft þú að hafa tekið vinnu og afskráð þig af atvinnuleysisbótum.“
Sömuleiðis sé að finna eftirfarandi upplýsingar á heimasíðu Vinnumálastofnunar:
„Að vinna af sér biðtíma/viðurlög Hafir þú verið beitt/ur biðtíma eða viðurlögum í tvo mánuði kunna þau að falla niður að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum: Þú hafir tekið starfi í a.m.k. hálfan mánuð áður en þú sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Í því felst jafnframt að þú hafir afskráð þig af atvinnuleysisbótum. Þú hafir ekki sagt starfinu upp án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem þú sjálf/ur átt sök á. Séu eftirfarandi skilyrði ekki uppfyllt, t.d. ef starfið varir í skemmri tíma eða ef þú hefur sagt starfi þínu upp án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem þú átt sök á heldur viðurlagatíminn/biðtíminn áfram að líða þegar þú sækir aftur um atvinnuleysisbætur.“
Kærandi hafi afskráð sig af atvinnuleysisbótum þann 26. febrúar 2024 þar sem hún hafi verið ráðin til vinnu. Kærandi hafi bent vinnuveitanda á að líklega gæti hann sótt um ráðningarstyrk vegna þess að hún hefði verið án vinnu í svolítinn tíma. Um hafi verið að ræða tímabundna ráðningu til 3. júlí 2024 og kærandi hafi sent inn umsókn um atvinnuleysisbætur á ný 5. júní 2024. Þann 20. júní 2024 hafi kærandi fengið skilaboð um að umsókn hennar hefði verið samþykkt en hún hafi ekki kafað dýpra í það þá. Það sé ekki fyrr en hún fái engar bætur greiddar mánaðarmótin júlí-ágúst 2024 að hún hafi samband við Vinnumálastofnun og þá fengið þau svör að hún væri enn á viðurlögum. Þegar kærandi hafi óskað eftir leiðréttingu á þessu þar sem hún væri búin að vinna af sér viðurlögin, miðað við allar upplýsingar sem Vinnumálastofnun hafi sent henni og það sem standi á heimasíðu stofnunarinnar, hafi þau svör fengist að hún væri enn á viðurlögum því hún hafi verið á ráðningarstyrk. Kæranda hafi ekki órað fyrir því að ráðningarstyrkur hefði áhrif á hennar aðstæður og hún hefði aldrei nefnt styrkinn í atvinnuviðtali hefðu slíkar upplýsingar verið til staðar. Einnig hafi kærandi talið að hún væri búin að vinna af sér viðurlögin og því hafi hana ekki grunað að hún þyrfti að skoða stöðuna nánar í júní þegar umsókn hennar hafi verið samþykkt. Eina lagaákvæðið sem Vinnumálastofnun hafi nefnt við kæranda sé 57. gr. en þar sé hvergi nefnt að ráðningarstyrkur geri fólki ókleift að vinna af sér viðurlög. Þegar kærandi hafi óskað frekari útskýringa hafi hún fengið eftirfarandi sent:
„Það sem ekki kemur fram í klausunni á heimasíðunni en er í reglugerðinni er eftirfarandi meðal annars: „Sá tími sem atvinnuleitandi starfar á ráðningarstyrk telst ekki til ávinnslutímabils atvinnuleysisbóta skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar“. Og jafnframt að „Sá tími sem starfsþjálfun viðkomandi atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.“ Þetta þýðir að ef aðili fer í vinnumarkaðsúrræði, líkt og vinna með ráðningarstyrk, þá er hann ekki að vinna af sér viðurlög. Í raun má segja að þegar aðili fer í slíkt úrræði/vinnu þá fer umsókn hans og staða á atvinnuleysisskrá í frost meðan á því stendur. Það skýrir hvers vegna viðurlögin eru enn til staðar hjá þér, þau biðu á meðan þú varst í vinnumarkaðsúrræðinu.“
Þessi upplýsingagjöf og þessar leiðbeiningar Vinnumálastofnunar séu gjörsamlega ófullnægjandi og svo virðist sem Vinnumálastofnun sé að leyfa fólki að ganga í þessa gildru með viðeigandi fjárhagslegum og andlegum erfiðleikum sem því fylgi. Það geti ekki verið að Vinnumálastofnun ætlist til að allir lesi öll lög og allar reglugerðir sem við komi þeirra starfsemi. Í leit á heimasíðu Vinnumálastofnunar komi ekkert upp fyrir atvinnuleitanda um þessar reglugerðir. Um nauðsynlegar upplýsingar sé að ræða og einnig þurfi að skýra þetta fyrir einstaklingum sem gætu lent í sömu stöðu og kærandi því í þessari reglugerð sé ekki verið að nota sömu orð og Vinnumálastofnun noti, þ.e.a.s. „ráðningarstyrkur“ eða „viðurlög“ og fyrir fyrir almennan borgara geti verið erfitt að skilja reglugerðina. Sérstaklega sé þetta óréttlátt þar sem að mati kæranda ættu viðurlögin aldrei að hafa átt að standa og hún sjái eftir því að hafa ekki kært þá ákvörðun sömuleiðis. Kærandi spyrji hvort hægt sé að taka það mál einnig upp að nýju. Þá taki kærandi fram að síðustu samskipti hennar við Vinnumálastofnun hafi verið 12. september 2024 þar sem stofnunin hafi metið stöðu málsins óbreytta, þrátt fyrir beiðni hennar um að málið yrði skoðað að nýju. Eina í stöðunni væri að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í skýringum kæranda vegna kærufrestsins kemur fram að henni hafi ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en 1. ágúst 2024 þegar hún hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð. Þá hafi hún komist að því að samkvæmt Vinnumálastofnun væri hún enn á viðurlögum og ekki búin að vinna þau af sér eins og hún hafi talið vera samkvæmt öllum þeim gögnum sem henni hafi verið send frá Vinnumálastofnun sem og því sem sé aðgengilegt á heimasíðu stofnunarinnar. Þann 13. ágúst 2024 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun bréf þess efnis að yfirfara þetta einu sinni enn áður en kæmi að kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hún hafi loks fengið niðurstöðu úr því 12. september 2024, að það eina í stöðunni væri að fara í gegnum nefndina.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2024, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2024, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 25. september 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Í skýringum kæranda vegna kærufrestsins kemur fram að henni hafi ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en 1. ágúst 2024 þegar hún hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð.
Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur lagt fram vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir