Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 1/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. mars 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 1/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 25. nóvember 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 19. nóvember 2008 hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur, dags. 15. október 2008, á grundvelli c- liðar 3. gr. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, þar sem hann er í námi við Háskólann X. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 2. janúar 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í kæru kæranda kemur fram að honum var sagt upp störfum hjá Z hf. í lok mars 2008 vegna samdráttar í sölu íbúðarhúsnæðis, en hann starfaði sem sölustjóri hjá fyrirtækinu. Á meðan hann var að leita sér að annarri vinnu hóf hann störf hjá leikskólanum R þar sem dóttir hans er í vistun. Þetta var hugsað af hans hálfu til þess að hann hefði eitthvað fyrir stafni á meðan hann leitaði sér að framtíðarvinnu. Hann hafi ekki ætlað að vera leiðbeinandi á leikskóla til frambúðar enda menntaður til annars, en hann er landfræðingur og hefur lokið prófi til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.

Kærandi sagði upp störfum í leikskólanum síðastliðið haust þar sem hann taldi það ekki þjóna hagsmunum sínum að starfa þar. Aðalástæðan hafi verið sú að hann átti ákaflega erfitt með að einbeita sér að því að finna aftur vinnu við hæfi á meðan hann starfaði þar, til dæmis mátti hann ekki tala í síma í vinnunni o.fl.

Kærandi ákvað að skrá sig í MBA-nám en það nám hafi verið auglýst og skipulagt sem nám með vinnu enda sé kennslan miðuð við að fólk sé í vinnu. Þannig sé kennt tvisvar í viku frá kl. 16.15 til 20.00 og auk þess stöku sinnum á laugardögum.

Í vottorði frá Háskólanum X, dags. 16. október 2008, er staðfest að kærandi er skráður nemandi í MBA-nám við Háskólann X. Fram kemur að námið sé tveggja ára nám með starfi 90 ECTS einingar, 75% af fullu námi. Námið hófst í ágúst 2008 og því lýkur vorið 2010. Fram kemur að kærandi muni klára 42 ECTS einingar á skólaárinu 2008–2009, 21 ECTS einingu á misseri. Í vottorði sama aðila, dags. 15. janúar 2009, er staðfest að kærandi sé skráður nemandi í umrætt MBA-nám og sé við nám á öðru misseri.

Kærandi mótmælir hinni kærðu niðurstöðu með eftirfarandi rökum:

  1. Ekki sé um að ræða fullt nám, en í bréfi verkefnisstjóra MBA-námsins við Háskólann X standi að námið sé tveggja ára nám með starfi 90 ECTS einingar og 75% af fullu námi.
  2. Kærandi telji að nám sem hann stundar að loknum venjubundnum vinnudegi sé Vinnumálastofnun algjörlega óviðkomandi eins og annað sem hann geri í frítíma sínum.
  3. Það geti ekki talist eðlilegt að þeir sem séu að sækja sér menntun í eigin frítíma séu settir í þá stöðu að missi þeir vinnuna þá skuli þeir fjármagna sinn atvinnumissi með námslánum. Svar Vinnumálastofnunar til kæranda sé jafnframt skilaboð til allra MBA-nema við Háskólann X og Háskólann Y að ef þeir missi vinnuna þá þurfi þeir að fara á námslán. Það geti ekki staðist lög.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 18. febrúar 2009, er vísað til þess að meðal gagna málsins sé vottorð frá Háskólanum X en þar komi fram að nám það sem kærandi stundi sé lýst á eftirfarandi hátt: „tveggja ára nám með starfi 90 ECTS einingar, 75% af fullu námi“. Í ljósi þessarar skýringar verði að álykta sem svo að námið falli undir c-lið 3. gr. laganna sem 75% nám á háskólastigi og þar af leiðandi falli umsókn kæranda undir 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við skoðun á 52. gr. laganna verði að meta hvort ákvæði greinarinnar geti átti við. Í 2. mgr. sé sú skylda lögð á Vinnumálastofnun að meta sérstaklega hvort umsækjandi geti talist tryggður stundi hann nám með starfi og missi síðar starfið, ljóst sé að það eigi ekki við kæranda. Þar sem kærandi stundi 75% nám samkvæmt vottorði skóla sé ljóst að 3. mgr. 52. gr. eigi ekki heldur við. Verði þá að álykta sem svo að meginregla 52. gr. sem komi fram í 1. mgr. eigi við tilvik kæranda. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að kærandi geti ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta jafnhliða námi.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í c-lið 3. gr. laganna er nám skilgreint með eftirfarandi hætti:

Nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúnings­menntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Kærandi er í tveggja ára MBA námi í Háskólann X. Í vottorði Háskólans X, dags. 16. október 2008, kemur fram að nám það sem kærandi stundar sé 75% af fullu námi. Nám kæranda fellur því undir 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum við 52. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og að miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Með vísan til afdráttarlauss ákvæðis 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og breytir engu í því efni þótt námið sé skilgreint sem nám með starfi eða hvenær dagsins námið fer fram. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 19. nóvember 2008 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta