Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 155/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 155/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans því samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefði verið ljóst að hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að eiga rétt til þeirra. Kærandi hafi verið við störf hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, að fjárhæð samtals 443.839 kr. sem verði innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar með kæru, móttekinni 20. desember 2013. Kærandi óskar eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar annars vegar um að hann endurgreiði atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 5. júní til 31. ágúst 2013 og hins vegar um það að svipta hann rétti til atvinnuleysisbóta til framtíðar verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 17. júlí 2012.

Frá aðilum vinnumarkaðarins bárust Vinnumálastofnun þær upplýsingar að kærandi hefði verið við störf hjá B 5. júní 2013. Vinnumálastofnun óskaði skýringa á þessu og bárust þær 22. ágúst 2013. Skýringar kæranda voru þær að móðir hans væri eigandi B og eini starfsmaður þess en hún hafi verið mikið veik undanfarna mánuði. Síðastliðið sumar hafi komið upp þrjú neyðartilfelli þar sem hún hafi ekki getað afgreitt í versluninni vegna veikinda sinna. Kærandi hafi þá hlaupið í skarðið fyrir hana án þess að fá greitt fyrir það. Kærandi hafi ekki talið sig þurfa að tilkynna um þessi tilvik til Vinnumálastofnunar þar sem ekki hafi verið um að ræða vinnu enda hafi hann ekki fengið greidd laun. Vinnumálastofnun barst síðar tilkynning frá aðilum vinnumarkaðarins um að kærandi hafi einnig verið við störf hjá A 23. júlí 2013.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 25. september 2013 og var hann veittur með bréfi, dags. 8. október.

Í kæru kemur fram að með ákvörðun Vinnumálastofnunar sé því haldið fram að kærandi hafi verið við vinnu í versluninni B, á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Móðir kæranda sé eigandi B og eini starfsmaður félagsins en hún hafi verið mikið veik undanfarna mánuði. Þær aðstæður hafi komið upp í sumar að hún hafi ekki getað vegna veikinda sinna afgreitt í versluninni. Kærandi bendir á að verslunin standi afar illa fjárhagslega og hafi B því ekki getað greitt laun árum saman. Eins og gefi að skilja sé ekki möguleiki að slíkt fyrirtæki sem verslun loki og því hafi verið um neyðartilvik að ræða þessa þrjá daga sem kærandi hafi afgreitt fyrir móður sína í versluninni. Kærandi hafi ekki fengið greiðslur fyrir þessa aðstoð og ekki hafi verið greitt fyrir hann til opinberra aðila, því hafi hann ekki talið sér skylt að tilkynna um þetta til Vinnumálastofnunar. Þá feli tilkynningarskyldan það í sér að tilkynna eigi um breytta hagi. Engin slík atvik hafi komið upp enda hafi hin meinta vinna ekki verið breyting á högum atvinnuleitanda.

Það að leysa móðir sína af í neyðartilviki án launa geti aldrei talist vinna og geti aldrei talist breyting á högum kæranda. Kærandi áréttar að þessi aðstoð hafi ekki haft það í för með sér að hann hafi hætt í atvinnuleit. Þar af leiðandi geti 3. mgr. 10. gr. og 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki átt við í máli þessu. Rétt sé að geta þess að í svokölluðum rökstuðningi Vinnumálastofnunar sé að finna eftirfarandi fullyrðingu: „Skyldan til að tilkynna um tilfallandi vinnu tekur ekki aðeins til greiddrar vinnu, heldur einnig til ógreiddrar vinnu.“ Þessi fullyrðing eigi sér enga stoð í lögum.

Þar sem telja verði að sýnt hafi verið fram á að kærandi hafi ekki verið við vinnu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þessa þrjá daga sem um ræði verði ekki annað séð en að Vinnumálastofnun hafi brotið á honum. Þá geti ákvörðunin ekki hafa verið byggð á meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna enda beiti Vinnumálastofnun ýtrustu úrræðum þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á sérstakar aðstæður og neyðartilvik. Sýnt hafi verið fram á að ekki sé um viljaverk að ræða sem staðfest hafi verið af móður kæranda, með bréfi dags. 20. ágúst 2013, og því eigi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki við. Því geti ofgreiddar atvinnuleysisbætur aldrei verið hærri en sem nemi þeim þremur dögum sem um ræði auk þess sem það sé með öllu óeðlilegt að hafna bótarétti kæranda til framtíðar.

 Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. febrúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 10. eða 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. eða 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggi að kærandi hafi verið við störf fyrir fyrirtækið B, 5. júní 2013 þegar aðilar vinnumarkaðarins hittu hann fyrir á vinnustað. Tilskilið vinnustaðaskírteini hafi ekki verið gefið út til handa kæranda. Þegar aðila vinnumarkaðarins hafi aftur borið að garði 23. júlí 2013 hafi kærandi einnig verið við störf og þá borið á sér vinnustaðaskírteini. Starfsheiti hafi verið skráð sem eigandi fyrirtækisins. Af hálfu kæranda komi fram í skýringabréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 20. ágúst 2013, og í kæru að hann hafi leyst móður sína af í þremur neyðartilvikum og ekki fengið greidd laun fyrir. Móðir hans sé eigandi B og eini starfsmaður félagsins en hún hafi verið mikið veik undanfarna mánuði. Samkvæmt hlutafélagaskrá Creditinfo sé kærandi skráður varamaður í stjórn fyrirtækisins og sé hann einn stofnenda þess.

Að mati Vinnumálastofnunar sinnti kærandi verkefnum sem fólu í sér þátttöku á vinnumarkaði þar sem hann gat vænst þess að eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum fyrir. Þessi staða kæranda hafi verið í ósamræmi við g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda hafi borið í samræmi við 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynna stofnuninni um störf sín fyrir B. Þá geti kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum enda liggi fyrir víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar komi skýrt fram að atvinnuleitanda beri að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi vinnu. Atvinnuleitendum beri að tilkynna stofnuninni um alla þá vinnu sem þeir taki að sér óháð því hvort laun séu greidd fyrir eða ekki.

Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um breytingar á högum sínum til Vinnumálastofnunar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Þá beri kæranda að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þær varði tímabilið 5. júní til 31. ágúst 2013, samtals að fjárhæð 443.838 kr. með 15% álagi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. mars 2014. Frekari athugasemdir bárust með bréfi frá kæranda, dags. 3. mars 2014. Þar segi meðal annars að þær fullyrðingar Vinnumálastofnunar að ólaunuð aðstoð kæranda við móður sína í neyðartilviki teljist vera vinna séu með öllu órökstuddar. Niðurstaða Vinnumálastofnunar geti aldrei verið eðlileg niðurstaða enda ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun fullyrði að atvinnuleitendum beri að tilkynna stofnuninni um alla þá vinnu sem þeir taki að sér óháð því hvort laun sér greidd fyrir eða ekki skv. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi segir að ekki sé orð um þetta í nefndri lagagrein sem sé eðlilegt enda geti ólaunuð aðstoð aldrei talist vinna, hvorki í almennum skilningi né skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi ítrekar að engar breytingar hafi orðið á högum hans á því tímabili sem um ræði og því hafi tilkynningarskylda laga um atvinnuleysistryggingar ekki orðið virk. Kærandi bendir á að B hafi ekki getað greitt laun til margra ára en eini tilgangur með rekstrinum í dag sé að reka verslunina þannig að hægt sé að greiða af leigusamningi og skuldum, þannig að lánardrottnar og ríkið fái sínar kröfur greiddar. Í ljósi stöðu kæranda sem eiganda og stjórnarmanns í félaginu megi færa fyrir því sterk rök að honum hafi borið skylda til þess að bregðast við þeim neyðartilvikum sem nefnd hafi verið enda sé það lagaleg og siðferðileg skylda stjórnarmanna og eigenda fyrirtækja að sjá til þess að þau greiði skuldir sínar og vörsluskatta. Verslun sem standi lokuð sé ekki líkleg til þess að tryggja slíkar efndir.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Á þennan síðari málslið ákvæðisins reynir í máli þessu.

Í máli þessu hittu aðilar vinnumarkaðarins kæranda fyrir á vinnustaðnum B þar sem hann var við afgreiðslu annars vegar 5. júní og hins vegar 23. júlí 2013. Kærandi kveðst hafa verið að leysa móður sína af vegna alvarlegra veikinda hennar og hafi hann ekki fengið greidd laun fyrir það. Slíkt geti hvorki talist vinna í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar eða breyting á högum kæranda. Þá hafi aðstoð kæranda við móður sína ekki haft það í för með sér að hann hætti atvinnuleit.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ber að líta svo á að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann var við afgreiðslustörf hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og skiptir þá ekki máli að hann þáði engin laun fyrir. Kærandi lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þessi störf sín hjá Skvag ehf. skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar og var við störf þegar eftirlitsaðilar vinnumarkaðarins hittu hann fyrir á vinnustað 5. júní og 23. júlí 2013. Þessi háttsemi kæranda brýtur í bága við 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit. Kæranda bar enn fremur að upplýsa Vinnumálastofnun um þessar breytingar á högum sínum skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hann gerði það ekki.

Með vísan til alls framanritaðs ber að staðfesta þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 443.838 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. september 2013 í máli A þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kæranda ber að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 443.839 kr. með 15% álagi.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta