Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 223/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 223/2022

Fimmtudaginn 25. ágúst 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. mars 2022, um að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur frá og með umsóknardegi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 15. febrúar 2022. Með ákvörðun, dags. 4. mars 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt. Kæranda var jafnframt tilkynnt að beiðni hennar um að umsóknin tæki gildi frá 1. febrúar 2022 væri hafnað með vísan til 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þann 21. mars 2022 bárust skýringar frá kæranda og var mál hennar því tekið fyrir á ný. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. mars 2022, var kæranda tilkynnt að beiðni hennar um að umsóknin tæki gildi frá 1. febrúar væri hafnað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. apríl 2022. Með bréfi, dags. 28. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 16. júní 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún geri kröfu um að Vinnumálastofnun samþykki að greiða henni atvinnuleysisbætur frá 1. febrúar 2022 til 15. febrúar 2022. Hún hafi sent inn umsókn um bætur 15. febrúar 2022 eftir að hafa hætt starfi tímabundið vegna eineltis á vinnustað. Kærandi hafi ekki þekkt reglurnar og hafi hringt í Vinnumálastofnun stuttu áður og óskað eftir aðstoð og upplýsingum um hvernig fara skyldi að við umsóknina. Hún hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar að senda skyldi inn umsókn þegar öll gögn væru tilbúin hjá kæranda til þess að senda inn. Hún hafi upphaflega ætlað að senda inn umsókn þann 1. febrúar 2022 en hafi þurft að bíða í tvær vikur eftir gagni frá B þar sem hún hafi fyrst fengið sent vitlaust skjal. Hún hafi beðið eftir umræddu gagni þangað til 15. febrúar 2022 og þá sent umsóknina um leið.

Kærandi telji að samkvæmt góðum og gegnum stjórnsýsluháttum og upplýsingaskyldu stjórnvalda hafi Vinnumálastofnun ekki sinnt ákveðnum grunnreglum sem hafi valdið því að hún hafi ekki vitað betur en að umsóknin yrði að bíða þar til öll gögn væru í hendi. Eftir á hafi kærandi fengið að vita að hún hefði átt að senda umsókn um leið og réttur væri til sem hafi verið þann 1. febrúar 2022. Kærandi hefði gert slíkt ef upplýsingaskyldu stjórnvaldsins hefði verið sinnt.

Kærandi telji því að farið hafi verið gegn 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leiti nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi málefni sem snerti starfssvið þess og því hafi sú mikilvæga regla og mannréttindi verið brotin. Kærandi telji einnig að rannsóknarregla stjórnsýslulaganna hafi verið brotin þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki séð til þess að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en tekin hafi verið ákvörðun í því, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Kærandi hafi reynt að útskýra mál sitt fyrir stjórnvaldinu á þann hátt að henni hafi ekki verið leiðbeint rétt við umsóknarferlið og því hafi hún misst af hálfum mánuði í bótagreiðslu. Ekki hafi verið byggt á þeim upplýsingum við úrskurðinn með nægjanlegum hætti. Þá gæti verið að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaganna hafi verið brotin þar sem íþyngjandi ákvörðun hafi verið tekin, án þess að reynt hafi verið að ná því með vægara móti. Það sé augljóst að kærandi hafi hlotið rangar upplýsingar og leiðbeiningar sem stjórnvaldið viðurkenni ekki.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga þann 15. febrúar 2022. Með umsókn kæranda hafi fylgt erindi þar sem kærandi hafi greint frá ástæðu uppsagnar hjá fyrrverandi vinnuveitanda. Þar hafi einnig komið fram að kærandi hefði getað sótt um atvinnuleysisbætur þann 1. febrúar 2022 en hún hafi haldið að henni bæri að afla allra gagna fyrst og sækja svo um hjá stofnuninni. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi þurft að bíða lengi eftir vottorði frá vinnuveitanda sem svo hafi verið rangt skráð þegar hún hafi fengið það í hendur.

Umsókn kæranda hafi verið samþykkt 4. mars 2022 en með vísan til starfsloka hennar hjá fyrrverandi vinnuveitanda hafi réttur hennar til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í tvo mánuði. Beiðni kæranda um að umsókn tæki gildi frá 1. febrúar 2022 hafi verið hafnað. Frekari skýringar á starfslokum hafi borist frá kæranda ásamt yfirlýsingu frá stéttarfélagi hennar. Í kjölfarið hafi mál hennar verið tekið fyrir að nýju og með erindi, dags. 11. mars 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að ákvörðun um biðtíma hefði verið felld niður og að henni bæri ekki að sæta viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 21. mars hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og óskað eftir því að umsókn hennar myndi taka gildi frá 1. eða 7. febrúar 2022. Kærandi hafi vísað til þess að hún hafi þurft að bíða í þrjár vikur eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda. Hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur um leið og hún hafi fengið vottorðið afhent og óskað strax eftir greiðslum frá 1. febrúar í umsókninni. Þá segi kærandi að hún hafi talað við fulltrúa Vinnumálastofnunar í lok janúar og að þar hafi henni verið tjáð að sækja um atvinnuleysisbætur þegar öll gögn væru tilbúin. Hún hafi á grundvelli þeirra upplýsinga beðið til 15. febrúar að sækja um atvinnuleysisbætur. Í erindi kæranda komi fram að hún telji að Vinnumálastofnun hafi brugðist leiðbeiningarskyldu í máli sínu.

Mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju og með bréfi, dags. 24. mars 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að beiðni hennar um að umsókn hennar tæki gildi frá og með 1. febrúar 2022 væri hafnað. Kærandi hafi ítrekað beiðni sína í tölvupósti þann 13. apríl 2022. Erindi hennar hafi verið túlkað sem beiðni um rökstuðning og því verið svarað þann 26. apríl 2022. Beiðni hennar hafi verið hafnað þar sem 14 daga frestur til að óska eftir rökstuðningi hafi verið liðinn.

Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi kröfu um að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. febrúar 2022 til 15. febrúar 2022. Í kærunni komi meðal annars fram að kærandi hafi ekki þekkt reglur nægjanlega vel og hringt í Vinnumálastofnun til að óska eftir aðstoð og upplýsingum um hvernig ætti að sækja um atvinnuleysisbætur. Kærandi segi að hún hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar að senda skyldi inn umsókn þegar öll gögn væru tilbúin. Kærandi hafi upphaflega ætlað að senda inn umsókn þann 1. febrúar en hafi þurft að bíða í tvær vikur eftir gögnum frá vinnuveitanda. Með vísan til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, telji kærandi að Vinnumálastofnun hafi veitt ófullnægjandi upplýsingar. Þá telji kærandi að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við afgreiðslu á máli sínu sem og meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá segi í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum. Biðtími eftir greiðslum atvinnuleysisbóta skv. X. kafla telst hluti tímabilsins. Hið sama á við þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr.“

Í athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 komi fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur. Eðli máls samkvæmt sé það grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt með umsókn til stofnunarinnar. Stofnunin telji sér ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur lengra aftur en frá dagsetningu umsóknar atvinnuleitanda um atvinnuleysisbætur. Sú framkvæmd hafi ítrekað verið staðfest með úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ljóst sé að Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn kæranda þann 15. febrúar 2022. Kærandi segi að hún hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar að senda skyldi inn umsókn þegar öll gögn væru tilbúin. Kærandi hafi upphaflega ætlað að senda inn umsókn þann 1. febrúar en hafi þurft að bíða eftir gögnum frá vinnuveitanda. Hún hafi því ekki sótt um fyrr en hún hafi fengið gögn í hendur frá fyrrverandi vinnuveitanda.

Vinnumálastofnun sé ekki kunnugt um að kærandi hafi verið í sambandi við stofnunina í lok janúar 2022. Engar færslur sem varði símtal á milli kæranda og fulltrúa stofnunarinnar séu skráðar í samskiptasögu hennar. Ekki sé útilokað að kærandi hafi verið í sambandi við Vinnumálastofnun til að óska eftir almennum upplýsingum, án þess að gefa upp kennitölu sína og því hafi ekki verið skráð færsla um samskipti í kerfi stofnunarinnar. Vinnumálastofnun hafni því þó að kæranda hafi verið veittar þær upplýsingar að hún ætti fyrst að sækja um atvinnuleysisbætur þegar öll gögn væru tilbúin. Starfsfólki Vinnumálastofnunar sé ljóst að atvinnuleysisbætur séu í fyrsta lagi greiddar frá umsóknardegi og að stofnunin þurfi í mörgum tilfellum að óska eftir gögnum frá atvinnuleitendum eftir að umsókn berist. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar séu veittar ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig skuli standa að umsókn um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitandi geti sótt um atvinnuleysisbætur allt að mánuði áður en viðkomandi verði atvinnulaus, að fullu eða hluta. Atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar afturvirkt og því sé mikilvægt að atvinnuleitandi sæki um atvinnuleysisbætur í síðasta lagi þann dag sem hann verði atvinnulaus, til dæmis þegar uppsagnarfresti ljúki. Þá segi að eftir að umsókn um atvinnuleysisbætur hafi verið send þurfi að skila nauðsynlegum gögnum til Vinnumálastofnunar. Leiðbeiningar sem starfsfólk Vinnumálastofnunar veiti skjólstæðingum sem leiti til stofnunarinnar séu í samræmi við þessar upplýsingar. Umsækjendum um atvinnuleysisbætur sé ekki gert að afla allra nauðsynlegra gagna áður en þeir sæki um hjá stofnuninni, enda sé skýrt í lögum frá hvaða degi bætur séu greiddar, auk þess sem ekki sé ljóst í öllum tilfellum hvaða gagna þurfi að afla í máli atvinnuleitanda.

Vinnumálastofnun bendi einnig á að kærandi hafi áður sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta. Framangreindar upplýsingar komi fram á umsókn um atvinnuleysisbætur og eigi að vera öllum umsækjendum kunnugar. Það sé afstaða stofnunarinnar að kærandi eigi rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta frá umsóknardegi en ekki fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laganna séu fortakslaus að þessu leyti, sbr. fyrri úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í sambærilegum málum. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi eigi fyrst rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga frá 15. febrúar 2022 og að hafna beri kröfu kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta frá 1. til 15. febrúar 2022.


 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að samþykkja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá og með umsóknardegi þann 15. febrúar 2022. Kærandi hefur farið fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. febrúar 2022.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun tók við umsókn kæranda 15. febrúar 2022 og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hefur gert athugasemdir við vinnubrögð og málsmeðferð Vinnumálastofnunar, svo sem að leiðbeiningarregla 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin, einnig rannsóknarregla 10. gr. og meðalhófsregla 12. gr. sömu laga. Að mati úrskurðarnefndarinnar gefa gögn málsins ekki til kynna að brotið hafi verið gegn þessum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga eða að tilefni sé til sérstakra athugana eða umfjöllunar um þær. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. mars 2022, um að samþykkja umsókn A um atvinnuleysisbætur frá og með umsóknardegi, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta