Mál nr. 91/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. febrúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 91/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 31. október 2008. Umsóknin var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 17. desember 2008, en réttur kæranda til atvinnuleysisbóta í 60 daga sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir var felldur niður. Kæranda var tilkynnt þetta með bréfi sem var ranglega dagsett þann 7. janúar 2008 í stað 2009. Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur þann 20. maí 2009. Var hún samþykkt með 97% bótarétt en fyrrgreindur 60 daga biðtími hélt áfram að líða í samræmi við X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, vegna þess að kærandi hafði á árinu 2007 sagt upp starfi sínu án gildra ástæðna. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 20. september 2009. Hún krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þann 31. október 2008 var samþykkt en með vísan til starfsloka kæranda hjá X var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í 60 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir með vísan til 1. mgr. 54. gr., sbr. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi starfaði á leikskólanum Y frá 28. janúar 2008 til 15. október 2008 í fullu starfi. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 24. nóvember 2008, sagði hún sjálf upp starfi sínu og einnig kemur fram í vottorðinu að hún hafi verið erfið og hafi mætt afar illa og henni hafi verið gefin mörg tækifæri. Af hálfu kæranda kemur fram að þann 24. september 2008 hafi hún verið send til trúnaðarlæknis X og hafi niðurstaða þess verið sú að hún hafi verið send í veikindaleyfi vegna ofsakvíða og þunglyndis. Þegar hún hafi verið tilbúin að hefja störf að nýju hafi hún haft samband við vinnuveitanda en þá hafi verið búið að ráða í starfið. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið áskorunarbréf frá vinnuveitanda um að mæta í vinnu sem vinnuveitandi kveðst hafa sent enda hafi hún verið í flutningum. Samkvæmt læknisvottorði C læknis, dags. 1. desember 2008, var kærandi óvinnufær með öllu tímabilið frá 24. september til 15. október 2008.
Í áskorun leikskólastjóra til kæranda, dags. 21. október 2008, kemur fram að kærandi hafi ekki mætt til vinnu síðan 25. september 2008 og hafi ekki haft samband til að útskýra fjarvistir sínar frá vinnu. Ekki hafi borist læknisvottorð vegna fjarveru hennar. Í bréfi leikskólastjórans með yfirskriftinni tilkynning um starfslok, dags. 21. október 2008, segir að kærandi hafi ekki mætt til vinnu þrátt fyrir að hafa fengið áskorunarbréf um að mæta til vinnu 20. október 2008. Hún hafi verið send til trúnaðarlæknis þann 25. september 2008 og hafi ekki haft samband eftir það. Hún hafi komið sjálf þann 16. október 2008 og sagt upp störfum.
Þann 7. júní 2007 sætti kærandi niðurfellingu bótaréttar vegna starfsuppsagnar og var því í síðara skiptið um að ræða niðurfellingu bótaréttar öðru sinni, en það veldur ítrekunaráhrifum fyrri ákvörðunar skv. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur þann 20. maí 2009. Hún var samþykkt með 97% bótarétt en fyrrgreindur 60 daga biðtími hélt áfram að líða. Í tilefni af komu kæranda á starfsstöð Vinnumálastofnunar þann 5. ágúst 2009 var henni boðið að koma að athugasemdum vegna ákvörðunar stofnunarinnar sem tilkynnt var með bréfi frá 7. janúar 2009, en kærandi hafði þá ekki nýtt sér rétt sinn til andmæla. Kærandi skilaði inn athugasemdum, dags. 7. ágúst 2009, en það var mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda væru ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og með bréfi, dags. 20. ágúst 2009, tilkynnti stofnunin kæranda að fyrri ákvörðunin skyldi standa.
Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi verið sett á 60 daga bið. Henni hafi ekki verið kunnugt um hvers vegna það hafi verið gert og hún hafi ekki fengið nein svör við því. Hún kveðst ekki hafa fengið sent áskorunarbréf frá leikskólanum Y um að mæta í vinnu.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. nóvember 2009, er vísað í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og jafnframt bent á ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvörðunar sem fjallað er um í 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að í máli þessu sé um að ræða ítrekunaráhrif og sé tilgangur þeirra beinlínis að stuðla að virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun leggi áherslu á að virk atvinnuleit sé grundvallarþáttur í sjálfu atvinnuleysistryggingakerfinu og því séu úrræði á borð við þau sem 1. mgr. 56. gr. taki á beinlínis nauðsynleg til að lög um atvinnuleysistryggingar nái tilgangi sínum.
Til umfjöllunar sé hvort kærandi hafi misst starfið af gildum ástæðum í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi orðalagið „gildar ástæður“ verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir. Í athugasemdum við 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að tilvik þegar uppsögn megi rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær, geti heyrt til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Sé sérstaklega tekið fram í athugasemdum um greinina að það sé skilyrði að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en launamaðurinn lét af störfum.
Það sé ljóst á skýringum kæranda að hún hafi hætt að mæta til vinnu sinnar hjá B. Í vottorði vinnuveitanda útgefið þann 24. nóvember 2008 komi fram að kærandi hafi sjálf sagt upp störfum. Í samtali við vinnuveitanda kæranda hafi komið fram að samstarf við kæranda hafi verið erfitt. Í gögnum málsins sé að finna bréf frá vinnuveitanda kæranda þar sem skorað sé á kæranda að mæta til vinnu, að öðrum kosti verði litið svo á að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu. Kærandi hafi ekki orðið við þessari áskorun. Þá komi fram í tilkynningu um starfslok að kærandi hafi sjálf sagt upp starfi.
Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að veikindi kæranda geti ekki réttlætt það að kærandi hafi ekki verið í sambandi við vinnuveitanda sinn og tjáð honum hvenær mætti eiga von á henni til vinnu. Verði að gera kröfu um að vinnuveitanda sé kunnugt um langa fjarveru starfsmanna frá vinnu. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að þær ástæður sem kærandi færi fram geti ekki talist gildar í skilningi laganna og að nægilega sé komið fram að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Kærandi eigi því að sæta biðtíma skv. 56. laganna um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma.
Kærandi haldi því fram í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að sér hafi ekki verið tilkynnt um ákvarðanir Vinnumálastofnunar. Stofnunin hafnar því og vísar í bréf sem send hafi verið kæranda, samskiptasögu aðila og gögn málsins í því samhengi. Það sé þó ljóst að einhver bréf hafi ekki borist kæranda en Vinnumálastofnun telji með vísan í h-lið 1. og 2. mgr. 14. laga um atvinnuleysistryggingar það vera í höndum umsækjenda um atvinnuleysisbætur að kynna Vinnumálastofnun þær breytingar sem verði á dvalarstað þeirra svo auðið sé að koma nauðsynlegum upplýsingum og ábendingum til þeirra með skilvirkum hætti.
Vinnumálastofnun bendir á að ólíkt ákvæðum 3. mgr. 54. gr. og 3. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem biðtími falli niður hafi sá er sætir viðurlögum samkvæmt greinunum tekið starfi í a.m.k. tíu virka daga á meðan viðurlagatími stendur, sé engin slík heimild til að fella niður biðtíma þegar komi að ítrekunaráhrifum skv. 56. gr. laganna, heldur segi í 5. mgr. 56. gr. að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður er nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Viðurlögin sem felist í 1. mgr. 56. gr. séu því þess eðlis að 60 daga tímabilið falli ekki niður nema viðkomandi bótaþegi fari á nýtt bótatímabil. Lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur séu greiddar samfellt fyrir séu þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun taki við umsókn viðkomandi. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar teljist hluti tímabilsins, sbr. 1. mgr. 29. gr. laganna.
Vinnumálastofnun kveður nýtt tímabil hefjast skv. 31. gr. laganna þegar hinn tryggði sæki um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi uppfylli ekki þessi skilyrði greinarinnar til að fara á nýtt bótatímabil. Af þessu leiði að núverandi bótatímabil kæranda haldi áfram að líða, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta teljist hluti þessa tímabils.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. desember 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Samkvæmt gögnum málsins er ótvírætt að kærandi mætti ekki til starfa á sínum eldri vinnustað á tímabilinu 24. september til 15. október 2008. Vinnuveitandi hennar telur að hún hafi ekki upplýst sig um að hún væri veik á þessu tímabili. Læknisvottorð, dags. 1. desember 2008, gefur til kynna að kærandi hafi verið óvinnufær á nefndu tímabili vegna veikinda. Stuttu eftir miðjan október 2008 slitnaði upp úr ráðningarsambandinu, sbr. bréf yfirmanns kæranda dags. 21. október 2008. Telja verður ósannað að kærandi hafi sagt upp starfinu og verður lagt til grundvallar að henni hafi verið sagt upp. Það þykir nægjanlega í ljós leitt að það hafi verið sök kæranda að missa starf sitt í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 3/2009 frá 20. apríl 2009.
Með þessu var rétt að fresta bótagreiðslum kæranda í 60 daga eins og Vinnumálastofnun gerði með ákvörðun sinni sem tilkynnt var með bréfi dags. 7. janúar 2009. Sá biðtími var ekki liðinn þegar kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur 20. maí 2009. Á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson