Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 85/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. febrúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 85/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 10. júní 2009. Umsóknin var samþykkt þann 30. júlí 2009 með 91% bótarétti en 60 daga biðtími hélt áfram að líða í samræmi við XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, vegna þess að kærandi hafði á árinu 2007 sagt upp starfi sínu og á árinu 2008 hafði hann hafnað atvinnutilboði. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 5. ágúst 2009. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 5. júní 2007. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. júlí 2007, var honum gefinn kostur á að koma með skýringar á starfslokum sínum hjá X hf. en hann nýtti sér það ekki. Samkvæmt vinnuveitendavottorði sagði kærandi sjálfur upp hjá X hf. þann 4. maí 2007. Réttur hans til atvinnuleysisbóta var því felldur niður í 40 daga og hóf hann töku atvinnuleysisbóta þann 1. ágúst 2007 að loknum biðtíma.

Kærandi starfaði við afgreiðslu hjá Y ehf. frá 1. september 2007 til 31. desember 2007. Þá starfaði hann hjá Z sem verkstjóri/almennur starfsmaður frá 1. desember 2007 til 31. janúar 2008. Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur þann 4. febrúar 2008 og var umsókn hans samþykkt þann 12. febrúar 2008. Kærandi hafnaði atvinnutilboði frá V þann 4. mars 2008. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 13. mars 2008, var honum gefinn kostur á að andmæla þeirri fyrirhugaðri ákvörðun að fella niður greiðslu atvinnuleysisbóta til hans í 60 daga. Kærandi hafði viku til að koma andmælum sínum að en nýtti það tækifæri ekki. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 9. apríl 2008, var honum tilkynnt að sú ákvörðun hefði verið tekin daginn áður að hann skyldi ekki njóta greiðslna atvinnuleysisbóta í 60 daga. Þegar þessi ákvörðun var tekin lá fyrir athugasemd í samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda, dags. 25. febrúar 2008, að kærandi vildi ekki vinnu hjá V þar sem hann vissi að hann yrði stutt í slíku starfi.

Frá apríl 2008 til 30. september 2008 starfaði kærandi hjá Y ehf. og frá 1. október 2008 til 18. mars 2009 starfaði hann í 100% starfi hjá U og svo í 70% starfi hjá sama vinnuveitanda til 10. júní 2009. Kærandi kveðst hafa verið ráðinn hjá U til loka maí mánaðar 2009 og hafi honum verið sagt að starfsmenn færu á atvinnuleysisbætur þar til Reykjavíkurborg réði þá að nýju. Síðar hafi komið í ljós að hann fengi ekki bætur og fari á 60 daga biðtíma vegna þess að hann hafi hafnað starfi hjá V. Hann samþykkir að hann hafi hafnað því atvinnutilboði en það hafi verið vegna þess að hann hafi fengið boð um betra starf sem hann hafi síðan tekið. Hann telji sig nú eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi kveður fjármál sín vera erfið og sjái hann ekki fram á annað en gjaldþrot verði hann launalaus í 60 daga.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. október 2009, er vísað í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og tekið fram að í athugasemdum við sömu grein frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir eru samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi. Sá tími hafi verið liðinn er kærandi hafnaði -starfi hjá V hf. Fram kemur að kærandi haldi því fram að hann hafi hafnað starfinu sökum þess að honum hafi boðist annað og betra starf. Ekkert í málinu renni stoðum undir þá fullyrðingu kæranda að hann hafi fengið annað atvinnutilboð á sama tíma sem honum hugnaðist betur og það hafi verið raunveruleg ástæða þess að hann hafnaði starfinu. Þvert á móti komi fram í svari kæranda við nefndu atvinnutilboði að hann hafi hafnað starfinu sökum þess að hann hafði frekar áhuga á skrifstofustörfum og hafi talið að hann myndi endast stutt á þessum vinnustað. Fram kom í greinargerð Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið skráður hjá stofnuninni til 4. mars 2008 „svo biðdagar skv. 1. mgr. 61. gr. laganna höfðu ekki byrjað að líða er kærandi var afskráður af atvinnuleysisbótum“.

Vinnumálastofnun vitnar einnig til 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og tekur fram að hér sé um ítrekunaráhrif að ræða og sé tilgangurinn beinlínis að stuðla að virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun leggi áherslu á að virk atvinnuleit sé grundvallarþáttur í sjálfu atvinnuleysistryggingakerfinu og því séu úrræði á borð við 1. mgr. 61. gr. beinlínis nauðsynleg til að lög um atvinnuleysistryggingar nái tilgangi sínum.

Vinnumálastofnun bendir á að ólíkt ákvæðum 3. mgr. 57. gr. og 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem biðtími falli niður hafi sá er sætir viðurlögum samkvæmt greinunum tekið starfi í a.m.k. tíu virka daga á meðan viðurlagatími stendur, sé engin slík heimild til að fella niður biðtíma þegar komi að ítrekunaráhrifum skv. 61. gr. laganna. Viðurlögin sem felist í 1. mgr. 61. gr. séu því þess eðlis að 60 daga tímabilið falli ekki niður nema viðkomandi bótaþegi fari á nýtt bótatímabil. Lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur séu greiddar samfellt fyrir séu þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn viðkomandi. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar teljist hluti tímabilsins, sbr. 1. mgr. 29. gr. laganna.

Vinnumálastofnun segir að í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það þegar nýtt bótatímabil hefjist. Nýtt tímabil hefjist þegar hinn tryggði sæki um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi uppfylli ekki þessi skilyrði greinarinnar þar sem um sama bótatímabil sé að ræða. Af þessu leiði að núverandi bótatímabil kæranda haldi áfram að líða, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta teljist hluti þessa tímabils.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. október 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. október 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Með bréfi, dags. 9. apríl 2008, var kæranda kynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. apríl 2008 að kærandi skyldi sæta 60 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Þessi ákvörðun var reist á þeirri forsendu að kærandi hafi hafnað starfstilboði á meðan hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Þessi ákvörðun var annars vegar byggð á 1. mgr. 57. gr. og hins vegar á 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þær voru þá svohljóðandi:

1. mgr. 57. gr.:

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

1. mgr. 61. gr.:

Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir.

Fram hefur komið í málinu að kærandi var sviptur greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með 4. mars 2008 þótt ákvörðun um slíka sviptingu hafi ekki verið tekin fyrr en 9. apríl sama ár. Þessi afgreiðsla var ekki í samræmi við ofangreind ákvæði sem mælir fyrir um að ákvarðanir af þessu tagi skulu miðast við þann dag sem þær liggja fyrir en ekki þann dag sem ætlað viðurlagabrot á að hafa átt sér stað. Að öðru leyti virðist sem að ákvörðun Vinnumálastofnunar, sem tilkynnt var með bréfi 9. apríl 2008, hafa verið grundvölluð á réttum lagaákvæðum, bæði að formi og efni til. Þannig var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri upplýsingum og andmælum áður en ákvörðunin var tekin. Hann nýtti sér ekki það tækifæri en slíkt var honum skylt skv. 3. mgr. 9. gr. og 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Á tímabilinu 1. apríl 2008 til 10. júní 2009 starfaði kærandi á vinnumarkaði. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá tími ekki hluti tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar fyrir. Biðtími og viðurlagatími telst hins vegar til slíks tímabils. Þegar kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur 10. júní 2009 var greiðslu atvinnuleysisbóta til hans frestað á þeim grundvelli að hann ætti enn eftir að sæta hinum 60 daga biðtíma, sbr. fyrrnefnda ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt var með bréfi 9. apríl 2008. Hin kærða ákvörðun var tekin 30. júlí 2009 og var sem fyrr reist á 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 57. gr. sömu laga.

Fallast verður á þann lagaskilning Vinnumálastofnunar að kærandi hafði ekki tekið út þau viðurlög í atvinnuleysistryggingakerfinu sem biðu hans þegar hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur sumarið 2009. Þau viðurlög höfðu hins vegar ekki verið réttilega afmörkuð hvað varðar upphaf þeirra. Af þeim sökum missti kærandi rétt til atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 4. mars til 31. mars 2008 án þess að lagaskilyrði væru uppfyllt.

Með hliðsjón af þessu þykir rétt að staðfesta þá ákvörðun að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frestast um 60 daga frá og með 10. júní 2009. Hins vegar þykir rétt að ákvarða kæranda rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 4. mars til 31. mars 2008.

 

Úrskurðarorð

Kærandi, A, á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 4. mars til 31. mars 2008. Kærandi á einnig rétt til greiðslu 91% atvinnuleysisbóta frá og með 10. júní 2009 en þær greiðslur falla niður í 60 daga frá og með 10. júní 2009.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta