Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 50/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 50/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með ákvörðun sinni frá 26. ágúst 2010 ákvað Vinnumálastofnun að kærandi, A, fengi 90,8% bótarétt, þar sem starfshlutfall hennar á ávinnslutímabili bótaréttar var 90,8% skv. 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una því og óskaði eftir að mál hennar yrði tekið til meðferðar á ný hjá Vinnumálastofnun með tilliti til nýrra gagna. Stofnunin tók mál hennar fyrir á ný í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en taldi ekki að nýjar upplýsingar kæmu fram í gögnunum sem gæfu tilefni til nýrrar ákvörðunar í máli kæranda, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 29. febrúar 2012. Kærandi vildi ekki una því og kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með ódagsettu erindi, mótteknu 15. mars 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni greiddar 100% atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. júlí 2010. Var bótahlutfall hennar þá reiknað 91% af grunnatvinnuleysisbótum. Útreikningur á bótarétti kæranda var byggður á vottorði frá B. Fram kemur á vottorði vinnuveitanda að kærandi hafi starfað frá 7. ágúst 2008 til 19. júlí 2010 í 90,8% starfshlutfalli.

 

Þann 27. janúar 2012 barst Vinnumálastofnun bréf frá Eflingu stéttarfélagi þar sem farið er fram á „lagfæringu á greiðslum Vinnumálastofnunar til kæranda“. Ásamt bréfi Eflingar bárust stofnuninni launaseðlar frá B sem og útreikningur á meðaltali starfshlutfalls kæranda.

 

Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir á nýju og með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar væri staðfest.

 

Í kæru kæranda kemur fram að hún krefjist þess að tekið verði tillit til þess að um vaktavinnu hafi verið að ræða og hún hafi ekki átt þess kost að sleppa yfirvinnu sem ekki sé tiltekin í vottorði frá vinnuveitanda. Kærandi krefst þess að bætur sínar verði 100%.

 

Kærandi bendir á að í reynd hafi verið um hærra starfshlutfall að ræða en vottorðið gefi tilefni til. Hvorki sé í því tekið mið af skyldubundinni yfirvinnu né þeirri skyldu að vinna matar- og kaffitíma.

 

Einnig bendir kærandi á að í bréfi frá Eflingu sé vinnuframlag hennar útskýrt og gerð grein fyrir að um sé að ræða vinnuhlutfall umfram þau 90,8% sem vottorð vinnuveitanda hljóði upp á.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. mars 2012, bendir stofnunin á að í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sé mælt fyrir um ávinnslutímabil launamanna en ávinnslutímabilið ákvarði hlutfall bótaréttar viðkomandi launamanns. Komi fram í ákvæðinu að launamaður skuli teljast að fullu tryggður hafi hann starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Sá sem hafi starfað skemur en tólf mánuði geti talist hlutfallslega tryggður í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Auk þess bendir vinnumálastofnun sérstaklega á 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Samkvæmt vottorði vinnuveitanda hafi kærandi verið við störf hjá B frá 7. ágúst 2008 til 19. júlí 2010. Sé starfshlutfall kæranda á starfstímabilinu tilgreint sem 90,8%.

 

Í þeim gögnum sem kærandi hafi fært fram í janúar 2012 sé því haldið fram að starfhlutfall kæranda hafi í raun verið 101,55%. Kærandi hafi krafist þess að útreikningur á bótarétti sínum og greiðslur atvinnuleysisbóta taki mið af því starfshlutfalli. Í meðaltalsútreikningi Eflingar stéttarfélags sé leitast við að telja yfirvinnu kæranda til starfshlutfalls hennar á ávinnslutímabilinu. Sé nánar tiltekið vísað í meðaltalsstarfshlutfall á tímabillinu fyrir yfirvinnu, yfirvinnu vegna kaffitíma og yfirvinnu vegna frágangs. Í launaseðlum sé þó gerð grein fyrir mánaðarlegu starfshlutfalli kæranda.

 

Ekki standi rök til að meta til hækkunar bótaréttar þau skipti sem atvinnuleitandi fari yfir mánaðarlegt starfshlutfall vegna yfirvinnu enda verði ekki betur séð en að kærandi hafi fengið greitt yfirvinnuálag fyrir vinnu hennar umfram starfshlutfall hjá vinnuveitanda. Í útreikningi virðist þar að auki ekki tekið mið af því að kærandi hafi verið í mismunandi starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þess í stað sé heildaryfirvinnutímum kæranda bætt ofan á fast starfshlutfall hennar á tímabilinu. Mánaðarlegt starfshlutfall geti aldrei orðið hærra en 100% og því ekki tækt að miða við hærra hlutfall þá mánuði sem kærandi hafi fengið greitt fyrir yfirvinnu. Að sama skapi myndi sex mánaða starfstímabil launamanns í 200% starfshlutfalli að teknu tilliti til yfirvinnu hans ekki leiða til þess að hinn tryggði teldist að fullu tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Til þess þyrfti atvinnuleitandi að hafa starfað í tólf mánuði í 100% starfi, óháð þeim fjölda yfirvinnutíma er hann hafi tekið að sér umfram starfshlutfall sitt.

 

Í ljósi framangreindra sjónarmiða verði ekki fallist á að bótaréttur kæranda skuli taka mið af yfirvinnu kæranda, umfram skráð starfshlutfall hennar hjá B. Vinnumálastofnun telur að tryggingarhlutfall kæranda sé rétt reiknað 91%.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. apríl 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. maí 2012.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 30. apríl 2012, þar sem fram kemur að hún hafi skilaði inn vottorði vinnuveitanda til Vinnumálastofnunar sumarið 2010 þar sem vottað hafi verið að kærandi hafi einungis unnið 90,8% vinnu sem kæranda hafi fundist afar einkennilegt miðað við það vinnuframlag sem hún hafi skilað. Kærandi hafi í framhaldinu kynnt sér hvernig útreikningi væri háttað. Hún hafi hringt í Vinnumálastofnun og spurst fyrir um hvernig væri með vaktavinnu og vinnuhlutfall í sambandi við útreikning á rétti til bóta. Kærandi hafi fengið það svar að miða ætti við allar unnar stundir en ekki einungis dagvinnu. Í framhaldinu hafi kærandi leitað til stéttarfélagsins og beðið um aðstoð við að reikna út vinnuframlag sitt þar sem vinnuveitandi hafi neitað að gefa út vottorð með öllum unnum stundum. Stéttarfélagið hafi sent Vinnumálastofnun bréf þar sem fram komi að kærandi hafi skilað hærra starfshlutfalli en fram komi í vottorði vinnuveitanda. Í því komi hvorki fram unnar stundir vegna frágangs né unnir matar- og kaffitímar og komi fram sem yfirvinna á launaseðli, enda standi í kjarasamningi að starfsmenn eigi hvorki matar- né kaffitíma og séu það unnar stundir.

 

Kærandi bendir á að í greinargerð Vinnumálastofnunar hafi verið vitnað til 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segi „skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma“. Einnig hafi Vinnumálastofnun vitnað í að starfshlutfall kæranda sé 101,55% og að bótaréttur geti aldrei orðið meiri en 100%. Því geri kærandi sér fyllilega grein fyrir enda hafi hún aldrei farið fram á annað en að bætur hennar miðist við 100%. Þá segi í 6. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, að stofn til tryggingagjalds sé allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld séu.

 

Um samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar ætli hún ekki að tjá sig utan þess að hún kveður hana ófagmannlega, einhliða og beri, að mati kæranda, vott um óvirðingu sem starfsmenn stofnunarinnar virðist bera fyrir skjólstæðingum sínum, á þessum viðkvæmu og erfiðu tímum í þjóðfélaginu.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur þann 8. júlí 2012. Samkvæmt vinnuveitandavottorði hafði hún síðast starfað frá 7. ágúst 2008 til 19. júlí 2010. Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í e-lið 1. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að launamaður telst tryggður ef hann hefur verið launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laganna. Í 15. gr. laganna er kveðið á um ávinnslutímabil launamanna og eru 4. mgr. 15. gr. laganna svohljóðandi:

 

Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

 

Í greinargerð með 15. gr. um atvinnuleysistryggingar er nánari skýring sett fram um hvernig meta skuli starfshlutfall bótaþega annars vegar og hins vegar hvernig horfa skuli til starfstíma. Þar er því lýst að með starfstíma sé átt við það hversu lengi bótaþegi hafi verið starfandi á ávinnslutímabili. Hins vegar er fjallað ítarlega um það hvernig horfa skuli til starfshlutfalls bótaþega á ávinnslutímabili. Þar eru nákvæmar lýsingar á því hvernig reikna skuli bótarétt út frá því starfshlutfalli sem starfsmaður var ráðinn til á meðan hann var í vinnu. Hvergi er gert ráð fyrir því að horfa skuli til unninna klukkustunda starfsmannsins í vinnu sinni. Framkvæmd útreiknings bótaréttar umsækjenda um atvinnuleysisbætur hefur gengið út frá þessum reglum allt frá því að núgildandi lög voru sett. Þess vegna gildi sú regla hjá öllum umsækjendum um atvinnuleysisbætur að þeir skila vottorði frá vinnuveitanda um það starfshlutfall sem viðkomandi var ráðinn til. Það hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur unnið yfirvinnu hefur ekki verið talið skipta máli.

 

Kærandi gerir kröfu um að við ákvörðun bótaréttar hennar skuli horft til yfirvinnustunda hennar hjá fyrrum vinnuveitanda. Slík krafa er ekki í samræmi við það sem lögin um atvinnuleysistryggingar gerir ráð fyrir. Óhjákvæmilegt er því að mati úrskurðarnefndarinnar að hafna kröfum kæranda.

 

Í vottorði vinnuveitanda, dags. 13. júlí 2010, kemur fram að kærandi hafi á tímabilinu 7. ágúst 2008 til 19. júlí 2010 verið í 90,8% starfshlutfalli og getur greidd yfirvinna og unnir matar- og kaffitímar ekki fyllt upp í starfshlutfall, sér í lagi ef það er greitt sérstaklega fyrir það. Útreikningar Eflingar stéttarfélags breyta ekki því að kærandi var samkvæmt vottorðinu í 90,8% starfshlutfalli á ávinnslutímabili bótaréttar.

 

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, er hún staðfest.

 

 


 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um synjun á 100% bótarétti er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta