Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 177/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 177/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. júlí 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafi verið við vinnu í fyrirtæki sínu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 19. apríl 2010 til 9. apríl 2011, að fjárhæð samtals 1.871.766 kr., þegar hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 20. júlí 2011 og með bréfi, dags. 14. september 2011, veitti Vinnumálastofnun kæranda rökstuðning. Kærandi vildi ekki una hinni kærðu ákvörðun og kærði Sverrir Pálmason hdl. hana fyrir hönd kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 14. desember 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 19. febrúar 2009.

 

Vinnumálastofnun barst, 29. mars 2011, ábending þess efnis að kærandi væri við vinnu hjá fasteignasölunni B. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um þá vinnu fyrirfram til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun óskaði í kjölfarið eftir skýringum og athugasemdum kæranda á þessu skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með bréfi, dags. 29. mars 2011. Skýringarbréf kæranda barst stofnuninni 4. apríl 2011. Þar kveðst kærandi hafa upplýst Vinnumálastofnun, í lok febrúar 2011, um að allt benti til þess að hann gæti í apríl eða maí verið kominn á launaskrá. Hann hafi því verið í góðri trú með að hafa gert tæmandi grein fyrir máli sínu. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun er skráð orðrétt 21. febrúar 2011: „Segir að hann sé að koma hlutunum af stað aftur í fasteignabransanum. Segir að hann verði líklega kominn af skrá í apríl/maí.“

 

Við nánari athugun Vinnumálastofnunar kom í ljós að kærandi opnaði launagreiðendaskrá hjá fyrirtækinu B, 19. apríl 2010. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra voru hreyfingar á virðisaukaskattskrá fyrirtækisins tímabilið 19. apríl 2010 til 19. apríl 2011. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegri afstöðu kæranda til framangreindra upplýsinga með erindi, dags. 31. maí 2011. Skýringarbréf barst frá kæranda 6. júní 2011 til Vinnumálastofnunar þar sem hann kveðst ekki hafa neinar skýringar á því hvers vegna það sé skráð hjá ríkisskattstjóra að launaskrá hafi verið opin frá apríl 2010 enda sé það beinlínis rangt. Í kjölfarið tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, krefja hann um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og láta hann sæta stjórnsýsluviðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun kemur fram að ákvörðunin var tekin á fundi 28. júní 2011. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 4. júlí 2011.

 

Kærandi telur að ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eins og ákvæðið hljóðaði þegar ákvörðun í máli hans var tekin, leggi enga skyldu á hann þess efnis að tilkynna Vinnumálastofnun um breyttar aðstæður hjá sér, jafnvel þó hann hafi í raun gert það. Þannig hafi stofnunin enga heimild til að stöðva greiðslur til hans á grundvelli 60. gr. laganna þar sem hann hafi aldrei vísvitandi veitt stofnuninni rangar upplýsingar í umsókn sinni, eins og ákvæðið geri ráð fyrir.

 

Kærandi bendir á að við túlkun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði að líta til þess að um refsiákvæði er að ræða og meginregla í réttarfari sé að túlka refsikennd ákvæði þröngt en ekki rýmra en eftir orðanna hljóðan. Af þessu sé ljóst að 60. gr. eigi ekki við í máli hans. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í athugasemdir með frumvarpi sem varð að breytingalögum nr. 103/2011 en þar var ákvæði 60. gr. breytt. Af frumvarpinu megi ráða að markmið laganna sé meðal annars að leggja auknar og skýrari skyldur á þá sem eru tryggðir samkvæmt lögunum gagnvart Vinnumálastofnun. Segi þar að með lögunum sé gert ráð fyrir að lögð „verði sú skylda á hina tryggðu að tilkynna til Vinnumálastofnunar með eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem þeir taka á þeim tíma er þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur [...]“. Þá vísar kærandi til athugasemda með 4. gr. breytingalaganna. Vegna þessa telur kærandi að Vinnumálastofnun hafi skort lagaheimild til að taka ákvörðun í málinu á grundvelli 60. gr., sbr. 39. gr. laganna.

 

Kærandi telur rangt að Vinnumálastofnun hafi uppgötvað að eigin frumkvæði að hann hafi opnað launagreiðandaskrá. Hann bendir á að hann hafi átt nokkra fundi með Vinnumálastofnun þar sem hann hafi upplýst um þetta og þær upplýsingar hljóti að vera til hjá stofnuninni. Hann hafi til dæmis gert skilmerkilega grein fyrir málinu á fundi í september 2011 með ráðgjafa stofnunarinnar. Þar hafi komið skýrlega fram að hann hafi sem löggiltur fasteignasali lögboðnar skyldur vegna mála sem hann sinnti áður en hann fór á atvinnuleysisbætur, enda persónulega ábyrgur. Kærandi kveðst ekki hafa haft neinar tekjur af þessum lögboðnu skyldum sínum eins og ráða megi af staðgreiðsluskýrslum sem hann hafi þurft að skila til skattyfirvalda (núllskýrslur). Þá hafi hann greint frá því að hann gæti verið kominn á launaskrá í apríl eða maí 2011, eða í síðasta lagi í júní 2011. Þetta komi meðal annars fram í tölvupósti hans, dags. 4. júlí 2011.

 

Kærandi bendir á að vegna lögboðinna skyldna sinna hafi hann óskað eftir því að virðisaukaskattsnúmerið hans, sem þá hafi legið í dvala, yrði opnað. Ríkisskattstjóri hafi gert kröfu um að í tilkynningunni yrði tilgreint hvenær áætlað væri að fyrsta launagreiðsla myndi eiga sér stað. Af þeim sökum hafi verið skráð, að frumkvæði ríkisskattstjóra, að fyrsta launagreiðslan myndi eiga sér stað 1. september 2010. Kærandi bendir sérstaklega á að það sé rangt sem komi fram í gögnum ríkisskattstjóra að launaskrá hafi verið opin frá apríl 2010. Kærandi hafi aldrei gefið ríkisskattstjóra þær upplýsingar og hann hafi heldur ekki séð þær í gögnum málsins.

 

Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um rannsóknarskyldu stjórnvalda, með því að kanna ekki hjá ríkisskattstjóra hvort honum hafi reynst nauðsynlegt að tilgreina hvenær fyrsta launagreiðsla hefði átt sér stað til að geta opnað virðisaukaskattsnúmerið.

 

Kærandi telur að af þessu megi ráða að Vinnumálastofnun hafi ávallt verið upplýst um stöðu mála hans hverju sinni. Vinnumálastofnun hafi ekki gert athugasemdir við það að hann fullnægði þessum skyldum sínum. Hann hafi því verið í góðri trú um bótarétt sinn enda fékk hann engar tekjur á tímabilinu vegna vinnunnar. Kærandi telur að með því að láta sig ekki vita að hann mætti ekki opna virðisaukaskattsnúmer til að ganga frá eldri málum hafi Vinnumálastofnun brotið leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga, sbr. 7. gr. þeirra.

 

Kærandi bendir á að hann hafi svarað beiðni Vinnumálastofnunar, um að gera grein fyrir hreyfingum á virðisaukaskattskrá fyrirtækis síns á umræddu tímabili, með bréfi, dags. 6. september 2011. Vinnumálastofnun hafi á hinn bóginn hvorki tekið tillit til skýringa hans né óskað eftir frekari gögnum. Þá bendir hann á að í 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að líta skuli til hreyfinga í virðisaukaskattskrá hvort rekstur teljist stöðvaður. Þó einhverjar hreyfingar hafi verið á tímabilinu þá útiloki það ekki að rekstur hafi verið stöðvaður. Með því að hafa ekki kannað til hlítar ástæður hreyfinganna hafi stofnunin brotið rannsóknarskyldu sína, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

 

Þá telur kærandi að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn andmælarétti hans, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með því að hafa fullyrt í bréfi frá 31. maí 2011 að hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og að bætur yrðu innheimtar á grundvelli 39. gr. laganna án þess að hafa aflað skýringa frá honum.

 

Sökum framangreinds telur kærandi að verulegir annmarkar séu á meðferð málsins og að brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga leiði til þess að ákvörðun í málinu, sem sé verulega íþyngjandi og snertir aflahæfi hans, sé ógildanleg.

 

Þá telur kærandi ámælisvert að Vinnumálastofnun byggi á upplýsingum sem bárust í gegnum nafnlausan ábendingarhnapp á heimasíðu stofnunarinnar. Í því samhengi bendir hann á að Persónuvernd hafi komist að því í ákvörðun í máli nr. 2010/1040 að það samrýmist ekki sjónarmiðum 7. gr. laga nr. 77/2000 að Vinnumálastofnun hvetji til nafnlausra ábendinga með því að veita sérstaklega kost á slíkum ábendingum um meint bótasvik einstaklinga á heimasíðu sinni. Kærandi telur að það eitt að hann hafi opnað Facebook-síðu og heimasíðu þýði ekki að rekstur hans hafi verið í gangi. Þannig hljóti eðli málsins samkvæmt einhver verkefni þurft að hafa verið í gangi, svo sem sala á fasteignum.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. mars 2012, bendir stofnunin á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Stofnunin greinir frá því að þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 19. febrúar 2009 hafi hann komið inn sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þegar kærandi hafi verið búinn að nýta sér þriggja mánaða rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli þess ákvæðis, hafi réttur hans til greiðslna farið eftir þágildandi b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Af því ákvæði megi ráða að einstaklingur sem starfar á vegum einkahlutafélags þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi telst sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar mælt fyrir um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi tilkall til atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun bendir á að skilyrðin sem voru í gildi er kærandi sótti um greiðslurnar og deilt sé um séu samhljóða þeim skilyrðum sem eru í núgildandi lögum og því sé ekki gerður sérstakur greinarmunur á þeim.

 

Vinnumálastofnun vísar í ákvæði 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um almenn skilyrði sem sjálfstætt starfandi einstaklingur þarf að uppfylla. Í f- og g-liðum greinarinnar sé mælt fyrir um að einstaklingur þurfi að hafa stöðvað rekstur og hafa lagt fram staðfestingu um stöðvun rekstrar. Stofnunin vísar einnig í ákvæði 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem gerð er nánari grein fyrir því hvað átt sé við með stöðvun rekstrar. Þá bendir Vinnumálastofnun á 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um staðfestingu á stöðvun rekstrar.

 

Vinnumálastofnun telur að af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að kærandi skilaði inn tilkynningu um afskráningu af launagreiðendaskrá, staðgreiðslu og/eða virðisaukaskattskrá vegna fyrirtækisins, B., 10. mars 2010 og hafi þar með uppfyllt fyrrgreind skilyrði til greiðslna atvinnuleysisbóta sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á þeim grundvelli.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að ákvörðun um að stöðva greiðslur til kæranda á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um ótilkynnta vinnu hjá fyrirtækinu, B., hafi verið tekin á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ákvörðun um endurgreiðslu hafi verið tekin á grundvelli 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og kærandi skuli að auki endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 1.871.766 kr. með 15% álagi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. mars 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. apríl 2012. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. mars 2012, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 4. apríl 2012. Þar er meðal annars tekið fram, vegna auglýsinga sem liggja fyrir í málinu, þar sem nafn kæranda kemur fram að um lögboðna skyldu á nafnbirtingu sé að ræða, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004. Kærandi bendir á að annar tilgreindur maður hafi í raun séð um sölumeðferð þessara eigna og eignirnar séu enn óseldar. Engar tekjur hafi hlotist af þessu. Kærandi telur þetta enn eitt dæmið þar sem Vinnumálastofnun hafi brotið rannsóknarskyldu stjórnvalda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá ítrekar kærandi að hann hafi aldrei leynt tilraunum sínum til að starfa sem löggiltur fasteignasali. Hann hafi upplýst Vinnumálastofnun um stöðu mála þrátt fyrir að ekki hafi hvílt á honum lagaskylda til að gera það fyrr en 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið breytt með 3. gr. laga nr. 103/2011.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í máli þessu kemur til skoðunar sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og að hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. sömu laga.

 

Af hálfu kæranda er því meðal annars haldið fram að ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eins og það hljóðaði er hin kærða ákvörðun var tekin, hafi ekki lagt neina skyldu á hann að tilkynna Vinnumálastofnun um breyttar aðstæður. Hann hafi aldrei gefið vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn sinni, eins og ákvæðið geri ráð fyrir.

 

Ákvæði 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009, var svohljóðandi 19. apríl 2010:

 

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 var ákvæðið skýrt nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

 

Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

 

Þá segir í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 134/2009:

 

Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.

 

Af framangreindum ákvæðum 9. gr. og 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er ljóst að á kæranda hvíldi annars vegar sú skilyrðislausa skylda að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem urðu á högum hans á þeim tíma sem hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur og hins vegar að tilkynna um störf á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Þegar kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga, 19. febrúar 2009, heyrði hann undir bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 131/2008, um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Hann uppfyllti því á þeim tíma skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi naut ekki lengur undanþágu bráðabirgðaákvæðisins skilaði hann, 10. mars 2010, tilkynningu um afskráningu af launagreiðandaskrá ríkisskattstjóra til Vinnumálastofnunar til þess að uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framangreinds verður því ekki fallist á þau rök kæranda að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við í máli hans.

 

Kærandi fullyrðir að hann hafi, jafnvel þótt hann hafi ekki talið sér það skylt, látið Vinnumálastofnun vita um breyttar aðstæður hjá sér en það hafi ekki gerst fyrr en í september 2011. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun er skráð orðrétt 21. febrúar 2011 „Segir að hann sé að koma hlutunum af stað aftur í fasteignabransanum. Segir að hann verði líklega kominn af skrá í apríl/maí.“ Með vísan til þessa og þess að engar upplýsingar er að finna um að kæranda hafi á þessu stigi verið veittar upplýsingar um að hann geti hvorki skv. g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar undirbúið né starfað á fasteignasölu samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta þá verður að telja að Vinnumálastofnun hafi hér brugðist leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Þá verði jafnframt að telja að stofnuninni sé óheimilt að endurkrefja kæranda um meintar ofgreiddar atvinnuleysisbætur eftir þetta tímamark enda verður að telja að kærandi hafi hér fullnægt tilkynningarskyldu sinni, sbr. fyrrgreind ákvæði 9. og 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Varðandi þær málsástæður kæranda að hann hafi ekki haft neinar tekjur af umræddum verkefnum og að hann hafi opnað Facebook-síðu og heimasíðu þýði ekki að rekstur hafi verið í gangi þá ber að líta til þess að verkefni tengd fasteignasölu séu órjúfanlega tengd þeirri staðreynd að engin laun fáist greidd fyrir slík verkefni fyrr en við sölu fasteigna. Með vísan til þessa telst kærandi hafa verið að sinna verkefnum sem fólu í sér þátttöku á vinnumarkaði þar sem hann gat vænst þess að eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum fyrir. Þessi staða kæranda var í ósamræmi við g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu stjórnvalda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, með því að athuga ekki nánar að um lögboðna skyldu á nafnbirtingu hafi verið að ræða á auglýsingum sem liggja fyrir í málinu, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Þá hafi annar tilgreindur maður í raun séð um sölumeðferð þessara eigna og eignirnar séu enn óseldar. Með vísan til þess sem fyrr hefur verið rakið um að verkefni tengd fasteignasölu eru órjúfanlega tengd þeirri staðreynd að engin laun fáist greidd fyrir slík verkefni fyrr en við sölu fasteigna og að samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sem liggi fyrir í málinu sé kærandi skráður stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruumboðshafi einkahlutafélagsins, B., verði ekki fallist á að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að þessu leyti.

 

Af hálfu kæranda er því einnig haldið fram að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu stjórnvalda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, annars vegar með því að hafa ekki kannað hjá ríkisskattstjóra hvort honum hafi reynst nauðsynlegt að tilgreina hvenær fyrsta launagreiðsla hefði átt sér stað til að geta opnað virðisaukaskattsnúmerið en honum hafi reynst nauðsynlegt að opna númerið vegna lögboðinna skyldna sinna vegna eldri mála og hins vegar með því að hafa ekki kannað til hlítar ástæður hreyfinga á virðisaukaskattskrá fyrirtækisins á umræddu tímabili.

 

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi var ekki að opna eldra virðisaukaskattsnúmer heldur var hann að sækja um virðisaukaskattsnúmer vegna nýs félags með annarri kennitölu en með sama heiti og eldra félag hans, þ.e. B. Um skráningu virðisaukaskattskyldra aðila gilda lög um virðisaukaskatt, nr. 154/2011, og reglugerð nr. 515/1996, með síðari breytingum. Af þeim má ráða að eingöngu er skylda til skráningar félaga á virðisaukaskattskrá ef þau eru með tekjur af sölu þjónustu eða varnings yfir ákveðinni lágmarksfjárhæð. Þá er skylda samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, að greiða einhverjum aðila fyrir vinnuframlag við að afla tekna í atvinnurekstri. Með vísan til þessa og að kærandi hefur ekki sýnt fram á af hverju honum var gert nauðsynlegt að sækja um nýtt virðisaukaskattsnúmer ef ætlunin var ekki að hafa tekjur af umræddu félagi þá verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að kanna ekki hvort það hafi verið nauðsynlegt að tilgreina fyrstu launagreiðsluna til að sækja um virðisaukaskattsnúmer.

Kærandi telur að það sé rangt sem komi fram í gögnum ríkisskattstjóra að launaskrá hafi verið opin frá apríl 2010 og kveðst aldrei hafa gefið ríkisskattstjóra þær upplýsingar og hann hafi heldur ekki séð þær í gögnum málsins. Með vísan til þess sem fyrr hefur verið rakið að eingöngu er skylt að opna virðisaukaskattsnúmer ef tilgangur félags er að hafa tekjur af sölu varnings er ekki fallist á þessa málsástæðu kæranda.

 

Þá verður heldur ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga með því að láta hann ekki vita af því sérstaklega að hann mætti ekki opna virðisaukaskattsnúmer til að ganga frá eldri málum. Í ákvæðinu felst að Vinnumálastofnun er skylt að veita þeim sem til hennar leitar nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið hennar. Gögn málsins bera það ekki með sér að kærandi hafi fengið rangar leiðbeiningar.

 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn andmælarétti hans, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, með bréfi, dags. 31. maí 2011, þar sem stofnunin hafi þar fullyrt að hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og að bætur yrðu innheimtar á grundvelli 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á þessa málsástæðu kæranda er ekki fallist. Í umræddu bréfi stofnunarinnar er kæranda veittur andmælafrestur og í gögnum málsins er að finna tölvupóst frá kæranda, dags. 6. júní 2011, þar sem fram kemur að um sé að ræða svar við bréfi Vinnumálastofnunar frá 31. maí 2011. Þá hafði rannsókn á máli kæranda þegar verið byrjuð með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2011, þar sem óskað var eftir skýringum og athugasemdum kæranda skv. 13. gr. stjórnsýslulaga og skyldu þær hafa borist 4. apríl 2011. Enn fremur er skráð í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar 31. maí 2011 „Frestun – andmælaréttur – fyrirhuguð innheimta ofgreiddra bóta“.

 

Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá er kærandi skráður stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruumboðshafi einkahlutafélagsins, B. Samþykktir félagsins eru frá 25. mars 2010 og tilgangur félagsins er sagður sala fasteigna og fasteignamiðlun, kaup og sala fasteigna. Eignaumsýsla, fjárfestingar og lánastarfsemi. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra var fyrirtæki kæranda, B., nýskráð 19. apríl 2010 og dagsetning fyrstu launagreiðslunnar er sögð vera 1. september 2010. Samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum sem úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða aflaði við rekstur málsins fóru engar launagreiðslur fram til kæranda á tímabilinu 19. apríl 2010 til 19. apríl 2011. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra fékk B. verktakagreiðslur sem námu 889.011 kr. á árinu 2010 og 3.414.341 kr. á árinu 2011.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2012, kemur fram að stofnuninni hafi borist tilkynning 29. mars 2011 um að kærandi væri að vinna á fasteignasölunni B. Með vísan til ofangreinds var rétt af hálfu Vinnumálastofnunar að hefja rannsókn á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur og hvort kærandi hafi þá þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þessi rannsókn hófst með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2011, þar sem óskað var eftir skýringum og athugasemdum kæranda á framangreindu skv. 13. gr. stjórnsýslulaga. Athugasemdir kæranda bárust 4. apríl 2011.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, forsendna og niðurstöðu hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. júní 2011, í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga til hans er staðfest.

 

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, 1.627.623 kr. auk 15% álags, eða samtals að fjárhæð 1.871.766 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta