Mál nr. 58/2012
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 58/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. mars 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 2. mars 2012 tekið ákvörðun um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Ástæðan var sú að kærandi hafði stundað nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga, án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Ákvörðunin var tekin á grundvelli c-liðar 3. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1.–19. janúar 2012 að fjárhæð 85.087 kr. sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 26. mars 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði niðurfelld. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 27. október 2008.
Kærandi mætti í tvö viðtöl hjá ráðgjafa stofnunarinnar haustið 2011 þar sem hann tilkynnti um fyrirhugað nám sitt við Háskólann í Reykjavík og aflaði sér upplýsinga um námsstyrk Vinnumálastofnunar.
Vinnumálastofnun barst tölvupóstur frá kæranda 3. janúar 2012 þar sem hann óskað eftir upplýsingum um hvort hann ætti rétt á námsstyrk fyrir greiddum skólagjöldum. Var erindi kæranda svarað á þá leið að hann þyrfti að sækja um styrkinn á þar til gerðu eyðublaði. Jafnframt gerði starfsmaður Vinnumálastofnunar kæranda grein fyrir því að það væri heimilt að vera í allt að 10 ECTS-einingum samhliða töku atvinnuleysisbóta gegn því skilyrði að hann óskaði eftir að gera námssamning við stofnunina.
Þann 16. febrúar 2012 mætti kærandi í boðað viðtal hjá ráðgjafa stofnunarinnar. Þar sem í ljós kom að kærandi var skráður í 18 ECTS-eininga nám samhliða töku atvinnuleysisbóta var hann skráður af atvinnuleysisskrá.
Á fundi Vinnumálastofnunar 2. mars 2012 var tekin sú ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann var skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1.–19. janúar 2012 að fjárhæð 85.087 kr. á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna.
Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. mars 2012, segir kærandi að hann hafði verið á námskeiði hjá Vinnumálastofnun þegar hann hafi hugað að því að fara aftur í nám. Kærandi bar þetta undir ráðgjafa stofnunarinnar í kringum 19. september 2011 og spurt hvort hann ætti rétt á að fá styrk upp í skólagjöldin. Ráðgjafanum hafi litist vel á þetta og hvatt kæranda til að sækja um en ekki verið viss hvort kærandi hefði rétt á að fá styrkinn og beðið kæranda um að tala við sig þegar hann fengi inngöngu í skólann.
Kærandi hitti ráðgjafann aftur í kringum 11. nóvember 2011, sagðist hafa hefði fengið inngöngu í skólann og spurði út í styrkinn. Ráðgjafinn hafi svarað því til að hann gæti ekki fengið þennan styrk ef hann væri í meira en 10 einingum og hann ætti að koma með greiðsluseðilinn til sín en ekki greiða hann.
Kærandi sendi ráðgjafanum póst í janúar 2012 og spurðist fyrir um hvort hann hefði rétt á að fá styrk fyrir skólagjöldum þar sem hann væri búinn að skrá sig í skóla. Ráðgjafinn hafi ekki getað svarað þessu fyllilega án þess að skoða þetta nánar en hafi bent kæranda á að hann mætti vera að hámarki í 10 eininga námi til að fá styrk eða gera námssamning við Vinnumálastofnun, eða svo skildist kæranda.
Samkvæmt þessu hafi kæranda aldrei verið sagt að hann missti bótarétt ef hann færi í skóla en styrkinn fengi hann ekki. Þegar kærandi var boðaður á fund hjá ráðgjafa í febrúar hafi hann sagt strax í viðtalinu að hann væri kominn í skóla. Þá hafi honum fyrst verið sagt að þetta væri ekki leyfilegt þar sem hann væri í meira en 10 einingum. Kæranda hafi þá verið boðið að hætta í námi og halda bótum, en þar með hefði kærandi tapað skólagjöldum upp á 130.000 kr., eða vera bara í 10 einingum og halda bótunum, en samt þurft að greiða 130.000 kr. fyrir þessar 10 einingar þótt hann hefði kannski getað fengið styrk upp á um 70.000 kr.
Kærandi kveðst aldrei hafa leynt því að hann væri að fara í skóla og honum hafi aldrei verið sagt á þessum tímapunkti að þetta væri ekki leyfilegt. Kærandi telur að þarna sé á ferðinni misskilningur og hann telji ekki rétt að hann þurfi að endurgreiða þennan tíma frá janúar fram í miðjan febrúar þegar hann hafi ákveðið að láta taka sig af bótum þar sem þetta hafi ekki verið leyfilegt.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. júní 2012, er á það bent að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna eða sjálfstætt starfandi einstakling á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Þá vísar stofnunin til þess að í c-lið 3. gr. laganna sé að finna skilgreiningu á námi.
Mál þetta lúti að 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum við greinina með frumvarpi til laganna sé ítrekuð sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi nema annað leiði af samningi um vinnumarkaðsaðgerð. Ekki skipti máli hvort um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Auk þess sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur sé gerður sé að viðkomandi einstaklingur óski eftir því að slíkur samningur verði gerður við sig í upphafi annar og að því gefnu að hann uppfylli sett skilyrði.
Umrætt nám kæranda sé 18 ECTS-eininga háskólanám og hafi kærandi því ekki átt þess kost að gera námssamning við stofnunina.
Það liggur fyrir að kærandi hafi haft samband við stofnunina í byrjun janúar og fengið þá þær upplýsingar að honum hafi verið heimilt að stunda allt að 10 ECTS-eininga nám ef gerður yrði sérstakur námssamningur við stofnunina þar um. Frá þeirri stundu hefði kæranda átt að vera ljóst að honum væri óheimilt að stunda umrætt nám samhliða töku atvinnuleysisbóta.
Það sé því mat stofnunarinnar að meginregla sú er fram komi í 1. mgr. 52. gr. laganna eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt ákvæðinu teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tíma og hann sé skráður í nám.
Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum og samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. greinarinnar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laganna.
Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1.–19. janúar 2012 að fjárhæð 85.087 kr. Ekki hafi verið lagt álag á endurgreiðsluna í ljósi þess að kærandi hafi látið ráðgjafa stofnunarinnar vita um fyrirhugað nám sitt.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Samkvæmt skólavottorði lauk kærandi 18 ECTS-einingum á vorönn 2012 hjá Háskólanum í Reykjavík.
Meginregla 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á við um kæranda, þ.e. hann stundar nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda telst lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðsins. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli hans.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er það meðal skilyrða að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Þar sem nám kæranda er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna á hann ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Því ber að staðfesta niðurstöðu Vinnumálastofnunar um stöðvun greiðslna atvinnuleysistrygginga til kæranda.
Á tímabilinu 1.–19. janúar 2012 fékk kærandi greiddar 85.087 kr. í atvinnuleysisbætur á meðan hann var í skóla. Þessar bætur ber honum að endurgreiða, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 85.087 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson