Mál nr. 27/2012
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 19. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 27/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. febrúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 9. febrúar 2012 fjallað um umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 14. desember 2011. Umsókninni var synjað þar sem kærandi átti ekki rétt til atvinnuleysisbóta umfram 75% hlutastarf, sem hann gegnir hjá B. (50%) og C. (25%). Vinna kæranda á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um skv. 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Enn fremur telst kærandi ekki eiga rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. febrúar 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 14. desember 2011 í kjölfar þess að starfshlutfall hans hjá B. var minnkað úr 75% niður í 50%. Með umsókn sinni til Vinnumálastofnunar tilkynnti kærandi um 25% starf á fasteignasölunni C. Aðspurður um tekjur á fasteignasölunni sendi kærandi tilkynningu þess efnis að hann reiknaði með að hafa 0 kr. í tekjur vegna starfsins.
Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2012, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um greiðslur atvinnuleysisbóta væri hafnað á grundvelli 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kærandi telur að ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu byggist á rökvillu eins og hann útskýrir í kæru sinni.
Vinnumálastofnun óskaði með bréfi, dags. 24. janúar 2012, eftir upplýsingum um tekjur kæranda fyrir 25% starf hans á fasteignasölu. Svar kæranda er dagsett 25. janúar 2012 en þar kemur fram að tekjur kæranda hjá C. í 25% starfshlutfalli væru áætlaðar 0 kr.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. maí 2012, bendir Vinnumálastofnun á að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta í kjölfar þess að starfshlutfall hans B. hafi lækkað í 75% úr 50%. Mæli 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir um greiðslur atvinnuleysistrygginga samhliða minnkuðu starfshlutfalli en þar komi fram í 1. mgr. að launamaður sem missir starf sitt að hluta teljist hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemi tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegni áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögunum. Hið sama gildi þegar launamaður missi starf sitt en ráði sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.
Hefði kærandi misst starf sitt að öllu leyti ætti hann 75% rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt 15. gr. laganna. Samkvæmt gögnum kæranda liggi jafnframt fyrir að samanlagt starfshlutfall hans hjá B. og C. sé 75%. Þar sem enginn mismunur sé þar á milli eigi kærandi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta. Sú staðreynd að 25% starf kæranda hjá C. sé ólaunað geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa.
Enn fremur teljist kærandi ekki eiga rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistrygginga sem mælir fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna umsækjanda. Þar komi fram að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. séu hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru.
Það liggi fyrir að kærandi hafi mánaðarlegar tekjur af starfi sínu hjá B. að fjárhæð 290.000 kr. og kæmu þær tekjur til með að skerða rétt kæranda til atvinnuleysisbóta að fullu samkvæmt framangreindu lagaákvæði.
Samkvæmt framangreindu eigi kærandi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta í kjölfar þess að starfshlutfall hans hjá B. lækkaði úr 75% starfi í 50% starf. Samkvæmt vinnuveitandavottorði hafði hann áunnið sér 75% bótarétt á ávinnslutímabili. Þegar kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta starfaði hann í 25% starfi á fasteignasölunni C. ásamt starfi hans hjá B. Tekjur hans hjá C. voru 0 kr. en tekjur kæranda af starfi hans hjá B. voru mánaðarlega 290.000 kr.
Í 17. gr. laga um atvinnuleysistrygginga er fjallað um greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli, en þar segir:
„Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingahlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.“
Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur var hann í 75% starfi. Það er hann einnig eftir að starfshlutfall hans lækkaði úr 75% í 50% hjá B. en þá hafði hann 25% starf hjá C. Bótaréttur kæranda gat ekki farið yfir 75%. Hann var þegar í 75% starfi. Það, hver laun hans voru, hefur ekki áhrif á þá niðurstöðu.
Til þess er einnig að líta að í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er mælt fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna umsækjenda. Þar kemur eftirfarandi fram:
„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- og örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“
Hin kærða ákvörðun er staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. febrúar 2012 í máli A um synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson