Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 52/2012

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 19. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 52/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. mars 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hún verið stödd erlendis frá 7. febrúar til 7. mars 2012. Tekin hafi verið sú ákvörðun að kæranda skyldi ekki frá greiddar atvinnuleysisbætur þann tíma sem hún dvaldi erlendis. Jafnframt hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur 7. febrúar til 19. febrúar 2012 sem yrðu innheimtar skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. mars 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. ágúst 2011.

 

Vinnumálastofnun barst rafræn staðfesting á atvinnuleit á kennitölu kæranda frá B 20. febrúar 2012. Í kjölfarið sendi Vinnumálastofnun kæranda bréf, dags. 7. mars 2012, þar sem óskað var eftir skýringum á dvöl hennar erlendis. Kærandi hafði samband við eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar 9. mars 2012 og kvaðst ekki myndu svara bréfinu fyrr en erindi, dags. 7. febrúar 2012, sem hún hefði sent lögfræðingi Vinnumálastofnunar yrði svarað.

 

Í erindi sínu, dags. 7. febrúar 2012, óskaði kærandi eftir undanþágu frá reglum um atvinnuleysistryggingar til þess að geta farið tímabundið úr landi vegna persónulegra ástæðna. Tók hún fram að hún myndi fara til B 9. febrúar 2012 og líklegast ver þar í þrjár vikur. Tók kærandi einnig fram að hún yrð að afskrá sig úr nokkrum námskeiðum sem hún hafi skráð sig á vegna þessa.

 

Erindi kæranda var svarað með bréfi, dags. 12. mars 2012. Taldi Vinnumálastofnun sig ekki geta orðið við beiðni kæranda um undanþágu frá reglum um greiddar atvinnuleysisbætur þegar farið er tímabundið úr landi vegna persónulegra mála. Stofnuninni væri óheimilt að veita undanþágur frá c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt var tekið fram að ekki yrði litið svo á að afskráning kæranda af námskeiðunum væri höfnun vinnumarkaðsúrræða í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 13. mars 2012, tók hún fram að hún hefði farið til B 7. febrúar og komið heim 7. mars 2012. Kærandi kveðst hafa farið á skrifstofu Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ í lok janúar 2012 til þess að spyrjast fyrir um og óska eftir undanþágu vegna greiðslu atvinnuleysisbóta vegna mjög alvarlegs máls sem dóttir kæranda var að glíma við í B, þar sem hún býr. Hafi dóttirin óskað eftir aðstoð móður sinnar við að skilja við íslenskan, ofbeldisfullan eiginmann sinn. Fram kemur að kæranda hafi verið tjáð að erfitt væri að fá undanþágur hjá Vinnumálastofnun. Kærandi fór til B 9. febrúar 2012 og var þar til 7. mars 2012.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. júní 2012, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um skilyrði þess sem launamaður verður að uppfylla til þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Fram kemur í greinargerðinni að í máli þessu reyni á hvort Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en í þeim lið sé kveðið á um þá skyldu umsækjanda að hann skuli vera staddur hér á landi til að hann teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Einu undanþágurnar frá því sé að finna í VIII. kafla en þær eigi einungis við um atvinnuleit eða atvinnu í öðru landi. Skilyrði þess að aðili geti þó nýtt sér þann rétt sé að viðkomandi hafi sótt um E-303 vottorð og til að fá greiddar bætur erlendis þurfi viðkomandi aðili að skrá sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleit fer fram, sbr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hvergi í lögunum sé að finna undanþágu frá skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. vegna persónulegra ástæðna atvinnuleitanda.

 

Kærandi hafi tilkynnt fyrirfram um utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi kæranda því ekki verið gert að sæta viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. júní 2012. Kærandi sendi frekari athugasemdir með bréfi, dags. 20. júní 2012. Þar kemur meðal annars fram að eftir því sem kæranda hafi skilist líti Vinnumálastofnun svo á að þeim sem fái atvinnuleysisbætur og séu í atvinnuleit séu launþegar með þeim skyldum sem því fylgi en réttindin virðist ekki þau sömu, þ.e. varðandi veikindi, sumarfrí og orlofsgreiðslur. Vinnutíminn sé allur sólarhringurinn og óheimilt sé samkvæmt lögum að fara út fyrir landsteinana og helst að halda sig í nágrenni við heimaslóðir til að geta hlaupið til án fyrirvara í atvinnu þegar hún bjóðist og ef hún yfirleitt bjóðist.

 

Nú sé öld upplýsingatækni þar sem samskipti fari fram hratt og örugglega landshorna á milli og landa á milli og ekki taki margar vikur að bregðast við boði um starf. Telji kærandi að endurskoða þurfi lög og reglur Vinnumálastofnunar í takt við tímann og hafa það að leiðarljósi að heiðarleiki borgi sig. Í ljósi þessa ítreki kærandi kröfu sína um að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 7. febrúar til 7. mars 2012.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í máli þessu er deilt um það hvort Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar er kveðið á um þá skyldu umsækjanda um atvinnuleysisbætur að vera staddur hér á landi til þess að teljast tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og hljómar 1. mgr. 13. gr. laganna svo:

 

,,Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem uppfyllir eftirtalin skilyrði telst tryggður samkvæmt lögum þessum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra:

a.      er í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr.,

b.      er orðinn 16 ára að aldri en yngri en 70 ára,

c.       er búsettur og staddur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla,

d.      hefur heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,

e.       hefur verið launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. í starfi sem ekki er hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó V. kafla,

f.        leggur fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr., og vottorð frá skóla þegar það á við, sbr. 3. mgr. 15. gr.,

g.      hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.“

 

Í lögum um atvinnuleysistryggingar eru ekki undanþágur frá c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að öðru leyti en því sem fram kemur í VIII. kafla laganna. Þær undanþágur eiga einungis við um atvinnuleit eða atvinnu í öðru landi. Skilyrði þess að aðili geti nýtt sér þann rétt er að viðkomandi hafi sótt um E-303 vottorð og til að fá greiddar bætur erlendis þarf viðkomandi að skrá sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleit fer fram skv. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi dvaldi í B í fjórar vikur og óskaði eftir undanþágu frá tilvitnuðum c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún þyrfti nauðsynlega að sinna persónulegum málum erlendis. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið eru ekki lagaskilyrði fyrir því að greiða kæranda atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún dvaldi erlendis. Þá ber kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hún fékk greiddar þegar hún var erlendis skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 54.670 kr.

 

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. mars 2012 í máli A þess efnis að hún fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem hún dvaldi erlendis og að henni beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hún fékk fyrir tímabilið 7. febrúar til 19. febrúar 2012 að fjárhæð 54.670 kr. er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta