Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 233/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 233/2024

Fimmtudaginn 22. ágúst 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. maí 2024, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 7. ágúst 2023 og var umsóknin samþykkt 21. ágúst 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. maí 2024, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið ágúst 2023 til apríl 2024 vegna óútskýrðra tekna og reksturs á eigin kennitölu. Fjárhæð endurkröfunnar næmi 2.262.047 kr. sem yrði innheimt samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. maí 2024. Með bréfi, dags. 28. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 2. júlí 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hafi verið stöðvaðar sökum reksturs á eigin kennitölu sem verktaki og leigubílstjóri. Nauðsynleg gögn hafi borist frá kæranda þann 22. maí 2024 en þar sem kærandi hafi verið staddur erlendis í atvinnuleit hefðu gögnin ekki borist á réttum tíma.

Kærandi hafi reynt að starfa hjá fyrirtækinu B á meðan á atvinnuleysi hafi staðið. Áður hafi kærandi ráðfært sig við fulltrúa Vinnumálastofnunar en engar upplýsingar fengið um hvort slíkt væri heimilt eða ekki. Kæranda hafi verið tjáð að hámarksupphæð á mánuði í aukatekjur væri um 87.000 kr. Kærandi hafi þénað um 450.000 kr. á tímabilinu og eftir að hafa deilt þeirri upphæð niður á níu mánuði væri hún um 50.000 kr. Kærandi hafi ekki ætlað sér að brjóta lögin heldur hafi hann þurft að framfæra sig og barn sitt. Öll gögn hafi verið send viðkomandi stjórnvöldum og kærandi hafi ekkert að fela. Kærandi hafi ekki fengið nein viðbrögð við þeim gögnum sem hann hafi lagt fram þangað til nú. Vinnumálastofnun hafi ekki getað séð um gögn kæranda sem hann hafi sent á réttum tíma. Stofnunin áskilji sér fjögurra til sex vikna rétt til að vinna úr gögnunum en hafi aðeins veitt kæranda sjö daga frest.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 7. ágúst 2023. Með erindi, dags. 21. ágúst 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Í kjölfar reglulegs eftirlits Vinnumálastofnunar hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með óútskýrðar tekjur í ágúst 2023 frá C. Þá hafi kærandi einnig reynst hafa verið með reiknað endurgjald í nóvember 2023 án þess þó að tilkynning hefði borist frá kæranda um tilfallandi verktakavinnu á umræddu tímabili. Með erindi, dags. 3. maí 2024, hafi þess verið óskað að kærandi veitti stofnuninni skýringar á umræddum tekjum auk afrits af launaseðlum. Þann 7. maí 2024 hafi kærandi sent gögn sem hafi haft að geyma afrit af stöðu á bankareikningi kæranda sem hafi ekki haft þýðingu í málinu.

Þann 7. maí 2024 hafi Vinnumálastofnun sent erindi til kæranda þar sem fram hafi komið að tekjur frá fyrrverandi atvinnurekanda kæranda yrðu skráðar til skerðingar þegar greiddra atvinnuleysisbóta í ágúst 2023 í samræmi við gögn frá Skattinum.

Í ljósi þess að kærandi hafi verið með ótilkynnt reiknað endurgjald samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta hafi Vinnumálastofnun kannað hvort kærandi væri enn með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi reynst hafa verið með opna launagreiðendaskrá frá 1. október 2023 og hafi launagreiðendaskrá kæranda enn verið opin þegar kæranda hafi verið birt ákvörðun, dags. 7. maí 2024.

Kæranda hafi því verið tilkynnt með erindi, dags. 7. maí 2024, að í ljósi þess að hann hefði verið með opna launagreiðendaskrá og þegið greiðslu frá fyrrverandi atvinnurekanda í ágúst 2023 hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð kr. 2.262.047 kr. á tímabilinu ágúst 2023 til apríl 2024. Með erindi, dags. 7. maí 2024, hafi kæranda verið boðið að loka launagreiðendaskrá með því að tilkynna til Skattsins afskráningu af launagreiðendaskrá ellegar yrðu greiðslur atvinnuleysisbóta til hans stöðvaðar.

Þann 15. maí 2024 hafi Vinnumálastofnun sent erindi til kæranda. Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem hann hefði ekki lokað launagreiðendaskrá þrátt fyrir beiðni þess efnis. Þann 22. maí 2024 hafi launaseðlar borist vegna verktakavinnu sem kærandi hafi tekið að sér. Jafnframt hafi kærandi lokað launagreiðendaskrá frá og með 29. febrúar 2024. Mál kæranda hafi því verið tekið fyrir að nýju í ljósi nýrra gagna. Þann 29. maí 2024 hafi kæranda verið tilkynnt að skuld hans hefði lækkað úr 2.262.047 kr. í 1.414.884 kr.

Mistök hafi orðið við útreikninga á greiðslum til kæranda í kjölfar leiðréttingar. Í stað lækkunar á skuld kæranda hafi hann fengið mismuninn greiddan inn á bankabók sína. Skuld kæranda hafi því verið óbreytt að undanskilinni skuldajöfnun að fjárhæð 68.261 kr. vegna maí 2024. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur kæranda hafi því verið að fjárhæð 2.193.786 kr. en ekki 1.414.884 kr. líkt og honum hafi verið tilkynnt um.

Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi hafið störf sem verktaki hjá B í október 2023. Kærandi hafi opnað launagreiðendaskrá á eigin kennitölu frá og með 1. október 2023. Jafnframt hafi kærandi verið með ótilkynntar tekjur frá C í ágúst 2023 að fjárhæð 433.673 kr.

Samkvæmt f. lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur sbr. 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 20 gr. laganna sé nánar tilgreint hvenær sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi stöðvað rekstur. Í 1. mgr. 20. gr. laganna segi:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar metið er hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá vegna eignasölu enda hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.“

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Ofgreiddar atvinnuleysisbætur beri að innheimta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Kærandi hafi verið með opinn rekstur á eigin kennitölu á tímabilinu 1. október 2023 til 29. febrúar 2024. Eitt af skilyrðum þess að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi hafi stöðvað rekstur sinn sé hann sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. f. lið 18. gr. laganna. Í 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar fjallað um það hvað felist í því að stöðva rekstur sinn. Þar segi meðal annars að staðfesting á stöðvun reksturs feli í sér tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Samkvæmt framangreindu geti atvinnuleitandi sem sé með opna launagreiðendaskrá hjá Skattinum ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga á sama tíma.

Kærandi hafi einnig fengið greiddar 433.673 kr. í ágúst 2023 frá C. Þar sem kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um þær tekjur hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 95.713 kr.

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins ágúst 2023, auk október 2023 til lok febrúar 2024.

Heildarskuld kæranda standi nú í fjárhæð 2.193.786 kr., án álags, með tilliti til skuldajöfnunar. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga í ágúst 2023 og á tímabilinu 1. október 2023 til 29. febrúar 2024, sbr. 1., 2. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, […], samtals 2.193.786 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. maí 2024, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið ágúst 2023 til apríl 2024 með vísan til þess að hann hafi verið með óútskýrðar tekjur og opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Sama skilyrði á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga er að hafa stöðvað rekstur og leggja fram staðfestingu um slíka stöðvun, sbr. f. og g. liði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006. Í 20. gr. laganna kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sjálfstætt starfandi einstaklingur leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur og skal staðfestingin fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fékk greidd laun frá C í ágúst 2023 samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Þær upplýsingar bárust Vinnumálastofnun ekki fyrr en í maí 2024 vegna eftirlits stofnunarinnar og því ljóst að kærandi fékk greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á í ágúst 2023. Fyrir liggur einnig að kærandi var með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá október 2023 og var hún enn opin þegar kæranda var birt ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. maí 2024. Þann 29. maí 2024 bárust Vinnumálastofnun svo þær upplýsingar að kærandi hefði lokað launagreiðendaskrá frá 29. febrúar 2024. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2026 á tímabilinu október 2023 til 29. febrúar 2024.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Að framangreindu virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að en ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og er því ekki ágreiningur um það atriði.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. maí 2024, í máli A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta