Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 302/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 302/2024

Þriðjudaginn 17. desember 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. júlí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. maí 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 20. september 2023 og var umsóknin samþykkt 29. september 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. maí 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði ekki mætt í boðað viðtal hjá stofnuninni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. júlí 2024. Með bréfi, dags. 3. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Frekari gögn bárust frá kæranda 16. og 21. ágúst 2024. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 21. ágúst 2024 þar sem fram kom að ranglega hefði verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og því hefði hin kærða ákvörðun um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 þegar verið afturkölluð, sbr. ákvörðun stofnunarinnar frá 15. ágúst 2024. Í þeirri ákvörðun kom einnig fram að kærandi ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 2. júlí til 5. ágúst 2024 þar sem hann hefði verið lögskráður á sjó. Með erindi 17. september 2024 óskaði kærandi eftir því að halda áfram með mál sitt hjá nefndinni vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 15. ágúst 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. september 2024, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna þeirrar ákvörðunar. Sú beiðni var ítrekuð 17. október og 14. nóvember 2024. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 26. nóvember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. nóvember 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið lögskráður á skip á tímabilinu 2. júlí til 5. ágúst 2024 án hans vitundar. Faðir kæranda hafi verið að róa á bátnum og beðið kæranda að vera til taks ef hann þyrfti aðstoð á strandveiði sem hann hafi samþykkt þar sem hann hafi ekki verið kominn með vinnu. Kærandi hafi haldið að hann yrði bara lögskráður ef hann yrði kallaður um borð. Eigandi bátsins hafi lögskráð kæranda þennan tíma sem hann hafi ekki vitað af. Kærandi hafi svo ekkert farið um borð sem eigandi bátsins hafi staðfest í bréfi til Vinnumálastofnunar. Kærandi vonist til að útskýringar hans verði teknar til greina.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 20. september 2023. Með erindi, dags. 29. september 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 17. maí 2024 hafi kærandi verið boðaður í viðtal hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 22. maí 2024 á milli klukkan 09:00 og 11:00. Athygli hafi verið vakin á því að ótilkynnt forföll og forföll án gildrar ástæðu gætu valdið stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga. Boðunin hafi verið birt á „Mínum síðum“ atvinnuleitanda. Ásamt því hafi athygli verið vakin á nýjum samskiptum með tölvupósti á skráð netfang kæranda og með SMS skilaboðum í skráð símanúmer kæranda, X. Samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar hafi SMS skilaboðin borist í símtæki kæranda þann 17. maí 2024, klukkan 09:51. Þann 21. maí 2024 hafi kæranda verið send leiðrétting á boðuninni en í fyrri boðun hafi titill boðunarinnar verið rangur þótt um rétta dagsetningu hafi verið að ræða í meginmáli skilaboðanna. Það hafi verið leiðrétt með SMS boðun og tölvupósti, mótteknu þann 21. maí 2024, klukkan 09:36. Kærandi hafi hvorki boðað forföll né mætt.

Þann 22. maí 2024 hafi Vinnumálastofnun móttekið erindi frá kæranda á „Mínum síðum“, þar segi:

„Góðan daginn ég komst ekki á boðaðan fund í dag 22/5 á B. Ég mætti reyndar í gær en það var búið að boða mig á fund 21/5 en svo var honum frestað til 22/5. Ég var búin að lofa mér í smá vinnu en hélt að ég yrði búin um 11 en var það ekki, var ekki búin fyrr en rétt fyrir 12.00“

Þann 24. maí 2024 hafi Vinnumálastofnun sent kæranda erindi þar sem óskað hafi verið eftir skriflegum skýringum á fjarveru í boðað viðtal. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að skila inn skýringum. Skýringar hafi borist frá kæranda þann 27. maí 2024 þar sem hann hafi endursent skýringar sínar frá 22. maí 2024. Með erindi, dags. 28. maí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar sökum þess að hann hafi ekki mætt í boðað viðtal. Sú ákvörðun hafi var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 4. mgr. sömu greinar, laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi þegið greiðslur í 25,22 mánuði á þeim degi er atvik hafi átt sér stað. Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á máli sínu með erindi, dags. 28. maí 2024, og jafnframt sent launaseðil með vegna vinnu á tímabilinu 26. apríl 2024 til 25. maí 2024. Þann 30. maí 2024 hafi Vinnumálastofnun hafnað beiðni um endurumfjöllun á máli kæranda á grundvelli þess að engar upplýsingar hefðu komið fram sem haft gætu áhrif á upphaflega niðurstöðu þess. Í kjölfarið hafi borist yfirlit yfir tíma og vinnuskýrslur frá C sem hafi sýnt að kærandi hefði verið með skráða tíma frá klukkan 08:00 til 12:00 dagana 22. og 23. maí 2024.

Með erindi, dags. 4. júní 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurstöðu endurumfjöllunar á máli hans, sem hafi farið fram þann sama dag. Ákvörðun stofnunarinnar frá 28 maí 2024 hafi verið staðfest, þrátt fyrir að ný gögn hefðu komið fram. Framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 2. júlí 2024. Í kjölfar stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi Vinnumálastofnun farið yfir gögn í máli kæranda að nýju. Í ljósi þeirra gagna, einkum þeirra gagna sem hafi fylgt með kæru, hafi stofnunin talið að ranglega hefði verið staðið að ákvörðun í máli kæranda. Hin kærða ákvörðun um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar hafi verið afturkölluð og kæranda sent bréf þann 15. ágúst 2024 þess efnis að honum bæri ekki að sæta viðurlögum. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að hann ætti ekki rétt á greiðslum þá daga sem hann hefði verið lögskráður á skip frá 2. júlí 2024 til 5. ágúst 2024.

Þann 16. ágúst 2024 hafi kærandi sent inn bréf til Vinnumálastofnunar þar sem fram komi að hann hafi ekki verið á sjó viðkomandi daga heldur hefði hann átt að „vera til taks“ ef faðir hans þyrfti á aðstoð að halda við strandveiðar. Þá hafi kærandi einnig sent inn bréf frá eiganda og útgerðarmanns smábátsins D sem skýri skráningu kæranda á sjó þrátt fyrir að hafa ekki stundað vinnu á þeim dögum sem um ræði. Ekki hafi verið fallist á að greiða kæranda atvinnuleysisbætur þann tíma sem hann hafi verið lögskráður á skip og ákvörðun stofnunarinnar frá 15. ágúst 2024 hafi verið staðfest, þrátt fyrir að ný gögn hefðu komið fram.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta snúi að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á meðan hann hafi verið lögskráður á skipið D frá 2. júlí 2024 til 5. ágúst 2024. Frumskilyrði þess að þiggja atvinnuleysistryggingar sé að vera atvinnulaus. Í 13. og 14. gr. laganna sé nánar fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Meðal skilyrða sé að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og að hann leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda.

Í 15. gr. laganna sé fjallað um ávinnslutímabil og hvenær einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum. Í 7. mgr. ákvæðisins segi að vinnuframlag sjómanna taki mið af fjölda lögskráningardaga. Lög nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna gildi um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi sem gerð séu út í atvinnuskyni. Markmið laganna samkvæmt 1. sé að tryggja að skipverjar hafi gild skírteini til þess að starfa um borð í skipi, að skip hafi gilt haffærisskírteini og að lögboðin áhafnartrygging sé í gildi. Þá sé það einnig markmið þeirra að „tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni og að siglingatími skipverja sé skráður“. Í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna segi ennfremur að lögskráning sé lögformleg skráning skipverja um borð í skipum í gegnum lögskráningarkerfið að uppfylltum skilyrðum 5. gr. laganna.

Í 4. gr. laga um lögskráningu sjómanna segi að skipstjóri skuli sjá til þess að allir skipverjar sem séu ráðnir til starfa um borð í skipi séu lögskráðir í skiprúm. Að sama skapi skuli skipstjóri sjá til þess að skipverji sé lögskráður úr skiprúmi þegar veru hans um borð ljúki. Samkvæmt 5. gr. laganna ber skipstjóri ábyrgð á því að lögskráning fari fram í gegnum lögskráningarkerfið með rafrænum hætti.

Af ofangreindu sé ljóst að lögskráning sjómanna hafi veruleg áhrif á réttarstöðu aðila. Röng skráning hafi víðtæk áhrif og brot gegn lögunum eða tilraun til brots varði sektum eða fangelsivist, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2010. Opinberri skráningu Samgöngustofu sé meðal annars ætlað að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi, hver siglingatími þeirra sé og hvort lögboðin áhafnartrygging sé til staðar. Lögskráningardagar leiði þar að auki til réttindasöfnunar í atvinnuleysiskerfinu og almannatryggingarkerfinu, sbr. 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Samkvæmt opinberri skráningu Samgöngustofu hafi kærandi verið lögskráður á skipið D frá 2. júlí 2024 til 5. ágúst 2024. Ekki verði fallist á að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og lögbundin opinber skráning tilgreini hann í áhöfn á skipi. Beri einnig að líta til þess lögskráningardagar kæranda leiði til ávinnslu samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki verði séð að kærandi eigi rétt á atvinnuleysibótum fyrir sama tímabil og ávinni honum rétt til atvinnuleysistrygginga.

Í ljósi þess sem framan greini verði ekki fallist á að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu 2. júlí 2024 til 5. ágúst 2024, enda uppfylli hann ekki almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þrátt fyrir þau gögn sem kærandi hafi fært fram í máli þessu telji Vinnumálastofnun sér ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur fyrir sama tíma og hann hafi verið skráður á skip. Berist upplýsingar frá Samgöngustofu um breytingar á lögskráningu kæranda muni stofnunin taka mál hans fyrir að nýju.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á sama tíma og hann hafi verið lögskráður á skipið D.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabil sem hann var lögskráður á skip.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum en eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 15. gr. laga nr. 54/20026 er fjallað um ávinnslutímabil og hvenær einstaklingur telst tryggður samkvæmt lögunum. Í 7. mgr. ákvæðisins kemur fram að vinnuframlag sjómanna miðist við fjölda lögskráningardaga.

Í III. kafla laga nr. 88/2022 um áhafnir skipa er fjallað um lögskráningu sjómanna. Þar segir í 1. mgr. 13. gr. að Samgöngustofa annist rekstur og viðhald lögskráningarkerfis sjómanna. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er skipstjóra óheimilt að halda úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir á skipið og þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé afskráður, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 88/2022 er markmið þeirra meðal annars að tryggja öryggi áhafna og því markmiði skal ná meðal annars með lögskráningu áhafnar. Að framangreindu virtu er ljóst að taka skal mið af upplýsingum úr lögskráningarkerfi Samgöngustofu við mat á því hvort skilyrði laga nr. 54/2006 séu uppfyllt. 

Óumdeilt er að kærandi var lögskráður á skipið D á tímabilinu 2. júlí 2024 til 5. ágúst 2024. Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir með Vinnumálastofnun að kærandi geti ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og hann var samkvæmt opinberri skráningu lögskráður á skip. Að því virtu og með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2024, staðfest. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2024, í máli A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta