Mál nr. 131/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 131/2024
Fimmtudaginn 23. maí 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. mars 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. mars 2024, um að greiða henni ekki atvinnuleysisbætur í 45 daga vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. janúar 2024. Með ákvörðun, dags. 12. mars 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að bótaréttur væri 100%. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hún fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars 2024 til 2. maí 2024 vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. mars 2024. Með bréfi, dags. 19. mars 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 16. apríl 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. apríl 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að henni hafi verið sagt upp þann 23. nóvember 2023 og á þeim tímapunkti hafi hún átt inni orlofsdaga. Í framhaldi af uppsögn hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur, eða þann 5. febrúar 2024. Samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. mars 2024, fái hún ekki atvinnuleysisbætur í tvo mánuði þar sem hún hafi átt inni orlof sem hún hafi verið búin að vinna sér inn í samræmi við rétt sinn. Orlofið eigi kærandi og enginn geti tekið það af henni með einum eða öðrum hætti. Þar sem kæranda hafi verið sagt upp hafi hún ekki fengið neitt svigrúm til þess að nota þessa daga í raunverulegt orlof heldur sé hún send í orlof af Vinnumálastofnun vegna 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006. Í raun sé verið að brjóta á kæranda, það sé verið að taka af henni ófrjálsri hendi það sem hún hafi unnið sér inn með því að borga ekki atvinnuleysisbætur fyrir þessa tvo mánuði. Kærandi eigi þessa orlofsdaga, fyrrum vinnuveitandi hafi skuldað henni þessa orlofsdaga eftir uppsögn og þeir ættu ekki að hafa áhrif á neitt sem á eftir komi. Þetta flokkist undir mannréttindabrot. Kærandi óski því eftir að þessari niðurstöðu verði breytt og að hún fái atvinnuleysisbætur frá marsmánuði eins og hennar réttur eigi að vera.
Annað sem kæranda langi að nefna séu tekjutengdu atvinnuleysisbæturnar. Kærandi eigi að fá tekjutengdar atvinnuleysisbætur fyrstu þrjá mánuðina sem hún hefði haldið að ættu að vera 100%. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun að fyrstu 15 dagarnir á atvinnuleysisbótum séu grunnatvinnuleysisbætur, eftir það tekjutengt í þrjá mánuði en einungis 70%. Kærandi spyrji hvort það kallist tekjutenging og biðli til úrskurðarnefndar velferðarmála að skoða lögin upp á nýtt, þetta sé engum bjóðandi.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysistryggingar 24. janúar 2024. Í umsókn kæranda hafi komið fram að hún hefði lokið uppsagnarfresti 29. febrúar 2024 og að hún hefði ekki átt ótekið orlof við starfslok. Við skoðun á gögnum sem kærandi hafi sent stofnuninni hafi komið í ljós að við greiðslu í febrúar 2024 hafi hún fengið 45 orlofsdaga greidda út við starfslok. Kærandi hafi ekki valið sjálf að taka út orlofið sitt.
Með erindi, dags. 12. mars 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að bótaréttur væri 100%. Þá hafi kærandi verið upplýst um að vegna ótekins orlofs hennar væri hún skráð í orlof á tímabilinu 1. mars 2024 til 2. maí 2024. Kæranda hafi verið bent á að unnt væri að færa töku orlofs innan orlofstímabils og henni veittar leiðbeiningar um hvernig haga bæri slíkum beiðnum í bréfinu. Kærandi hafi haft samband símleiðis þann 13. mars 2024 og lýst óánægju sinni við þessa ráðstöfun á skráningu í orlof en ekki sé að finna neinar beiðnir um breytingu á skráningunni í kerfum stofnunarinnar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hún taki út ótekið orlof hjá fyrrverandi vinnuveitanda og einnig að rétti hennar til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sbr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Samkvæmt 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið sé á um upplýsingar í tengslum við umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli launamaður þegar hann sæki um atvinnuleysisbætur tilgreina hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi. Jafnframt sé Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda til að staðreyna slíkar upplýsingar. Samkvæmt launaseðli frá fyrrum vinnuveitanda kæranda hafi hún fengið greidda út 45 orlofsdaga við starfslok sín. Kærandi hafi ekki óskað eftir því að taka út orlof sitt, enda hafi hún ekki upplýst um það í umsókn sinni.
Í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um þær greiðslur sem atvinnuleitandi kunni að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum og séu ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður og því ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. sé kveðið á um ótekið orlof sem greitt hafi verið út við starfslok. Þar segi orðrétt:
,,Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.“
Atvinnuleitandi teljist því ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemi þeim orlofsdögum sem hann hafi ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslok.
Líkt og Vinnumálastofnun hafi bent kæranda á sé henni heimilt að ráða tilhögun orlofs síns. Í samræmi við 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti kærandi tiltekið hvenær hún taki út orlof sitt á orlofstímabilinu.
Hvað varðar ágreining í máli þessu er snúi að rétti kæranda til tekjutengdra atvinnuleysistrygginga og fjárhæð þeirra sé í 1. mgr. 32. gr. kveðið á um tilhögun tekjutengdra greiðslna:
„Sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögum þessum.
Þá sé að finna í 2. mgr. sömu greinar skýrt orðalag um hlutfall af meðaltali heildarlauna:
„Tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skulu nema 70% af meðaltali heildarlauna og skal miða við sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald en ekki skal miða við tekjur af störfum er umsækjandi gegnir áfram, sbr. 17. og 22. gr. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem umsækjandi hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Samkvæmt ákvæðinu nema tekjutengdar atvinnuleysisbætur 70% af meðaltekjum atvinnuleitanda. Í 6. mgr. 32. gr. laganna er tekjutengdum atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði einnig markað hámark.
Vinnumálastofnun er ekki heimilt að víkja frá ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar um hámarksgreiðslur eða tilhögun á greiðslum.“
Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hún taki út orlof sitt. Þá falli það utan verksviðs stofnunarinnar að ákvarða um hámark tekjutengingar eða viðmið þeirra samkvæmt lögum.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur í 45 daga vegna ótekins orlofs hennar hjá fyrrum vinnuveitanda. Einnig hefur kærandi gert athugasemd við fyrirkomulag tekjutengdra atvinnuleysisbóta og biðlað til úrskurðarnefndar velferðarmála að skoða lögin upp á nýtt.
Í 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um greiðslur sem eru ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. kemur fram að hver sá sem fengið hefur greitt út orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um.
Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir svo:
„Lagt er til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó er gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Kemur orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.“
Samkvæmt gögnum málsins lauk uppsagnarfresti kæranda 29. febrúar 2024 og átti hún þá 45 ótekna orlofsdaga sem voru greiddir út 1. mars 2024. Kærandi var því skráð í orlof 1. mars til 2. maí 2024. Ljóst er að kærandi á ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir það tímabil sem orlofsgreiðslurnar áttu við um, enda eru þær greiðslur ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum. Kæranda var bent á að unnt væri að færa töku orlofs á annað tímabil en orlofstökunni skyldi þó vera lokið fyrir lok orlofstímabilsins, þ.e. 15. september 2024. Þá voru kæranda veittar leiðbeiningar um hvernig haga bæri slíkum beiðnum. Að sögn Vinnumálastofnunar barst engin slík beiðni frá kæranda. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur í 45 daga vegna ótekins orlofs, staðfest.
Hvað varðar beiðni kæranda um að úrskurðarnefnd velferðarmál endurskoði lagaákvæði er lúta að tekjutengdum atvinnuleysisbótum skal tekið fram að slíkt fellur utan valdsviðs nefndarinnar en það er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 54/2006.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. mars 2024, um greiðslu atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir