Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 305/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 305/2020

Fimmtudaginn 22. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. júní 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. júní 2020, um að synja beiðni fyrirtækisins um styrk vegna starfsþjálfunar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Í febrúar 2020 óskaði kærandi eftir styrk frá Vinnumálastofnun vegna starfsþjálfunar á grundvelli þágildandi 8. gr. reglugerðar nr. 1224/2015 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Beiðni kæranda var samþykkt 13. febrúar 2020 og í kjölfarið auglýsti kærandi starf á vefsvæði Vinnumálastofnunar.

Þann 12. júní 2020 upplýsti kærandi Vinnumálastofnun að atvinnuleitandi hefði verið ráðinn til starfa og átti hann að hefja störf 22. júní 2020. Við skoðun málsins hjá Vinnumálastofnun kom í ljós að fyrirtækið hafði gert samkomulag um minnkað starfshlutfall við starfsmenn sína og starfsmenn fyrirtækisins þáðu atvinnuleysisbætur í svokallaðri hlutabótaleið frá lokum mars 2020. Með erindi stofnunarinnar, dags. 15. júní 2020, var kæranda gert ljóst að ekki væri unnt að ráða nýtt fólk til starfa í starfsþjálfun á meðan fyrirtækið nýtti sér hlutabótaleiðina. Einnig var tekið fram að Vinnumálastofnun myndi taka málið fyrir að nýju þegar ljóst væri að fyrirtækið væri ekki að nýta hlutabótaleiðina.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júní 2020. Með bréfi, dags. 23. júní 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 15. september 2020, þar sem meðal annars kemur fram að samningur um starfsþjálfun hafi verið undirritaður og samþykktur frá 23. júní 2020. Greinargerð Vinnumálastofnunar var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um styrk vegna starfsþjálfunar á grundvelli þágildandi 8. gr. reglugerðar nr. 1224/2015 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar var vísað til þess að stofnunin hefði samþykkt að gera samning við kæranda um starfsþjálfun og að hann hafi verið undirritaður 23. júní 2020.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Þar sem Vinnumálastofnun hefur samþykkt beiðni kæranda um styrk vegna starfsþjálfunar er það mat úrskurðarnefndarinnar að ágreiningur sé ekki lengur til staðar á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta