Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 569/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 569/2023

Fimmtudaginn 14. mars 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. nóvember 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. ágúst 2023, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. janúar 2021 til 30. júní 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. júní 2023 annars vegar þar sem hún hefði verið með opna launagreiðendaskrá á því tímabili og hins vegar vegna reksturs C. Fjárhæð endurkröfunnar næmi 5.298.468 kr., án álags, sem yrði innheimt samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 10. janúar 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2024. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 23. janúar 2024 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um að krefja kæranda um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til og með 30. júní 2023. Kærandi krefjist þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að endurgreiðslukrafa taki einungis til áranna 2021 til 2022.

Tekið er fram að kærandi hafi verið eigandi félagsins C sem hafi verið stofnað utan um þrifaþjónustu sem hún hafi rekið frá árinu 2017 til ársins 2019. Félagið hafi þá heitið D. Eins og sjá megi á ársreikningi félagsins fyrir árið 2019 hafi það ekki haft neinar tekjur það ár og starfsemi í raun sjálfhætt. Frá árinu 2020 hafi félagið verið rekið undir nafninu C og tilgangur þess hafi verið rekstur bifvélaverkstæðis. Kærandi hafi enga aðkomu haft að þeim rekstri en fyrir misskilning/vanþekkingu hafi hún verið skráður endanlegur eigandi í fyrirtækjaskrá. Kærandi hafi enga aðkomu haft að stjórn félagsins aðra en þá að vera varamaður í stjórn. Eignarhald kæranda á félaginu hafi verið fært yfir á réttan eiganda um áramótin 2022/2023, sbr. meðfylgjandi útprentun úr fyrirtækjaskrá Creditinfo.

Með lögum nr. 82/2019 um skráningu endanlegra eiganda hafi verið stefnt að því að bæta úr þeim ágöllum sem hafi verið hér á landi um skráningu réttra endanlegra eigenda. Ljóst sé að enn sé misbrestur á skráningu og slíkt eigi við um kæranda í máli þessu. Kærandi hafi ekki haft neinar tekjur frá félaginu og ekki verið starfsmaður þess. Um leið og henni hafi orðið ljós hin ranga skráning hafi hún verið leiðrétt.

Kærandi krefjist þess aðallega að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi. Samkvæmt b. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sjálfstætt starfandi einstaklingur hver sá sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfur sé gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Ljóst sé að kærandi hafi ekki starfað við eigin atvinnurekstur og því séu skilyrði fyrri málsliðar ekki uppfyllt. Ágreiningslaust sé að kærandi hafi ekki starfað á starfsstöð félagsins og hafi ekki þegið laun frá félaginu. Þá sé ljóst að sú skylda að standa mánaðarlega skil á opinberum gjöldum hafi ekki hvílt á kæranda sem skráðum endanlegum eiganda í fyrirtækjaskrá. Skyldan hvíli á stjórnarmanni, framkvæmdarstjóra og/eða raunverulegum stjórnanda. Ljóst sé að skilyrði síðari málsliðar séu þannig ekki heldur uppfyllt. Sú skylda sem lögð sé á sjálfstætt starfandi starfsmenn, sbr. ákvæði 20. gr. laganna, hafi því ekki hvílt á kæranda. Með vísan til þess sé þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Til vara sé þess krafist að ákvörðun verði breytt þannig að endurgreiðslan taki einungis til þess tímabils sem kærandi hafi verið eigandi félagsins. Kærandi hafi ekki verið eigandi félagsins um áramótin 2022/2023 og því ekki raunverulegur eigandi á árinu 2023. Í þeim efnum sé vísað til nýrra gagna er hafi fylgt kærunni og vísað hafi verið til að framan.

Ljóst sé að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé verulega þungbær fyrir kæranda. Kærandi hafi ekki fengið greidd önnur laun á umræddu tímabili og hafi verið í virkri atvinnuleit. Opinber skráning hafi ekki endurspeglað raunverulega stöðu kæranda innan félagsins. Með dómum Landsréttar og Hæstaréttar undanfarin áratug hafi dómstólar í æ ríkara máli leitast við að finna hina raunverulegu daglegu stjórnendur félaga og fella á þá ábyrgð. Dómstólar hafi þannig í auknum mæli fallið frá því að horfa á hina formlegu skráningu eina og sér. Þau sjónarmið eigi við hér að öllu leyti.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að í engu móti sé tekin efnisleg afstaða til kæru og rökstuðnings kæranda í málinu. Svarið sé stöðluð reifun á tilgreindum lagaákvæðum og athugasemdum í frumvarpi.

Kærandi hafi þó uppi athugasemdir við breytta afstöðu stofnunarinnar hvað varði álag en í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið krafist álags ofan á meintar ofgreiddar bætur. Hins vegar sé nú í athugasemdum krafist álags ofan á meintar ofgreiddar bætur. Kærandi ætli að hér sé um mistök að ræða hjá Vinnumálastofnun því það eitt að hún hafi nýtt sér lögbundinn rétt til þess að bera ákvörðun undir úrskurðarnefnd geti ekki kallað á breytta afstöðu. Slík sjónarmið séu ómálefnaleg.

Þá sé engin efnisleg afstaða tekin til varakröfu kæranda en þess sé krafist til vara að ákvörðun verði breytt þannig að endurgreiðslan taki einungis til þess tímabils sem kærandi hafi verið eigandi félagsins. Kærandi hafi ekki verið eigandi félagsins um áramótin 2022/2023 og því ekki raunverulegur eigandi á árinu 2023. Að öðru leyti vísi kærandi til kærunnar og þeirra sjónarmiða er þar séu reifuð sem og gagna sem þar sé vísað til.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 1. janúar 2021. Með erindi, dags. 15. janúar 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 50%.

Með erindi, dags. 3. júlí 2023, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir upplýsingum frá kæranda um störf hennar hjá fyrirtækinu C. Kærandi hafi verið innt eftir skriflegri ástæðu þess að ekki hafi verið upplýst um rekstur fyrirtækis í hennar eigu samhliða töku atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið veittur sjö daga frestur til að svara erindinu. Svör hafi borist frá kæranda þann 5. júlí 2023.

Með bréfi Vinnumálastofnunar þann 24. ágúst 2023 hafi kæranda verið tjáð að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hefðu verið stöðvaðar þar sem hún teldist ekki vera í virkri atvinnuleit. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún væri skráð 100% eigandi C samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins og verið með launamenn í vinnu frá janúar 2021 til júní 2023. Þá hafi hún sjálf verið með opna launagreiðendaskrá á eigin kennitölu samkvæmt upplýsingum frá Skattinum. Það væri því mat Vinnumálastofnunar að hún uppfyllti ekki skilyrði 14. gr. laganna. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hennar, að fjárhæð 5.298.468 kr., án álags, yrðu innheimtar í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að leiðrétta greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

Ofgreiddar atvinnuleysisbætur beri að innheimta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum og Creditinfo hafi kærandi verið 100% eigandi félagsins C. Starfsmenn hjá félaginu hafi verið einn til tveir á árinu 2021, einn til tveir á árinu 2022 og þrír frá febrúar 2023. Kærandi sem sé eigandi félagins hafi ekki verið skráð á launagreiðendaskrá á þeim árum hjá félaginu en hafi sjálf verið með opna launagreiðendaskrá á sinni kennitölu samkvæmt upplýsingum frá Skattinum.

Að mati Vinnumálastofnunar samrýmist það hvorki gildissviði né markmiði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. og 2. gr., að eigandi, stofnandi og prókúruhafi [félags] í fullum rekstri þiggi atvinnuleysisbætur. Hvort þá heldur þegar umrætt félag sé með starfsmenn í vinnu. Eðli máls samkvæmt geti einstaklingur sem sé með fólk í vinnu og fari með stjórn félags ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Eigandi fyrirtækis sem ráði starfsfólk til starfa til að sinna rekstri þess í stað þess að sinna slíkum störfum sjálfur geti ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að mati Vinnumálastofnunar. Í því samhengi skipti ekki máli að mati Vinnumálstofnunar hvort umrætt félag hafi skilað hagnaði.

Í a. lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi og vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða, sbr. c. til f. liði 1. mgr. 14. gr. Þá sé í g. lið 14. gr. kveðið á um að skilyrði fyrir virkri atvinnuleit sé jafnframt að viðkomandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Það sé mat Vinnumálastofnunar að slíkt geti hvorki samræmst markmiði laga um atvinnuleysistryggingar né ákvæði 14. gr. laganna um virka atvinnuleit.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga þann tíma sem fyrirtæki í hennar eigu hafi verið í rekstri. Í því samhengi vísi Vinnumálstofnun til 1., 2. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Til viðbótar við framangreind atvik hafi kærandi sjálf verið með opna launagreiðendaskrá á eigin kennitölu á tímabilinu. Eitt af skilyrðum þess að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi hafi stöðvað rekstur sinn ef hann sé sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. f. lið 18. gr. laganna. Í 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar fjallað um það hvað felist í því að stöðva rekstur sinn. Þar segi meðal annars að staðfesting á stöðvun reksturs feli í sér tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Samkvæmt framangreindu geti atvinnuleitandi sem sé með opna launagreiðendaskrá hjá Skattinum ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga á sama tíma.

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins [1. janúar 2021 til 30. júní 2023].

Heildarskuld kæranda standi í 5.298.468 kr., án álags. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu [1. janúar 2021 til 30. júní 2023], sbr. 1., 2. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, [án] álags, samtals 5.298.468 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. ágúst 2023, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. júní 2023 annars vegar með vísan til þess að hún hefði verið með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og hins vegar vegna reksturs fyrirtækis í hennar eigu.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Sama skilyrði á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga er að hafa stöðvað rekstur og leggja fram staðfestingu um slíka stöðvun, sbr. f. og g. liði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006. Í 20. gr. laganna kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sjálfstætt starfandi einstaklingur leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur og skal staðfestingin fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.

Í hinni kærðu ákvörðun var meðal annars vísað til þess að kærandi hefði verið með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. janúar 2021 til 30. júní 2023. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting þess efnis frá Skattinum, sbr. svar embættisins frá 4. júlí 2023 vegna fyrirspurnar Vinnumálastofnunar.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þar sem kærandi var með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. janúar 2021 til 30. júní 2023 uppfyllti hún þegar af þeirri ástæðu ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögum nr. 54/2006 á því tímabili. Er því ekki tilefni til að taka til skoðunar aðkomu kæranda að rekstri C.

Að framangreindu virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að en ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og er því ekki ágreiningur um það atriði.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. júní 2023 er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. ágúst 2023, í máli A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum