Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 47/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 12. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 47/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. apríl 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli upplýsinga sem fram komu við samkeyrslu á gagnagrunnum stofnunarinnar og ríkisskattstjóra að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem ekki hafi borist upplýsingar um óupplýstar tekjur sem óskað hafi verið eftir. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta þar sem upplýsingar vegna tekna í janúar 2011 hafi ekki borist. Jafnframt tók Vinnumálastofnun ákvörðun á fundi sínum 3. júní 2011 að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem ekki hafi borist upplýsingar vegna tekna í febrúar 2011. Kærandi hafði einnig fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í janúar 2011 samtals að fjárhæð 26.760 kr. auk 15% álags sem innheimtar yrðu skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessum ákvörðunum og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. mars 2012. Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði dregnar til baka og felldar úr gildi. Vinnumálastofnun telur að vísa beri málinu frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn og að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta 2. ágúst 2010 og aftur 1. mars 2011.

 

Við samkeyrslu á tölvugagnagrunni Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í apríl og maí 2011 kom í ljós að kærandi hafði þegið greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða í janúar og febrúar 2011 á sama tíma og hann hafði þegið atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Í janúar 2011 voru tekjur kæranda frá Greiðslustofu lífeyrissjóða 1.326.237 kr. og í febrúar s.á. voru þær 47.778 kr. Kæranda voru send bréf, dags. 8. apríl 2011 og 9. maí 2011, þar sem hann var beðinn um að skila skýringum á fyrrgreindum tekjum. Í þeim bréfum var tekið fram að samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar ber atvinnuleitendum að gefa upp tekjur meðal annars frá almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum. Engar skýringar bárust frá kæranda og var því ákvörðun tekin í máli hans á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu fyrir.

 

Á fundum Vinnumálastofnunar 28. apríl og 3. júní 2011 tók stofnunin þá ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Kæranda var tilkynnt ákvörðun stofnunarinnar með bréfum, dags. 29. apríl og 3. júní 2011. Í þeim bréfum var tekið fram að ef umræddar upplýsingar myndu berast yrði umsókn hans tekin fyrir að nýju. Jafnframt var tekið fram að ef kærandi væri ekki lengur umsækjandi atvinnuleysisbóta þá gæti hann búist við að ofgreiddar atvinnuleysisbætur yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafði kærandi þá fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 26.760 kr. vegna janúar 2011.

 

Skuld kæranda var enn ógreidd í febrúar 2012 og með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, var kæranda veittur 14 daga frestur til að greiða skuld að fjárhæð samtals 30.774 kr. með 15% álagi, að öðrum kosti yrði mál hans sent til frekari innheimtu. Þá var kæranda með bréfi þessu gefið færi á að semja um tilhögun endurgreiðslu með því að hafa samband við Greiðslustofu Vinnumálastofnunar.

 

Í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. mars 2012, kemur fram að kærandi hafi verið í fullu samráði við Vinnumálastofnun þegar hann hafi fengið atvinnuleysisbæturnar. Nú sé heilsa hans mjög slæm, hann gangi við hækjur og eigi enga möguleika á að endurgreiða stofnuninni.

  

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2012, er tekið fram að ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé dagsett 29. apríl 2011. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Vinnumálastofnun telur því að kærufrestur vegna ákvörðunar frá apríl 2011 sé nú liðinn.

 

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segi að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð. Formákvarðanir varðandi meðferð stjórnsýslumáls verði því ekki kærðar á grundvelli almennrar kæruheimildar stjórnsýslulaga. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, hafi Vinnumálastofnun ítrekað kröfu sína um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysistrygginga. Kæranda hafi verið leiðbeint um að hafa samband við stofnunina til að greiða eða semja um greiðslu skuldarinnar, að öðrum kosti yrði mál hans sent til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi. Hin eiginlega ákvörðun stofnunarinnar vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé frá 2011. Verði ekki séð að ítrekun á innheimtu vegna þeirrar ákvörðunar kunni að hafa áhrif á kærufrest til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi, dags. 28. febrúar, hafi verið tekin ákvörðun um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í stað 3. mgr. ákvæðisins enda kærandi ekki skráður atvinnulaus hjá stofnuninni og ekki grundvöllur fyrir skuldajöfnun á síðari tilkomnum atvinnuleysisbótum.

 

Vinnumálastofnun vísar til 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bendir á að ekki verði séð að fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laganna komi í veg fyrir það að stofnunin taki á síðari tíma ákvörðun um innheimtu á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laganna um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 9. júlí 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

 

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi sem var móttekið 15. mars 2012. Í bréfum Vinnumálastofnunar, dags. 29. apríl og 3. júní 2011, segir meðal annars að þar sem upplýsingar vegna tekna í janúar og febrúar 2011 hafa ekki borist séu greiðslur til kæranda stöðvaðar. Jafnframt kemur fram að sé kærandi ekki lengur umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti hann „búist við að ofgreiddar atvinnuleysistryggingar verði innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar“. Gögn málsins bera með sér að Vinnumálastofnun hafi ekki fyrr en með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, krafið kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr. laganna að fjárhæð 26.760 kr. auk 15% álags eða alls að fjárhæð 30.774 kr. vegna janúar 2011. Það er því ljóst að mati úrskurðarnefndarinnar að kæra hafi borist innan tilskilins kærufrests og er því málið tekið til úrlausnar.

 

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann þáði greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt atvinnuleysisbóta vegna tekna þar sem segir:

 

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

 

Fyrir liggur að kærandi fékk greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða í janúar og febrúar 2011 á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það eins og rakið hefur verið. Kærandi fékk á þessum tíma ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 30.774 kr. með 15% álagi. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða þá fjárhæð. Með vísan til þess og rökstuðnings Vinnumálastofnun er ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, í máli A þess efnis að kærandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur auk 15% vaxta að fjárhæð samtals 30.774 kr., er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta