Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 616/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 616/2020

Fimmtudaginn 25. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Vinnumálastofnunar, dags. 24. nóvember 2020, um að synja umsóknum fyrirtækisins um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsóknum, dags. 20. nóvember 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna tveggja starfsmanna sem voru með börn sín í sóttkví. Umsóknum kæranda var synjað með ákvörðunum Vinnumálastofnunar, dags. 24. nóvember 2020, á þeirri forsendu að starfsmennirnir hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga á sama tímabili og þeir hafi sætt sóttkví.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 7. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. janúar 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi synjað fyrirtækinu um endurgreiðslu launakostnaðar vegna sóttkvíar tveggja starfsmanna á þeim grundvelli að starfsmennirnir væru að þiggja atvinnuleysisbætur. Starfsmennirnir tveir séu á hlutabótaleið þar sem launagreiðandi greiði 75% launa og 25% séu hlutabætur. Synjun Vinnumálastofnunar beri það með sér að 75% launakostnaðar vegna sóttkvíar sem starfsmenn séu skikkaðir í af yfirvöldum lendi á launagreiðandanum og í rauninni sé ekki farið fram á annað en að sá kostnaður sé bættur fyrirtækinu. Í lögum nr. 24/2020 komi ekkert fram um launþega sem þiggi bætur samkvæmt hlutabótaleiðinni. Kærandi telji það óréttlátt að ekki stofnist réttur til greiðslna ef launþegi á hlutabótaleið lendi í sóttkví.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum, sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví.

Mál þetta varði synjun Vinnumálastofnunar vegna greiðslna í sóttkví vegna þess að viðkomandi launþegar hafi þegið atvinnuleysistryggingar á sama tímabili og þeir sættu sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga nr. 24/2020. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2020 sé áréttað að ákvæðið fjalli um þær greiðslur sem launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur kunni að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum eða samkvæmt kjarasamningum og séu ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður. Því verði að teljast eðlilegt að litið verði á þær sem ósamrýmanlegar greiðslum samkvæmt frumvarpinu og að skilyrði greiðslna samkvæmt frumvarpinu teljist ekki uppfyllt, njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur slíkra greiðslna.

Viðkomandi starfsmenn hafi þegið atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, í samræmi við bráðabirgðaákvæði V. í lögum nr. 54/2006, frá 15. mars 2020, á sama tíma og þeir hafi sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Á þeim grundvelli hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að synja umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví vegna viðkomandi starfsmanna. Þar sem launþegar hafi þegið atvinnuleysistryggingar á sama tímabili og þeir sættu sóttkví telji stofnunin skilyrði laga nr. 24/2020 ekki uppfyllt og að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda með vísan til 11. gr. laga nr. 24/2020 og athugasemda við 11. gr. í frumvarpi til laganna. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.

 

 

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að synja umsóknum kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. 

Í 1. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021. Enn fremur kemur fram að lögin gildi um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá kemur fram að lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 24/2020 er markmið laganna að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Í 5. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða atvinnurekanda launakostnað, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:

a. launamaður, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hafi sætt sóttkví,

b. launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,

c. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað og

d. atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann eða barn í hans forsjá sætti sóttkví.

Heimilt er að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, enda séu skilyrði a–c-liðar 1. mgr. uppfyllt. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess.“

Í 11. gr. laganna er tilgreint hvaða greiðslur eru ósamrýmanlegar greiðslum á grundvelli laga nr. 24/2020. Þar segir:

„Skilyrði greiðslna samkvæmt lögum þessum teljast ekki uppfyllt njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga vegna óvinnufærni að fullu á sama tímabili. Sama á við njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eða Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2020 segir að ákvæði 11. gr. fjalli um þær greiðslur sem launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur kunni að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum eða samkvæmt kjarasamningum og séu ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður. Því verði að teljast eðlilegt að litið verði á þær sem ósamrýmanlegar greiðslum samkvæmt frumvarpinu og að skilyrði greiðslna samkvæmt frumvarpinu teljist ekki uppfyllt, njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur slíkra greiðslna.

Umsóknum kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 var synjað á þeirri forsendu að starfsmenn fyrirtækisins hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga á sama tímabili og þeir hafi verið með börn sín í sóttkví. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun þáðu báðir starfsmennirnir 25% atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá kæranda á því tímabili sem sóttkví stóð yfir. Að því virtu er skilyrði til greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020 ekki uppfyllt, sbr. framangreint ákvæði 11. gr., en samkvæmt orðanna hljóðan á það við um allar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hinar kærðu ákvarðanir eru staðfestar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Vinnumálastofnunar, dags. 24. nóvember 2020, um að synja umsóknum A, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta