Mál nr. 180/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 180/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 23. júlí 2010 fjallað um mál hans hjá stofnuninni. Tekin hefði verið sú ákvörðun að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi hafi verið með tekjur vegna starfa samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. september 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 20. mars 2010 og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn.
Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem fram fór í júlí 2010, komu í ljós tekjur kæranda í aprílmánuði 2010 vegna starfa hjá fyrirtækinu X ehf. Kærandi hafði ekki tilkynnt stofnuninni um tekjur á því tímabili sem um ræðir. Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 6. júlí 2010, þar sem óskað var eftir því að kærandi gerði grein fyrir þeim tekjum er kærandi hafði samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.
Vinnumálastofnun barst tilkynning um tekjur kæranda, dags. 12. júlí 2010, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið í hlutastarfi með 25% starfshlutfalli í aprílmánuði 2010. Enn fremur kemur fram í tölvupósti frá kæranda til Vinnumálastofnunar þann 12. ágúst 2010 að hann hafi ekki haft vitneskju um að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun tekjur undir 59 þúsund krónum á mánuði, en mánaðarlegar tekjur kæranda vegna starfs hans hjá X ehf. hafi numið alls 56 þúsund krónum.
Með bréfi, dags. 27. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans myndu falla niður í tvo mánuði, en ákvörðun um biðtíma hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í fyrrgreindum tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar þann 12. ágúst 2010 bárust skýringar á atvikum í máli hans. Vinnumálastofnun tók mál kæranda upp að nýju á fundi sínum þann 1. september 2010 og með bréfi, dags. 16. september 2010, tilkynnti stofnunin kæranda að fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 23. júlí 2010 hefði verið staðfest.
Kærandi segir í skýringarbréfi sínu til Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2010, að hann hafi talið 56 þúsund króna tekjur sínar á mánuði fyrir 25% starfshlutfall vera undir frítekjumarki því sem hann kveður vera skilgreint af Vinnumálastofnun. Kærandi segir jafnframt að honum hafi verið gerð grein fyrir því á fundi í upphafi atvinnuleysis að atvinnuleitandi mætti hafa laun upp að ákveðnu marki og við það myndu bætur ekki skerðast. Kærandi segir að honum hafi ekki verið kunnugt um að tilkynna þyrfti það sérstaklega og minnist þess ekki að honum hafi verið tjáð það.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. september 2010, segir kærandi að hann hafi sótt upplýsingafund Vinnumálastofnunar, en að hann minnist þess ekki að hafa verið upplýstur um upplýsingaskyldu sína gagnvart Vinnumálastofnun. Kærandi bendir jafnframt á að laun hans fyrir hlutastarfið samhliða því að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur, hafi verið undir viðmiðunarmörkum og að hann hafi því ekki hagnast neitt á því að veita ekki Vinnumálastofnun þessar upplýsingar eins og honum hafi borið.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. maí 2011, vísar Vinnumálastofnun til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu þeirra sem tryggðir eru samkvæmt þeim lögum. Þar segir að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, skuli atvinnuleitandi ekki hafa rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.
Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda beri skylda til þess að upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans, eða annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, segi meðal annars að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar, komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
Vinnumálastofnun bendir á að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar komi fram að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 35. gr. a. laga. um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um þá skyldu atvinnuleitanda að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu atvinnuleitanda á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur.
Vinnumálastofnun telur að það liggi fyrir í máli þessu að kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu sína hjá X ehf. Vinnumálastofnun vísar jafnframt til ummæla kæranda í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þar sem kærandi segist ekki hafa vitað að tilkynna þyrfti um tekjur til stofnunarinnar og að hann minnist þess ekki að vakin hafi verið athygli á tilkynningarskyldu þessari á kynningarfundi Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun bendir á að á reglubundnum kynningarfundum Vinnumálastofnunar sé ávallt lögð áhersla á að atvinnuleitendum beri skylda til að tilkynna án tafar um tilfallandi vinnu eða hlutastörf til stofnunarinnar. Einnig telur Vinnumálastofnun að öllum ætti að vera ljós sú skylda atvinnuleitanda að tilkynna um tilfallandi störf um leið og þau eru hafin. Vinnumálastofnun telur að í ljósi þeirrar tilkynningarskyldu sem hvílir á atvinnuleitendum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum og er það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hans til atvinnuleysistrygginga.
Að mati Vinnumálastofnunar hafi því verið rétt að taka ákvörðun um biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt því telur Vinnumálastofnun að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá degi ákvörðunar. Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði eftir greiðslu atvinnuleysisbóta frá ákvörðunardegi, sbr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í byrjun apríl 2010 og skilaði þá meðal annars vinnuveitendavottorði frá X ehf. Umsóknin hans var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar í lok apríl 2010. Með bréfi, dags. 6. júlí 2010, var kæranda gerð grein fyrir því að upplýsingar hafi borist um að hann hafi aflað starfstekna í apríl 2010. Í framhaldi af því skilaði kærandi upplýsingum um tekjurnar en hann hafði þá sinnt 25% starfi hjá Xehf. frá og með apríl 2010. Á grundvelli þessara upplýsinga var sú ákvörðun tekin að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda um tveggja mánaða skeið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þegar atvinnuleitandi sinnir tilfallandi vinnu, samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, ber honum að upplýsa um slíkt fyrir fram, sbr. 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar. Brjóti atvinnuleitandi á þessu ákvæði kann hann að sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. til dæmis úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 7. desember 2010 í máli nr. 80/2010. Sinni atvinnuleitandi hlutastarfi, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur, kann hann einnig að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru mun meira íþyngjandi en þau sem getið er í 59. gr. laganna.
Í ljósi þess að kærandi sinnti hlutastarfi, eftir að hann hóf töku greiðslu atvinnuleysisbóta, og án þess að hann upplýsti fyrir fram um eðli þess starfs, þá verður að leggja til grundvallar að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi fremur við í máli hans en 59. gr. laganna. Það styrkir þessa niðurstöðu, fremur en hitt, að kærandi sinnti hlutastarfi í apríl 2010 hjá sama vinnuveitanda og hann hafði unnið fyrir, áður en hann skráði sig atvinnulausan.
Leggja verður til grundvallar að hin kærða ákvörðun hafi verið reist á röngum lagagrundvelli, þ.e. beita átti fremur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í málinu í stað 59. gr. laganna. Þar sem viðurlög samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru afar íþyngjandi í garð atvinnuleitenda, verður að veita þeim kost á að leita endurskoðunar á ákvörðun sem reist er á ákvæðinu. Af þessari ástæðu getur úrskurðarnefndin ekki afgreitt málið á þeim lagagrundvelli. Því verður hin kærða ákvörðun ómerkt og Vinnumálastofnun falið að taka málið til löglegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. júlí 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í tvo mánuði er ómerkt og málið vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson